Jólahugvekja

Sr. Kjartan Örn Sigurbjörnsson prestur á Landspitala – háskólasjúkrahúsi fjallar um þverstæðurnar í jólahaldinu og kraftaverkið sem rætist í hvert sinn sem nýtt barn fæðist í heiminn. Hann segir söguna af fæðingu Krists og atburðunum þar í kring ekki vera sagnfræði heldur tjáningu á hinu guðlega og himneska.

Það eru miklar andstæður og kaldhæðni í því hvernig við höldum jólahátíð. Það er þó ekkert undarlegt þegar það er haft í huga að kaldhæðnin og þverstæðurnar eiga sér stað allt árið um kring í velferðarríkjum vesturlanda.

Margir kvarta sáran yfir kaupæðinu á aðventunni í tilefni jólanna. Það er kvartað yfir örtröðinni, háa verðinu og öllum þessum umbúðum í kringum hátíðina. Margir verða líka þreyttir á jólatónlistinni sem dynur á okkur seint og snemma og virðist stundum ætla allt lifandi að drepa. En jólin eiga að vera hátíð friðar og kærleika. Hátíð samveru og sameiningar. Þannig viljum við hafa hana.

Það er líka oft þversögn í því hvernig við lifum og hvernig við vildum lifa. Við kvörtum dögum oftar yfir hraðanum og álaginu í lífinu, kröfunum og kostnaðinum við að lifa frá degi til dags. Við þráum frið og hvíld og dýpt inn í líf okkar. En við veljum það að fylgja með í ákafanum og troðningnum en tregum þann Edensgarð þar sem lífið er í jafnvægi og maðurinn er heill. Þannig er ekki lífið en þannig vildum við hafa það.

Jólin eru einstök hátíð andstæðna í lífi okkar. Þar fer saman hið veraldlega í allri sinni makt og hið andlega í allri sinni dýpt. Hið veraldlega blasir við hvert sem litið er. Skreytingarnar, ljósin og slaufurnar, greinarnar og kúlurnar og við reynum að toppa hvert annað í gjöfum og hátíðarmat. Margur er orðinn býsna lúinn þegar hátíðin er loksins hringd inn á aðfangadagskvöld.

En friðar og kærleiksboðskapur jólanna nær líka inn til okkar. Þrátt fyrir allt þá vitum við alveg nákvæmlega út á hvað þetta allt gengur. Það er snert við streng í hjarta okkar sem alltof sjaldan fær að hljóma. Ef allt er eðlilegt þá þá hverfum við um stund inn í okkur sjálf og setjumst við jötuna í Betlehem og hugleiðum dýpri rök tilverunnar.

Það eru ekki margir svo átakanlega kaldrifjaðir að þeir verði ekki snortnir frammi fyrir því undri að barn er oss fætt. Nýfætt barn er vanmáttugt og hjálparlaust. Það kallar fram sterkar tilfinningar hjá okkur. Það er ekkert undursamlegra en að halda á ungbarni á örmum sér og finna þverstæðuna í því að um leið og barnið er lítið og veikburða þá býr það yfir von og nýjum draumum. Það er ný sköpun. Nýtt afl til góðs eða ills. Við vildum svo gjarnan vernda það frá öllu illu og leiða til gæfu og góðs í lífinu.

Frásagan af fæðingu Jesú í Betlehem er indæl. Hún er ekki sagnfræði heldur tjáning á því guðlega og himneska. Hún er í senn himnesk og jarðnesk. Himnesk í þeim skilningi að hún segir frá því að sá Jesús sem lærisveinarnir þekktu og fylgdu var engum öðrum líkur. Hann var maðurinn sem Guð skapaði í sinni mynd og með lífi sínu og boðun sagði Jesús lærisveinunum frá Guði sem er kærleikur.

Guð er ekkert líkur jólasveininum sem umbunar og refsar heldur er Guð í öllu því sem eflir lífið og það góða. Í öllu því sem hjálpar okkur til að lifa. Andi hans býr í öllum og fær framgang í því góða fólki í öllum trúarbrögðum sem leggur öðrum lið og framgengur í kærleika. Og kirkja Jesú Krists á að vera stöðug áminning og hvatning til þess að gagna erinda hans sem fæddist og dó en lifir þó í samfélagi manna sem á jólum fagnar því að slíkur maður hafi fæðst og auðgað okkur öll með lífi sínu.

Jólin snerta við okkur vegna þess að óhjákvæmilega hvarflar hugurinn til bernskunnar þegar allt var nýtt og spennandi og við höfðum ekki enn tamið okkur kaldhæðni og gagnrýni hins fullvaxta og þroskaða manns. Við syngjum með á jólanótt þegar við tökum undir með englunum. “Dýrð sé Guði í upphæðum,” og við verðum eins og hirðarnir sem fengu að heyra orð engilsins. “Verið óhræddir.”

Þrátt fyrr kaldhæðnina og þverstæðurnar þá skulum við halda heilög jól og gefa okkur á vald boðskapnum um frið á jörðu og frið í hjarta og finna eitt andartak hina horfnu Paradís í okkur sjálfum þar sem friður og jafnvægi ríkir.

Gleðileg jól.

Kjartan Örn Sigurbjörnsson sjúkrahúsprestur á Landspitala háskólasjúkrahúsi.

Latest posts by Sr. Kjartan Örn Sigurbjörnsson (see all)