Ástarbomban í Keflavík

sdfdDavid Atkinsson eyddi 18 árum í að hanna tæki fyrir geimskutluna sem nýverið var send til Satúrnusar. Einhverjum láðist hins vegar að kveikja á græjunni fyrir lofttak. Vonbrigði segir vísindamaðurinn.

„Afsakið andremmuna – ég var að koma af vígvellinum!“

Ef marka má hugmyndir Vals Ingimundarsonar, dósents í Háskóla Íslands, þá er bandaríska varnarmálaráðuneytinu mikið í mun að sýna fram á að orrustuþotur þarlends hers séu með öllu óþarfar í Keflavík. Í því augnamiði hafa stjórnvöld afvopnað þoturnar þannig að ef Færeyingar skyldu safna liði og gera allsherjar innrás í landið gætu þoturnar ekki rönd við reist. Flestum brá ekkert sérstaklega við þessar fréttir enda eru Íslendingar upp til hópa tiltölulega friðsælir og vita að líkurnar á því að Færeyingar geri allsherjar innrás í landið úr lofti og af láði eru — þegar allt kemur til alls — frekar takamarkaðar.

En hvers vegna skyldi Bandaríkjastjórn hafa ákveðið að skera niður útgjöld til herstöðvarinnar á Íslandi? Skyldi það vera vegna þess að Ísland er útnári í miðju ballarhafi og hefir eðli máls samkvæmt frekar takmarkað hernaðarlegt gildi? Eða skyldi það vera vegna þess að eftir að Alfreð Þorsteinsson hóf rækjusamlokueldi hjá Orkuveitu Reykjavíkur — geti herinn ekki lengur losað sig við aflóga drasl á toppprís með hjálp skransölunnar ógurlegu?

Nei, kæru lesendur — ástæðan er önnur og ærin.

Ef marka má fréttir bandarískra blaða hefir nýju lífi verið blásið í deild innan bandaríska hersins sem sérhæfir sig í óvenjulegum hernaði. Þannig hefir nýja herdeildin leitað dyrum og dyngjum að hugmyndum að óvenjulegum vopnum sem eru til þess fallin að auka forskot Bandaríkjahers í baráttunni gegn Öxulveldum hins illa.

Og fjármagninu er vel varið…

Þannig hrikkti í stoðum Varnarmálaráðuneytisins þegar vísindamenn tilkynntu að þeir væru komnir langt á veg með að framleiða starfhæfa frumgerð af andfýlusprengju sem væri þeirrar náttúru gerð, að þeir sem lentu innan sprengjugeisla hennar yrðu andrammari en sómakærir áhugamenn um íslenskan þorramat.

Hugmyndin var hins vegar lögð til hliðar og þess í stað var allt kapp lagt á að framleiða efnavopn sem lætur þá sem komast í tæri við það emja og æpa þegar útfjólubláir geislar sólar (eða sólbekkja) lenda á hörundi þeirra.

Þannig er hugmyndin um ástarbombuna sprottin upp af sama meiði og ofangreind rannsóknarverkefni. Að grunni til hverfist hugmyndin um það að hanna efnavopn sem verður þess valdandi að allir sem anda efninu að sér — haldið ykkur fast, lesendur góðir — verði samkynhneigðir! Já, þið lásuð rétt: Hugsunin var sú að úða frygðarelexír yfir óvinaheri í því augnamiði að magna upp kynlosta hermannanna fyrir samhermönnum sínum.

Gallinn er hins vegar sá að valröðunin er varla á hreinu hjá hernum. Þannig fylgdi ekki sögunni hvert vopnanna væri yfirsterkara öðrum og auk þess var ekki gert ráð fyrir að hermenn gætu sullað út fyrir þegar þeir væru að stilla sprengjurnar. Hugsið ykkur ástandið sem gæti skapast í Keflavík: Spólgraðir, samkynhneigðir hermenn hverjir hlaupandi á eftir öðrum þannig að andremmuna leggur yfir Suðurnesin…

Nei, þá held ég að það sé betra að þeir skjóti púðurskotum!

Latest posts by Halldór Benjamín Þorbergsson (see all)