Að gera hallarbyltingu með tveimur saumaklúbbum

Það virðist loga stafna á milli í Framsóknarflokknum. Hver höndin upp á móti annarri og allir að skara eld að sinni köku. Í Reykjavík er sagt að Hvítasunnumenn séu í krossferð gegn Don Alfreð og í Kópavogi tókst tveimur konum að gera hallarbyltingu í kvenfélaginu Freyju með saumaklúbbunum sínum. Er von að spurt sé: Hvað er að gerast hjá Frömurum?

Þeir Palli og Árni glaðir í bragði eftir velheppnaða hallarbyltingu.

Það virðist loga stafna á milli í Framsóknarflokknum. Hver höndin upp á móti annarri og allir að skara eld að sinni köku. Í Reykjavík er sagt að Hvítasunnumenn séu í krossferð gegn Don Alfreð og í Kópavogi tókst tveimur konum að gera hallarbyltingu í kvenfélaginu Freyju með tveimur saumaklúbbum. Er von að spurt sé: Hvað er að gerast hjá Frömurum?

Sérstaða Framsóknarflokksins í íslenskum stjórnmálum endurspeglast í því að styrkur flokksins er, vegna hins pólitíska landslags sem ríkjandi er hér, langt umfram það sem eðlilegt getur talist. Flokkur sem státar af rúmlega 15% fylgi er í lykilstöðu í íslenskum stjórnmálum. Stöðu sem ræðst nær eingöngu af því að hann er eins konar brú milli hægri og vinstri aflanna í landinu. Hinir örfáu virku félagsmenn í flokknum eru nær allir í trúnaðarstöðum. Menn skrá sig í flokkinn og sýna áhuga á vegtyllum og viti menn, vegtyllur fá þeir! Flestir án mikillar fyrirhafnar.

Björn Ingi Hrafnsson skeleggur blaðamaður hér í upphafi þessa áratugar, sem sá um þingfréttir í Morgunblaðinu, varð á einni nóttu einn af aðalspöðunum í flokknum. Vinir hans trúa þessu ekki enn. Þetta er allt með ólíkindum. Pétur Gunnarsson, ágætur blaða- og fréttamaður, varð sömuleiðis aðalspaði, sjálfskipaður eftir atvikum, skyndilega og án mikillar fyrirhafnar. Þetta eru að sjálfsögðu lítið annað en pólitískir málaliðar.

Fæð félagsmanna gerir það jafnframt að verkum að tvær eiginkonur tveggja ungra áhugamanna um frekari vegtyllur í flokknum gátu fengið saumaklúbbbana sína til að skrá sig í Framsóknarfélag kvenna í Kópavogi og gert þar hallarbyltingu. Þær ráða nú lögum og lofum í félaginu með atbeina stuðningskvenna sem urðu framsóknarkonur í einu vetfangi.

Í Reykjavík er sama uppi á teningnum. Þar eru örfáar hræður sem gera sig gildandi í flokknum og nær allar í trúnaðarstöðum. Alfreð Þorsteinsson á einhverja sárafáa stuðningsmenn sem enginn veit hverjir eru, og samt er hann einn valdamesti maður í borgarkerfinu.

Það fyndnasta er svo þegar trúnaðarmenn í flokknum koma digurbarkalegir í fjölmiðla og ræða um hinn „almenna flokksmann“ og vilja hans. Það eru engir almennir flokksmenn í Framsóknarflokknum, alla vega ekki á höfuðborgarsvæðinu!

Það verður fróðlegt að sjá hverju fram vindur í flokknum núna í aðdraganda flokksþings. Allt virðist geta gerst enda, eins og rakið hefur verið hér að ofan, þarf ekki mikið til að ráða þar lögum og lofum. Undirritaður gæti hæglega fengið alla sampistlahöfunda sína hér á Deiglunni, um 50 manns, og helstu vini þeirra til að skrá sig í annað Reykjavíkurfélaga Framsóknarflokksins. Og viti menn, hann yrði þá alger aðalspaði og gæti farið að skrifa á hrifla.is og timann.is.

Og það besta er: Hann gæti farið að tala um vilja hins almenna flokksmanns.

Latest posts by Arnar Þór Stefánsson (see all)