Er Bush hættur að fíla fríverslun?

Það var mikið fagnaðarefni í desember þegar Bandaríska þingið samþykkti að veita Bush forseta leyfi til þess að semja um fríverlsun án þess að þurfa að leita samþykkis Öldungadeildarinnar í hverju skrefi.

Það var mikið fagnaðarefni í desember þegar Bandaríska þingið samþykkti að veita Bush forseta leyfi til þess að semja um fríverlsun án þess að þurfa að leita samþykkis Öldungadeildarinnar í hverju skrefi. Þegar umræðan um málið stóð sem hæst skrifaði Þórlindur Kjartansson pistil um málið á Deigluna. Þar sagði hann m.a.:

„Forseti Bandaríkjanna hefur sýnt að vilji hans til þess að koma á fríverslun í heiminum er einlægur. Það er ólíkt því sem gjarnan hefur verið uppi á teningnum hjá Bandaríkjamönnum sem gjarnan hafa dregið lappirnar í slíkum málum á grundvelli þess að fríverslun kæmi sér illa fyrir ákveðnar atvinnugreinar. Slík rök halda engu vatni þótt ekki sé deilt um að aukin samkeppni geti haft tímabundna erfiðleika í för með sér fyrir afmarkaða hópa.“

Og bætir við:

„Ef Bandaríkjamenn ganga fram með góðu fordæmi í þessu máli þá munu einangrunarsinnar í Evrópusambandslöndunum verða sífellt einangraðri og að lokum gæti jafnvel tekist að brjóta niður múra tollabandalagsins og koma á alþjóðlegri fríverslun með tilstilli Alheimsviðskiptastofnunarinnar.“

Því miður hefur margt breyst síðan 6. desember þegar þessi grein birtist. Stefna Bush forseta virðist hafa snúist algjörlega við og nú berast ítrekað fregnir af því að stjórn Bush láti hafta- og verndunarlöggjöf yfir sig ganga og hafi jafnvel frumkvæði að henni. Fyrsta áfallið var 5. mars sl. þegar ákveðið var að setja háan toll á innflutt stál. Í kjölfarið fylgdu fleiri svipaðar ákvarðanir t.d. varðandi kanadískt timbur. Þetta er að að sönnu mikið áfall fyrir stuðningsmenn Bush og Repúblikanaflokksins því með hegðun sinni í lok síðasta árs virtist sem demókratar væru líklegir til að missa tilkall sitt sem fríverslunarflokkur Bandaríkjanna. Nú er ljóst að repúblikanar munu ekki fylla það skarð heldur verða áfram ímynd einangrunar á öllum sviðum.

Nú fyrir skemmstu reið annað áfall yfir fríverslunarsinna. Bandaríkjastjórn ákvað að hækka niðurgreiðslur til bænda um 80% á næstu 10 árum. Með þessu er fríverslunarferlinu í heiminum stefnt í voða. Bandaríkjamenn stefna óðum að því að verða jafnslæmir og Evrópusambandið í landbúnaðarmálum (þótt enn eigi þeir langt í land) og er þá engin trúverðugur aðili eftir í heiminum til að þrýsta á um aukna fríverslun á þessu sviði.

Þetta er ekki einasta áfall fyrir okkur Vesturlandabúa heldur bitnar það harðast á fátækum ríkjum Afríku og Asíu. Þau ríki gætu hæglega hagnast mjög á því ef samningar tækjust um opnun markaða með landbúnaðarvörur en vegna pólitísks vægis bændasamfélagsins í Evrópu og Ameríku er útlit fyrir að íbúum þessara svæði muni áfram reynast ókleift að finna markaði fyrir vörur sínar, nema með himinháum verndartollum – eða í samkeppni við mikið niðurgreiddar vörur.

Samkvæmt grein í vikublaðinu The Economist er útlit fyrir að nýlegar ákvarðanir Bush Bandaríkjaforseta muni hafa mjög neikvæð áhrif á framvindu samningaviðræðna undir forystu Alheimsviðskiptastofnunarinnar (WTO). Ef Bandaríkjamenn hætt að vera aflvakar fríverslunar í heiminum þá er ljóst að næstu áratugir haft ákaflega litla framför í för með sér. Greinarhöfundur The Economist telur jafnvel að alþjóðavæðingin sé í hættu ef fram fer sem horfir. Ljóst er að efnahagslegar framfarir síðasta áratugar hvíldu á stöðum aukins viðskiptafrelsis og sú þróun sem við horfum upp á nú í Bandaríkjunum er því ákaflega hættuleg.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)