Afturhaldskommatittsflokkur

Í Helgarnestinu verður ekki fjallað um ræðu Davíðs Oddssonar á Alþingi í vikunni. Hins vegar verður ekki hjá því komist að gefa pistlinum þetta skemmtilega nafn sem verður eflaust lengi í minnum haft. Helgarnestið einbeitir sér að jólahátíðinni og öllu því sem henni fylgir.

Jólin eru að koma. Þessi fullyrðing gæti hljómað asnalega en við nánari athugun á hún fullan rétt á sér. Jólin hafa nefnilega verið á leiðinni síðan í október þegar fyrstu jólaskreytingarnar komu upp í stórmörkuðum og blöðin hófu umfjöllun um smákökuuppskriftir allra saumaklúbba á landinu.

Í desember hefst hins hinn formlegi jólaundirbúningur og hvert sem við lítum erum við minnt á hversu lítinn tíma við höfum fram að hátíðinni sjálfri. Friðhelgi einkalífsins fer fyrir lítið þegar jóladagatöl og jólakerti tilkynna okkur á hverjum degi að enn einn dagurinn sé liðinn. Allt skal vera hátíðlegt og fallegt, kröfurnar sem jólunum fylgja reynast mörgum erfiðar.

Hér áður fyrr þótti það nánast jaðra við dauðasynd ef hvert heimili bakaði ekki að minnsta kosti 8 smákökusortir, fyrir utan auðvitað sviðasultuna og rauðkálið. Heimilið þurfti hreinlega að glansa af hreinlæti og ajaxlyktina lagði yfir heilu hverfin. Í dag er þetta hins vegar öllu afslappaðra. Enginn er hengdur fyrir að bjóða upp á jólasmákökur úr Bónus og í flestum tilfellum dugir að sópa mesta skítnum undir teppi.

Hins vegar má velta því fyrir sér hvort gjafa- og auglýsingaflóðið hafi fyrir löngu eyðilagt boðskap jólanna. Getur verið að náungakærleikur sé aðeins neðanmálsgrein í nýjasta tilboðsbæklingi Hagkaupa?

Auðvitað eiga jólin að snúast um fjölskyldu og vini, að gleðja aðra og hjálpa bágstöddum. Hvers vegna ekki að nýta tímann fram að jólum til að minnast gamalla vina, þeirra sem við höfum ekki séð lengi? Helgarnestið hvetur lesendur Deiglunnar til að njóta lífsins í desember. Látið ekki jólastressið ná yfirhöndinni. Borðið piparkökur og drekkið glögg í góðra vina hópi. Það er frekar en margt annað hinn eini og sanni jólaandi.

baldvin@deiglan.com'
Latest posts by Baldvin Þór Bergsson (see all)