Hervald í Bandaríkjunum

Í ljósi alls hernaðarbrölts Bandaríkjanna í heiminum þessa dagana er vel þess virði að skoða hver fer með vald til að kalla út herinn og nota hervald í Bandaríkjunum? Á þessum fagra laugardegi er augljóst að brýnast er að skoða spurninguna út frá því hvað segir í bandarísku stjórnarskránni.

Í ljósi hernaðarbrölts Bandaríkjanna í heiminum þessa dagana er vel þess virði að skoða hver fer með vald til að kalla út herinn og nota hervald í Bandaríkjunum. Á þessum fagra laugardegi virðist skynsamlegt að skoða spurninguna út frá því hvað segir í bandarísku stjórnarskránni.

Samkvæmt 2. gr. bandarísku stjórnarskrárinnar er forsetinn the Commander in Chief of the Army and Navy of the United States. Á hinn bóginn er þinginu veitt vald í 1. gr. til að lýsa yfir stríði (“to declare war”) auk þess sem þingið fer með vald til að úthluta fjármunum til hersins. Samkvæmt orðanna hljóðan virðist vald forsetans vera takmarkað við að vera æðsti yfirmaður hersins en að hann sé að öðru leyti háður þinginu um að beita hervaldi.

Ljóst er að valdið liggur bæði hjá forsetanum og þinginu. En nákvæmlega hvar línan er dregin milli þess sem forsetinn má gera án þess að það hafi hlotið náð fyrir augum þingsins er mjög óljós.

Til að skilja hvar línan liggur hér á milli og hver var tilgangur stjórnarskrárgjafans er oft litið til þess að í upphaflegri tillögu að stjórnarskránni sagði að þingið skyldi hafa vald til þess að “make war”. Þessu orðalagi var hafnað fyrst og fremst til að tryggja að forsetinn gæti varist óvæntum árásum á Bandaríkin enda orðalagið “make war” miklu víðtækara en orðalagið “declare war”. Þannig virðist það hafa verið tilgangur stjórnarskrárgjafans að vald forsetans til að nota herinn án heimildar frá þinginu væri takmarkað við að verja Bandaríkin gegn beinni árás.

Ljóst er af ummælum fyrstu forsetanna að þeir tóku þessu orðalagi alvarlega og töldu vald sitt til að nota herinn mjög takmarkað. Með tíð og tíma virðast forsetarnir hins vegar hafa talið þetta vald vera víðtækara en upphaflega var ætlað, enda í eðli valdsins að menn reyni að víkka það það vald sem þeim er ætlað.

Í samræmi við þetta hafa fjölmargir forsetar sent herinn til átakasvæða eða til bardaga án þess að fyrir hafi legið samþykki þingsins og án þess að nokkur hætta hafi verið yfirvofandi fyrir Bandaríkin. Jafnvel fyrir fyrstu heimstyrjöldina sendi Wilson forseti hermenn til Vera Cruz í Mexíkönsku byltingunni. Um og eftir seinni heimstyrjöldina hafa forsetar talið sig vera í fullum rétti til að nýta herinn á þennan hátt. Þannig lá til dæmis ekki fyrir heimild þingsins þegar hermenn voru sendir til Íslands í seinni heimstyrjöldinni. Á 6. og 7. áratugnum var gríðarlegur herafli sendur til að verja S-Kóreu og S-Víetnam, Reagan forseti réðst inn til Grenada og Clinton sleppti sprengjum á Írak og Serbíu, allt án þess að fyrir lægi heimild þingsins.

Allar tilraunir til að fá skorið úr því fyrir dómstólum hvort forsetar hafi farið út fyrir valdsvið sitt hafa verið árangurslausar þar sem dómstólar telja það ekki á valdsviði sínu að svara spurningum sem þessum, þar sem hér sé um hápólitísk mál að ræða.

Hugsanlega er staðan orðin sú að upphaflegur tilgangur og þýðing stjórnarskrárinnar hafi tapast og áralöng túlkun forseta Bandaríkjanna á hervaldinu hafi löglega gefið þeim meira vald en þeim var upphaflega ætlað. Það er hins vegar ljóst þingið mun alltaf hafa fjárhagslegt vald yfir hernum og jafnvel þó forsetinn hafi sent herinn af stað mun þingið fyrr en seinna getað stöðvað forsetann með því að hafna fjárveitingu.

Latest posts by Katrín Helga Hallgrímsdóttir (see all)

Katrín Helga Hallgrímsdóttir skrifar

Katrín Helga hóf að skrifa á Deigluna í október 2003.