Nýting atvinnuskapandi flugvallar

Í nýlegu viðtali á Stöð 2 var samgönguráðherra, Sturla Böðvarsson, spurður um ummæli Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur, borgarstjóra um að ekki væri spurning hvort heldur hvenær Reykjavíkurflugvöllur færi úr Vatnsmýrinni.

Í nýlegu viðtali á Stöð 2 var samgönguráðherra, Sturla Böðvarsson, spurður um ummæli Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur, borgarstjóra um að ekki væri spurning hvort heldur hvenær Reykjavíkurflugvöllur færi úr Vatnsmýrinni. Svaraði hann því til að óhjákvæmilegt væri að flugvöllurinn væri nýttur áfram því annað væri sóun á þeim fjármunum sem lagðir hefðu verið í hann að undanförnu. Þar fyrir utan væri flugvöllurinn atvinnuskapandi fyrir Reykjavík.

Óneytanlega skjótast í kollinn á manni nokkrar hugsanir við þessi ummæli en sú fyrsta hlýtur að vera: Hver er tilgangur þessa flugvallar? Er hann til þess að nýta fjármunina sem í hann hafa verið lagðir á undanförnum árum eða er hann til þess tryggja atvinnu Reykvíkinga?

Sá grunur læðist að manni að einhver önnur sjónarmið ráði þeirri ákvörðun að halda flugvellinum en hagsmunir Reykvíkinga. Sú skoðun ráðherra að Reykjavíkurflugvöllur sé mikilvægur fyrir atvinnuástand borgarinnar stendur á brauðfótum því að ef flugvöllurinn færi myndi án efa hefjast uppbygging á svæðinu sem hefði margfalt betri áhrif á atvinnuástand borgarinnar, bæði í uppbyggingunni sjálfri og þeirri starfsemi sem byggðist þar upp. Eins er hægt að benda á að atvinnuástand í Reykjavík er alls ekki svo slæmt miðað við annars staðar á landinu og þar fyrir utan er enginn að tala um að leggja niður innanlandsflug svo að þau störf sem hugsanlega glatast í Vatnsmýrinni myndu skapast annars staðar.

Varðandi svör ráðherra um að brotthvarf flugvallarins þýddi sóun á þeim fjármunum sem í hann voru lagðir, væri rétt spyrja sig af hverju var þessum fjármunum eytt til að byrja með? Hefði ekki verið skynsamlegra að eyða þeim peningum í uppbyggingu á nýjum flugvelli annars staðar eða í að útbúa Keflavíkurflugvöll fyrir innanlandsflug? Og hversu mikils mega þessir fjármunir sín í samanburði við það fé sem Reykjavíkingar borga í auknar samgöngur vegna dreifingar byggðar allt til Kjalarness?

Í þessari umræðu hefur komið í ljós að margir innan R-listans eru þeirrar skoðunar að flugvöllurinn eigi að fara. Bæði formaður samgöngunefndar Árni Þór Sigurðsson fyrir Vinstri-græna og borgarstjórinn fyrir Samfylkinguna hafa að minnsta kosti talað fyrir því. Ekki er ljóst hvar fulltrúar Framsóknarflokksins standa í málinu þó að búast megi við andstöðu við brotthvarfi vallarins í þeim herbúðum.

Þó að R-listinn virðist á yfirborðinu vera fylgjandi því að völlurinn fari virðist ekki vera pólitísk innistæða til að taka slaginn og klára málið sem lendir undir í þófi nútímalegra umræðustjórnmála. Auðvitað ættu borgaryfirvöld að taka ákvörðun um að flugvöllurinn verði ekki lengur innan borgarmarkanna, ekki að bíða með það til 2016 heldur byrja strax á undirbúningsvinnu svo sem skipulagi og áætlunum um framtíðarstaðsetingu innanlandsflugs á Íslandi.

Eins og kosningarnar 2001 gáfu til kynna eru flestir Reykvíkingar á því að flugvöllurinnn eigi að fara úr Vatnsmýrinni. Því væri rökrétt að fulltrúar okkar í ríkisstjórn settu málið á dagskrá. Ástæður þess að það hefur ekki fengið afgreiðslu á þeim vettvangi eru óljósar. Kannski að sú staðreynd að þingmaður af landsbyggðinni hefur gegnt embætti samgönguráðherra frá árinu 1988 hafi eitthvað með það að gera. Í það minnsta virðast hagsmunir okkar Reykvíkinga ekki ráða för.

Latest posts by Brynjólfur Stefánsson (see all)

Brynjólfur Stefánsson skrifar

Brynjólfur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.