Rétt og rangt í Íraksmálinu

Stuðningur Íslands við innrás Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra í Írak er á ný kominn í hámæli hér á landi á sama tíma og forsprakki innrásarinnar biðlar til gamalla samherja um samvinnu við seinni embættistöku sína sem forseti Bandaríkjanna. Var það rangt af íslenskum stjórnvöldum að styðja innrásina í Írak eða var einungis ranglega að því staðið? Enn á ný snúast umræðustjórnmálin á Íslandi um aukaatriði en ekki aðalatriði.

Stuðningur Íslands við innrás Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra í Írak er á ný kominn í hámæli hér á landi á sama tíma og forsprakki innrásarinnar biðlar til gamalla samherja um samvinnu við seinni embættistöku sína sem forseti Bandaríkjanna. Var það rangt af íslenskum stjórnvöldum að styðja innrásina í Írak eða var einungis ranglega að því staðið? Enn á ný snúast umræðustjórnmálin á Íslandi um aukaatriði en ekki aðalatriði.

Síðastliðinn fimmtudag komst George W. Bush í hóp þeirra Bandaríkjaforseta sem svarið hafa embættiseið tvisvar sinnum. Frá því að Eisenhower var forseti um miðja síðustu öld hafa aðeins þrír aðrir forsetar staðið í sporum Bush; Richard Nixon, Ronald Reagan og Bill Clinton. John F. Kennedy var ráðinn af dögum þegar ár var eftir að fyrra kjörtímabili hans og Lyndon B. Johnson sór reyndar embættiseiðinn í tvígang en var aðeins einu sinni kjörinn forseti, árið 1964. Nixon sagði af sér þegar síðara kjörtímabil hans var hálfnað og gegndi Gerald Ford embætti með lítt efirminnilegum hætti til ársins 1976 þegar Jimmy Carter sigraði óvænt í forsetakosningum. Frá árinu 1960 eru það aðeins Ronald Reagan og Bill Clinton sem setið hafa átta ár í Hvíta húsinu. George W. Bush á nú góða möguleika á að verða sá þriðji og verður það að teljast mikið afrek í hans tilviki.

Í kosningabaráttunni fyrir rúmum fjórum árum bundu margir hægrimenn miklar vonir við Bush yngri. Fyrirheit hans um fríverslun, skattalækkanir og niðurskurð ríkisútgjalda féllu í kramið hjá mörgum, þ. á m. flestum þáverandi skríbentum Deiglunnar. Á fyrstu mánuðum sínum á embætti átti Bush í talsverðu mótlæti en honum tókst þó að koma í gegnum þingið róttækum skattalækkunum. Hann var hins vegar langt í frá traustvekjandi á forsetastóli, jafnt og örugglega dróg úr tiltrú almennings á honum og margt benti til að Bush yngri yrði klassískur eins-kjörtímabils forseti. En þetta breyttist allt með hryðjuverkaárásunum að morgni 11. september 2001, þegar tæpir níu mánuðir voru liðnir frá embættistöku nýja forsetans.

Árásirnar færðu George W. Bush og samstarfsmönnum hans allt að því óendanlegt umboð til leiða bandarísku þjóðina í herför gegn þeim misgjörðarmönnum sem greitt höfðu henni þetta þunga högg. Rökrétt viðbrögð voru að ráðast inn í Afganistan og steypa þar af stóli vitfirrtri stjórn talíbana sem enginn vafi lék á að studdi við bak alþjóðlegrar hryðjuverkastarfsemi. En nú er óhætt að fullyrða að allar götur síðan sigur vannst á talíbanastjórninni í Afganistan hafi stjórn Bush misfarið með það ríka umboð sem hún hafði hjá bandarísku þjóðinni, í raun heimsbyggðinni allri, til að leiða baráttuna gegn alþjóðlegum hryðjuverkum. Afleiðingin er sú að heimurinn er í flestu tilliti óöruggari nú en hann var þegar George W. Bush sór embættiseið í fyrra sinn fyrir réttum fjórum árum. Þar við bætist að ástand efnahagsmála vestan hafs er langt um verra en það var fyrir fjórum árum, sérstaklega þegar kemur að ríkisfjármálunum. Það var því ekki að ósekju sem hið hægrisinnaða tímarit Economist lýsti yfir stuðningi við mótherja George W. Bush í síðustu forsetakosningum.

En þrátt fyrir allt þetta völdu bandarískir kjósendur að hafa Bush yngri áfram í Hvíta húsinu. Þótt afar mjótt hafi verið á mununum þann 2. nóvember er það engu að síður staðreynd að enginn forseti Bandaríkjanna hefur haft jafn mörg atkvæði á bak við sig og George W. Bush hafði við embættistöku sína síðastliðinn fimmtudag. Ljóst er þó að bandaríska þjóðin er klofin í herðar niður í afstöðu sinni til forsetans. Stuðningsmenn hans sjá ekki sólina fyrir honum, í mörgum tilvikum á grundvelli trúarlegrar fremur en veraldlegrar sannfæringar, en andstæðingar Bush hafa hins vegar á honum megnustu andstyggð og telja hann jafnvel skaðlegri Bandaríkjunum en verstu óvinir þeirra.

