Aðalatriði stjórnarandstöðunnar

Þeir sem ná árangri eru þeir sem hafa hæfileika í að greina aðalatriði og eyða kröftum sínum í þau en að sama skapi geta árangursríkir sneitt hjá aukaatriðum og leitt framhjá sér. Stjórnarandstaðan hefur sýnt það á fyrstu dögum ársins að hún er sérlega góð í að einblína á aukaatriðin.

Össur Skarphéðinsson er afar æstur út af skipunarbréfi í svokallaða stjórnarskrárnefnd. Í bréfinu kemur fram að einkum skuli fjallað um þrjá kafla stjórnarskrárinnar en þeir kaflar fjalla um hlutverk forseta og dómstóla í stjórnskipan. Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að eingöngu verði fjallað um þessa kafla í nefndinni sem að auki hefur ekki einu sinni tekið til starfa. Því er furðulegt að orðið ,,einkum” skuli fara svo öfugt ofan í Össur og fleiri í stjórnarandstöðunni sem hafa tekið svo sterkt til orða að þeir ætli að hunsa skipunarbréfið. Það verður að viðurkennast að undirrituð skilur ekki þessi dramatísku viðbrögð stjórnarandstöðunnar. Af hverju biðu Össur og félagar ekki eftir að nefndin hæfi störf og gagnrýndu þá ef þeir teldu vinnubrögð nefndarinnar á einhvern hátt óeðlileg? Er ekki líklegt að fólk leiði hjá sér alla umræðu stjórnarandstöðunnar um störf þessarar nefndar þar sem byrjunin lofar jafn lítilli málefnalegri umfjöllun og raun ber vitni?

Í kvöldfréttatíma RÚV í gær var svo fjallað um viðbrögð þingmanns Vinstri grænna við ummælum formanns Sjálfstæðisflokksins um að mögulegt væri að hluta af söluandvirði Landsímans yrði varið til uppbyggingar tæknivædds sjúkrahúss. Einhvern veginn hefði maður haldið að flestir myndu gleðjast yfir slíkum ummælum, nema kannski einhverjir hægrimenn sem myndu frekar vilja sjá slíkan spítala í einkaeign. Ekki vantar yfirlýsingagleðina hjá þingmanninum Jóni Bjarnasyni sem talar um loddaraskap og að verið sé að plata fólk. Svo virðist sem að þingmaðurinn sé einungis að plata sjálfan sig því að rök hans eru ekki upp á marga fiska. Þingmaðurinn vill nefnilega að söluandviðið, ef af sölu verður, sem varla þarf að taka fram að hann er á móti, renni til að byggja upp fjarskiptakerfið. Þótt undirrituð sé enginn sérfræðingur um fjarskiptakerfi þá getur hún ekki ímyndað sér að það kosti í kringum 50 milljarða (verðmæti Símans í dag í Kauphöllinni) til að halda fjarskiptakerfinu við og bæta á þann hátt sem þingmaðurinn vill að verði gert. Á hinn bóginn verður ekki séð að einkaaðilum sé ekki fullkomlega treystandi að halda uppi öflugu fjarskiptakerfi.

Málflutningur ýmissa þingmanna stjórnarandstöðunnar undanfarna daga sýnir að þeir eru arfaslakir í að greina kjarnann frá hisminu og gagnrýna á málefnalegan hátt. Einhvern veginn hefur maður á tilfinningunni að gagnrýna þurfi allt, stór mál sem smá, góð mál sem slæm. Líklegast er stjórnarandstaðan sé hæfileikaríkust í því, það er að agnúast yfir öllu sem gert er, en muni að sama skapi vera léleg í að framkvæma góð mál fái hún einhvern tíma umboð til þess.

Latest posts by Guðrún Pálína Ólafsdóttir (see all)

Guðrún Pálína Ólafsdóttir skrifar

Guðrún Pálína hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2002.