Viltu vita helming af leyndarmáli?

Ímyndaðu þér að yfirlýsingu forsætisráðherra um Íraksmálið hefðu fylgt fyrri útgáfur skjalsins með nafngreindum athugasemdum og breytingum. Velkominn í undraveröld Microsoft Word.

Ímyndaðu þér að yfirlýsingu forsætisráðherra um Íraksmálið hefðu fylgt fyrri útgáfur skjalsins með nafngreindum athugasemdum og breytingum. Ímyndaðu þér að yfirlýsingu lyfjarisa um innköllun skaðlegs lyfs fylgdi handrit af umræðum og skoðanaskiptum sem fram hafa farið bak við tjöldin í fyrirtækinu. Velkominn í undraveröld Microsoft Word.

Ritvinnsluforritið Word frá Microsoft hefur verið uppspretta nokkurra skondinna frétta síðustu tvö ár. Sú fyrsta var eflaust þegar Colin Powell, þáverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, vitnaði í glænýja leyniþjónustuskýrslu frá breska forsætisráðuneytinu til stuðnings máli sínu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í febrúar 2003. Skýrslan var hluti af röksemdafærslu Powells fyrir því að Saddam Hussein hefði undir höndum gjöreyðingarvopn og tafarlaus árás á Írak því nauðsyn.

Skýrslan kom Glen Rangwala, fræðimanni við Cambridge háskóla, hins vegar kunnuglega fyrir sjónir. Hann hafði lesið stóra hluta hennar í september 2002 í litlu tímariti: the Middle East Review of International Affairs. Það vildi svo skemmtilega til að breska forsætisráðuneytið hafði gefið skýrsluna út í Word skjali. Kunnáttumenn voru því ekki lengi að veiða út úr skjalinu svokallað „Word metadata“ og sáu þá að „leyniþjónustuskýrsla“ ríkisstjórnarinnar var í raun soðin saman úr þremur eldri greinum. Ein þeirra var grein háskólanemans Ibrahim al-Marashi, frá Monterey í Kaliforniu, í fyrrnefndu tímariti. Bresku embættismennirnir höfðu ekki einu sinni haft fyrir því að leiðrétta stafsetningarvillur Ibrahims í köflunum sem þeir stálu.

En hvað er þetta dularfulla „Word metadata“ – þessi refsivöndur veiklyndra embættismanna? Tækni- og vísindaarmur Deiglunnar hefur svarið að venju.

Bill Gates og meðreiðarsveinar hans hjá Microsoft hafa yfirburðastöðu á markaði með stýrikerfi fyrir skrifstofutölvur. Í skjóli þessarar stöðu hafa þeir drepið alla samkeppni á ritvinnsluforritamarkaði og Word frá Microsoft er nú nær einrátt á flestum sviðum viðskipta og stjórnsýslu. Til þess að viðhalda þessari stöðu sinni hefur Microsoft komið því svo fyrir að hið kunnuglega .doc skráasnið Word skjala er illlæsilegt öðrum ritvinnsluforritum. Jafnvel lék fyrirtækið á tímabili þann leik að gera sköl skrifuð í nýjustu útgáfu Word ólæsileg í eldri útgáfum og þvingaði notendur þannig til þess að kaupa uppfærslu.

Þessi torrlæsileiki Word skalanna gerir ekki einungis keppinautum Microsoft erfitt að opna skjölin í sínum ritvinnsluforritum heldur gerir það venjulegum Word notendum í raun ómögulegt að vita hvaða upplýsingar þeir eru að láta frá sér í skjölunum. Þær eru einmitt talsvert meiri en flestir gera sér grein fyrir.

Til þess að veita notendum ýmsa „fídusa“ (sem sumir kjósa að kalla „bögga“) þá innihalda Word skjöl ógrynni af upplýsingum, sem venjulega sjást ekki á skjánum í Word. Word notendur kannast við tilhneigingu skjalanna til þess að stækka og stækka við hverja breytingu – jafnvel þótt notandinn telji sig vera að eyða texta úr skjalinu. Þessi hegðun skýrist af því að textanum er í raun ekki eytt heldur er hann aðeins gerður ósýnilegur. Með réttum tólum er hægt að framkalla hann aftur og jafnvel sjá hver gerði hvaða breytingar. Þessar földu upplýsingar eru kallaðar „Word metadata“, en enska orðskrípið „metadata“ þýðist í grófum dráttum sem „gögn um gögn“.

En það eru ekki aðeins rykfallnir breskir bírókratar í tvídjökkum sem falla í „metadata“-pyttinn. Í könnun sem ráðgjafafyrirtækið Workshare gerði nýlega kom fram að 75% allra viðskiptaskjala innihalda faldar viðkvæmar upplýsingar. Dæmi voru um tilboð, sem höfðu verið endurnýtt með hækkuðum upphæðum fyrir fávísari kúnna og niðrandi athugasemdir, sem hafði verið eytt út úr lokaútgáfu texta, en leyndust samt enn þá innan um annað „metadata“. Microsoft gaf reyndar, fyrir réttu ári síðan, út sérstakt tól til þess að fjarlægja „metadata“, en fáir virðast vita um tilvist þess (frekar en tilvist „Word metadata“ yfirleitt).

Svo virðist sem Microsoft hafi að lokum tekist að velgja nógu mörgum möppudýrum undir uggum til þess að nú er víða gerð sú krafa í opinberum útboðum að skráasnið séu auðlesin og aðgengileg. Viðbrögð risans frá Redmond voru þau í síðustu viku að opna að hluta til skráasniðið fyrir Microsoft Word 2003 – skref sem gæti blásið lífi í hinn helbláa ritvinnsluforritamarkað.

Frekari fróðleikur:

Frétt Channel4 um „leyniþjónustuskýrslu“ bresku ríkisstjórnarinnar.

Greining á skýrslunni.

Frétt BBC um „Word metadata“.

Microsoft Remove Hidden Data Plugin.

Microsoft Office 2003 XML Reference Schemas.