Burt með þig!

Það er alltaf jafnóþolandi þegar stjórnmálamenn þora ekki að taka á vandanum heldur reyna að bræða saman málamyndatillögur til að reyna að sætta ólík sjónarmið. Í síðustu viku setti Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri fram eina slíka. Reykjavíkurflugvöllur skal víkja að hluta til en vera áfram að hluta til.

Það er alltaf jafnóþolandi þegar stjórnmálamenn þora ekki að taka á vandanum heldur reyna að bræða saman málamyndatillögur til að reyna að sætta ólík sjónarmið. Í síðustu viku setti Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri fram eina slíka. Reykjavíkurflugvöllur skal víkja að hluta til en vera áfram að hluta til.

Deilan um framtíð Reykjavíkurflugvallar virðist engan endi ætla að taka. Landsbyggðin vill, skiljanlega, hafa völlin þarna áfram en Reykvíkingar virðast flestir þeirrar skoðunar að hann skuli víkja. Frá sjónarhóli Reykvíkingsins lúta öll rök að því að flugvöllurinn eigi að fara burt og það strax. Borgin hefur þanist út í úthverfin, langt umfram öll skynsemismörk síðustu árin. Verðmæti og stærð þess lands sem flugvöllurinn hindrar að verði byggt er mjög mikið fyrir borgina. Þarna gæti að mati sérfræðinga þrifist allt að 20.000 manna byggð eða álíka fjöldi og býr í Grafarvogi, Breiðholti og Hafnarfirði. Þar að auki myndi byggð í Vatnsmýrinni þétta byggð, draga úr kostnaði við umferðarmannvirki í úthverfum og skapa möguleika á því að það myndist alvöru borgarstemning í miðborginni okkar.

Kostirnir eru ótvíræðir fyrir Reykvíkinga. Hins vegar sér landsbyggðin þessu allt til foráttu. Höfuðborgin þarf að vera í góðum tengslum við landsbyggðina og að þeirra mati er það gjörsamlega fáránlegt að flytja helsta samgöngumannvirki landsins frá miðbæ Reykajvíkur. Staðreyndin er hins vegar sú að innanlandsflug er ákaflega lítið notað á Íslandi. Að sögn talsmanns 102 Reykjavík, samtaka gegn flugvellinum, fara að jafnaði um 1.000 manns um flugvöllinn á dag, sem er talsvert færri en fara um tvær strætóstoppistöðvar í Breiðholtinu. Meira að segja má færa sterk rök fyrir því að farþegum í innanlandsflugi muni fækka á komandi árum með tilkomu betra vegakerfis.

Vissulega er það þægilegt fyrir þá sem þurfa mikið að vera á ferðinni vinnu sinnar vegna að hafa flugvöllinn í miðbæ Reykjavíkur. En er það réttlætanlegt þeirra vegna? Er tími þeirra það dýrmætur að það sé lífsins ómögulegt fyrir þá að leggja á sig 30-45 mínútna keyrslu til og frá Keflavík í hvert skipti sem þeir fljúga til höfuðstaðarins? Gætu þeir sem stunda viðskipti við útlönd ekki með sama hætti farið fram á að millilandaflug verði einnig í Reykjavík? Ég er viss um að tími þeirra sem eru sífellt í viðskiptaferðum til útlanda sé líka ansi dýrmætur. Ég er meira að segja viss um að þeir séu ekki mikið færri, ef ekki fleiri, en þeir sem eru á sífelldum þönum á milli Reykjavíkur og landsbyggðarinnar. Allavega er farþegafjöldi um Keflavíkurflugvöll á ári um fimm sinnum meiri en um Reykjavíkurflugvöll.

Við vitum allavega að það eru að hámarki eitt þúsund á dag sem fara um Reykjavíkurflugvöll. Vafalaust aðeins brot af þessu þúsundi sem fer um hann daglega, nokkrum sinnum í viku eða vikulega. Er það réttlætanlegt þeirra vegna að flugvöllurinn verði áfram? Hvað með þessa tuttugu þúsund sem gætu búið í Vatnsmýrinni? Vega hagsmunir þeirra minna? Eða hagsmunir íbúa höfuðborgarsvæðisins sem munu njóta betri borgar, bættra almenningssamgangna, minni kostnaðar við umferðarmannvirki og minni mengunar? Og væri það svo slæmt fyrir íbúa úti á landi að fá beina tengingu við útlönd í gegnum Keflavík? Er ekki óþolandi fyrir landsbyggðarferðalanga í dag að þurfa að fljúga fyrst til Reykjavíkur? Þeir gætu meira að segja gert út þetta fyrir útlendinga. Þeir eru ekki allir að koma hingað til að njóta höfuðstaðarins. Margir þeirra vildu eflaust komast á sem þægilegastan máta beint í snertingu við náttúruna. Fljúga beint til Akureyrar, Egilsstaða eða Húsavíkur án þess að stoppa í djammborginni Reykjavík.

Í þeirri viðleitni að friða bæði sjónarmið varpaði Steinunn Valdís fram þeirri hugmynd í síðustu viku að hluti vallarins skuli fara burt en ein braut verði áfram. Að hætti stjórnmálamannsins horfist hún ekki í augu við vandann heldur reynir að feta vonlausa málamyndaleið. Verði þetta að veruleika verður hægt að reisa um 5.000 manna lágreista byggð í Vatnsmýrinni sem býr við tilheyrandi óþægindi vegna nærverunnar við flugvöllinn. Sá galli er þó á gjöf Njarðar að forsvarsmenn Flugfélags Íslands hafa sagt það ómögulegt að halda uppi áætlunarflugi með einungis eina flugbraut. Það er því ljóst að þessi hugmynd borgarstjórans er sett fram í þeirri von um að friða ólík sjónarmið þó svo að hún gangi ekki upp frá sjónarhóli beggja aðila. Innanlandsflug mun leggjast af og þar að auki yrði lágreist 5.000 manna byggð þarna skipulagslegt klúður.

Borgaryfirvöld þurfa að takast á við þetta flugvallarmál í eitt skipti fyrir öll. Ef völlurinn á að vera áfram þarf að ráðast í miklar framkvæmdir til að bæta þá aðstöðu sem er fyrir hendi. Í staðinn væri hægt að nýta fullkominn samgöngumannvirki í Keflavík með einhverjum breytingum þó. Að mínu mati eru rök Reykvíkinga miklu sterkari en landsbyggðarrökin. Það er einfaldlega ekki réttlætanlegt að hafa þennan flugvöll í Vatnsmýrinni öllu lengur sama hvernig á það er litið. Ég segi því einfaldlega burt með þig og þó fyrr hefði verið!

Latest posts by Þórður Heiðar Þórarinsson (see all)