Íraksstríðið er það sem öðru fremur hefur markað forsetatíð George W. Bush til þessa. Engum getur dulist að Bandaríkjamenn eru í vondum málum í Írak. Stöðugt mannfall er í þeirra röðum og fjármagn og herafli öflugasta herveldis heims er bundinn í erfiðu, langdregnu og blóðugu hernámi. Ekki var við öðru að búast en að Bandaríkjamenn og Bretar ynnu auðveldan sigur í hinni eiginlegu innrás. Hernámið hefur hins vegar reynst þrautinni þyngra. Í upphafi skyldi endinn skoða, kynni einhver segja. Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra réðust inn í Írak með það fyrir augum að uppræta þá ógn sem stafaði af Saddam Hussein og þeim gjöreyðingarvopnum sem fullyrt var að hann réði yfir. Nú tæpum tveimur árum síðar hefur ekkert fundist af gjöreyðingarvopnum og fyrir rúmri viku var því lýst yfir að leit að gereyðingarvopnum í Írak hefði verið hætt. Það er því ljóst að innrásin – og þar af leiðandi allur stuðningur við hana – var byggð á röngum forsendum.

Það er alvarlegt mál þegar lýðræðisríki fara í stríð á röngum forsendum, að ekki sé talað um ef þær forsendur séu falskar eða upplognar. Íslensk stjórnvöld voru staðföst í stuðningi sínum við áform og aðgerðir Bandaríkjamanna og Breta í Írak. Sá stuðningur var grundvallaður á þeim upplýsingum sem sagðar voru liggja fyrir um gjöreyðingarvopn Íraka. Ekki verður dregið í efa að stjórnvöld hér á landi hafi staðið í góðri trú þegar þau lögðust á árarnar með hinum gömlu og traustu bandamönnum sínum. Sú afstaða var ekki umdeildari en svo hér á landi að hún hafði hverfandi áhrif á niðurstöður þingkosninganna vorið 2003, þegar Íraksstríðið stóð sem hæst.

Sú umræða sem átt hefur sér staða síðustu daga og vikur hér á landi, um þá ákvörðun að lýsa yfir stuðningi við innrásaráformin, er öfugsnúin og afkáraleg. Það liggur alveg ljóst fyrir að ráðherrar ríkisstjórnarinnar höfðu vald til þess að lögum að taka þessa ákvörðun. Það má vissulega gagnrýna þá fyrir að hafa ekki rætt málið við utanríkismálanefnd þingsins – ef sú hefur verið raunin – en það breytir engu um lögmæti ákvörðunar þeirra. Það er því della sem haldið er fram í auglýsingu Þjóðarhreyfingarinnar svokölluðu í New York Times að ákvörðunin hafi verið ólögmæt (það er spurning hvort menn ættu að taka sig saman og birta auglýsingu um það í New York Times að auglýsing Þjóðarhreyfingarinnar svokölluðu hafi verið “ekki í okkar nafni”). Að sama skapi breytir það engu hvort ríkisstjórnin sem slík hafi samþykkt að Ísland myndi veita stuðning sinn, því ríkisstjórnin er ekki fjölskipað stjórnvald sem tekur ákvarðanir með meirihlutaákvörðun. Hver og einn ráðherra fer með æðsta ákvörðunarvald í tilteknum málaflokki. Og það er auðvitað ekki þar með sagt að þeir beri ekki ábyrgð á sínum gjörðum – öðru nær. Ráðherrar sitja í skjóli þingmeirihluta og þeir verða að axla pólitíska ábyrgð á sínum ákvörðunum.

Það skiptir þess vegna afskaplega litlu máli hvort ákvörðun um stuðning við innrásina í Írak hafi verið borin undir þennan eða hinn, þegar bærir aðilar voru í fullum rétti að taka þá ákvörðun. Enn á ný er forgangsröðun stjórnarandstöðunnar öfugsnúin og afkáraleg. Það sem máli skiptir er hvort ákvörðunin sjálf hafi verið röng, hvort rangt hafi verið að styðja innrásaráformin. Það er skoðun Deiglunnar að innrásin í Írak hafi ekki verið réttmæt og því sé sú ákvörðun að styðja innrásina röng. Sökin liggur auðvitað fyrst og fremst hjá Bandaríkjamönnum og Bretum sem sannfærðu stjórnvöld hér á landi, í Danmörku, á Spáni og í fleiri ríkjum um að raunveruleg hætta stafaði af gjöreyðingarvopnum Saddams Hussein. Íslensk stjórnvöld voru í góðri trú þegar ákvörðun um stuðning var tekin og á þeim tíma voru ekki margir hér á landi sem hreyfðu andmælum.

En eins og það er rangt hjá stjórnarandstöðunni að hamast á einhverjum prótókollreglum í sambandi við ákvörðunartökuna, þá er það líka rangt hjá stjórnvöldum að viðurkenna ekki – í ljósi þeirra staðreynda sem nú blasa við – að ákvörðunin um að styðja innrásina hafi verið röng. Og eins og það er rangt hjá stórnarandstöðunni að Íslendingar eigi nú – þegar uppbygging er að hefjast í Írak – að hlaupast frá ábyrgð sinni, þá mega stjórnvöld ekki falla í þá gryfju að finna stríðsrekstrinum nýja réttlætingu og aðrar forsendur en lagt var af stað með þegar herförin hófst. Þótt rík ástæða sé til að styðja við uppbyggingu í Írak er engin dyggð fólgin í því að vera staðfastir í stuðningi við innrás sem augljóslega var gerð á röngum forsendum.

Staðfesta er einungis dyggð ef málstaðurinn er réttur.

Hafi Ísland einhvern tímann átt að vera á lista hinna staðföstu þjóða í Íraksmálinu, þá er það nú þegar uppbyggingarstarfið er framundan í Írak. Síst af öllu eiga menn nú að hlaupast undan ábyrgð sinni, eins og stjórnarandstaðan leggur til.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)