Vondir útlenskir peningar

Á vef Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar birtust nýlega nokkrar athugasemdir við tillögur SVÞ um einkavæðingu fríhafnarinnar. FLE bendir meðal annars að hugsanlegt er að fríhafnarverslunin kæmist hugsanlega í hendur útlendinga ef hún yrði boðin út. Það er ólíðandi að opinberir starfsmenn skuli beita tortryggni í garð erlendra aðila sem vopni í baráttu fyrir þröngum hagsmunum sínum.

Nýlega birtu Samtök verslunar og þjónustu ályktun um framtíð fríhafnarinnar í Leifstöð. Samtökin telja m.a. að tímabært sé að ríkið dragi sig úr rekstri fríhafnarinnar auk þess sem samtökin lögðu til að rekstri komuverslunar verði hætt þar sem hún er í beinni samkeppni við verslanir innanlands.

Vel má taka undir það með samtökunum að heppilegra væri ef einkaðilar tækju að sér verslunarrekstur á flugvöllum. Annað mál er að sú hugmynd að flugvellir séu gerðir að sérstökum skattaparadísum fyrir ferðamenn auðvitað gríðarlega ósanngjörn í garð þeirra verslunarmanna sem ekki eru þar. Litlar líkur eru þó á að kerfinu verður breytt í bráð og munu ríki heims væntanlega halda áfram að keppast við að niðurgreiða áfengi og rettur fyrir þegna hvor annars.

Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. sá allavega ástæðu til að svara yfirlýsingu SVÞ á heimasíðu sinni. Líkt og alltaf þegar opinberir starfsmenn hella sér inn í hringiðu stjórnmálaumræðna til að standa vörð um eigin stóla og völd varð niðurstaðan frekar skopleg. Svarið er í sex liðum og hver og einn þeirra getur iljað áhugamönnum um rök fyrir höftum og einokun um hjartarætur. Grípum til að mynda í eftirfarandi setningu úr fjórða tölulið:

[…]Komuverslunin er til þæginda fyrir ferðamenn og meira að segja má færa rök fyrir því að hún spari flugfélögum eldsneyti með því að selja vörur hér heima sem ferðafólk myndi ella hafa í farangri sínum á leiðinni og þyngja flugvélarnar sem því nemur!

Noh! Fríhöfnin bara að spara eldsneyti fyrir flugfélögin! Ætli allar þær vörur sem fríhöfnin selur séu settar saman á Íslandi úr íslenskum hráefnum einungis? Ætli það þurfi að ekki að fljúga neinum þeirra til landsins? Ætli það sé síðan sérstakt kappsmál flugfélaganna að flytja sem léttastar vélar milli landa? Helst bara galtómar, þannig eyða þær minnstu eldsneyti.

Botninn tekur samt úr í öðrum tölulið herlegheitanna þar sem höfundum tekst að grípa til tortryggni í garð útlendinga til að sannfæra SVÞ um ágæti þess að fríhöfnin verði áfram í höndum ríkisins.

Ef fríhafnarreksturinn yrði boðinn út í heild sinni eru líkur á að sérhæfð, erlend verslunarfélög myndu hreppa hnossið í krafti stærðar sinnar og reynslu af sambærilegri starfsemi á flugvöllum annars staðar. Hugnast Samtökum verslunar og þjónustu slík framtíðarsýn betur, fyrir hönd umbjóðenda sinna, en núverandi rekstarfyrirkomulag?

Enn og aftur fáum við mynd af vondum útlenskum auðmönnum sem munu koma hingað með sína vondu útlensku peninga og fara að reyna græða eitthvað á litlu þjóðinni í norðri. Hvaða vitleysa er þetta? Eru útlendingar bara fégráðug svín á meðan að íslenskir viðskiptajöfrar stýrast í einu og öllu af velferð almennings? Ekki sýna dæmin um samráð olíufélaga það.

Árlega eyðum við fé til að prenta plaköt og bæklinga og höldum fræðslufundi til að sporna gegn rasisma meðal barna og unglinga. Rekin er sérstök stofnum (Alþjóðahúsið) sem hefur þetta sem eitt af hlutverkum sínum. En vandinn er að óttinn við útlendinga brýst ekki aðeins fram í hefðbundnum rasisma. Ofannefndur ótti við fjárfestingar útlendinga er ekki síður slæmur. Það er algjörlega óþolandi þegar opinberar vefsíður eru notaðar til að ala á tortryggni í garð erlendra aðila til huga að þröngum hagsmunum starfsmanna viðkomandi stofnunar.

Við eigum að gefa fólki séns sama hvaðan það kemur. Einu máli gildir hvort það vilji afgreiða í búð, eða reka hana.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.