Og hvað heitir þú?

Á Íslandi er samkvæmt VII. kafla laga um mannanöfn númer 45/1996 er starfrækt hið merkilega fyrirbæri mannanafnanefnd. Hlutverk hennar er að leggja blessun ríkisins yfir nafnaval borgara á börnum sínum. Mannanafnanefnd er klárlega lágmarksþjónusta. Eða í hvernig samfélagi vilt þú eiginlega búa?

Á Íslandi er samkvæmt VII. kafla laga um mannanöfn númer 45/1996 er starfrækt hið merkilega fyrirbæri mannanafnanefnd. Hlutverk hennar er að leggja blessun ríkisins yfir nafnaval borgara á börnum sínum. Mannanafnanefnd er klárlega lágmarksþjónusta. Eða í hvernig samfélagi vilt þú eiginlega búa?

Sjálfur hef ég aldrei áttað mig á því til hvers mannanafnanefnd er. Enda er ég mannanafna-mistök, hef sloppið framhjá vökulu auga nefndarinnar. Ég heiti hinu hræðilega nafni Reykfjörð eða “Smoke-Bay” eins og presturinn sagði. Nefndarmönnum kemur sennilega ekki dúr á auga vitandi að svo hræðilegt nafn sé skrifað á debetkortakvittanir. Hryllilegt alveg! En þeir náðu þó að stoppa þetta! Ég fékk að bera þetta nafn og systir mín er þessu marki brennd. En litli bróðir minn – honum var bjargað af mannanafnanefnd. Guði og nefndarmönnum sé lof! Enda hefði hann án efa hlotið varanlegan skaða af.

Ísland er fjölmenningarsamfélag. Að minnsta kosti kasta kaffihúsaspekingar því heiti fram. Fjölmenningarsamfélag þar sem fjölmenningin má fisk verka, en ekki fara á fjöll. Fjölmenning þar sem hjónaband er strax grunað um blöff. Fjölmenningarsamfélag þar sem innflytjendur þurftu áður að velja sér íslenskt millinafn. Einhver kynni að kalla það menningarkúgun, en látum það liggja milli hluta. Hr. Hakim Þorvaldur Oljuwan! Þetta er nú aldeilis frábært nafn. Hvernig þætti þér að taka upp Þorvaldur Hakim Sveinsson?

Nú eru menn komnir út í þýðingar, Wanderley verður Valur og Raymond Reynisson! Hvernig tækju íslendingar því ef landar þeirra sem flytja t.d. til Svíþjóðar eða Englands yrði gert að taka upp sænskt eða enskt nafn og laga sig að siðum innfæddra þannig að gift kona tæki upp eftirnafn bónda síns.

Rökin fyrir mannanafnaeftirlitinu hrökkva skammt. Fólk segir draugasögur af öðru fólki sem vildi skýra barnið sitt, Hans Ingi (hann syngi), Ævar Eiður (Æva reiður), Ingiríður Ósk (Ingi ríður Ósk), Mist Eik (Misteik) eða annað eins. Ekki hef ég rekist á það, en sjálfur ætla ég að gera að gamni mínu að bera einhverja brjálaða tillögu undir mannanafnanefnd, bara svo fólki líði vel þegar henni verður hafnað.

Ef samfélagið treystir fólki til að ala upp barn, af hverju þarf eftirlit með því hvaða nafn það kýs að gefa barninu? Þegar möguleikar á barsmíðum, sulti, misnotkun og hverju öðru eru til staðar er þá lykilatriði að barnið heiti „réttu” nafni?

Ég held að við ættum öll að koma okkur saman um staðlaðan klæðnað. Tökum nett samræðustjórnmálaspjall og málsmeðferðargutl um það málefni. Það er líka alltaf svoleiðis í framtíðarmyndunum, allir klæddir eins. Ég vil að því verði komið við hér á landi strax – íslendingar eru jú svo nútímalegir. Svo skulum við öll heita Jón. Það er stutt og laggott – auk þess sem það virkar erlendis. Enga fjölbreytni, enga framþróun eða frumleika í nafngiftum. Jón er málið.

Á. H. Reykfjörð.

(Ég styð Ómar Freyr Sigurbjörnsson varabæjarfulltrúa á Akranesi í framboði til formanns Samfylkingarinnar)

Latest posts by Ásgeir H. Reykfjörð (see all)