Langamma með netverslun

„20 ára gamall og kominn með eigin viðskipti!”

„Fjögurra barna móðir þrefaldaði ráðstöfunartekjur heimilisins”

„Eru mömmur orðnar verðmætasta aflið í viðskiptum?”

„Langamma með netverslun”

Þessar setningar eiga allar það sameiginlegt að hafa birst í kynningarefni fyrir sölu á fæðibótarefni. En hvers konar undralausnir er verið að bjóða upp á og standast þessar fullyrðingar nánari skoðun?

Í nýlegum fréttum sagði frá því að norskur sölupíramídi, T5PC, hafi farið á hausinn. Talið er að um víðtækt svindl hafi verið að ræða og forsvarsmenn píramídans náð allt að tíu milljörðum af grunlausu fólki sem tók þátt í ævintýrinu. Gekk rekstur félagsins út á sölu ýmiskonar varnings en með þátttöku var nauðsynlegt að kaupa hlutabréf í fyrirtækinu.

Eins og í öðrum svipuðum píramídum má búast við því að afkoma þeirra sem tóku þátt hafi að miklu leyti byggst á því að fá sem flesta til að selja, þ.e. bæta sem flestum við neðri stig píramídans og tryggja þannig prósentur af sölu til efri stiga. Þannig hafa þeir sem tekið þátt tryggt stöðuga og örugga sölu á hlutabréfum fyrirtækisin með fyrrgreindum afleiðingum.

Við slíkar fréttir koma manni óneytanlega til hugar mun frægara dæmi um slíkan píramída. Þó að ekki sé ætlunin að gefa í skyn að Herbalife sölumennska sé viðlíka svindl þá verður því ekki neytað að svipuðum söluaðferðum og þarna eru á ferð er beitt. Afkoma sölumanna byggir að miklu leyti á sem víðtækustu neti tengiliða efri stiga píramídans við þau neðri. Þannig virðast í fyrstu sýn að sölumenn hafa mun meiri ágóða af því að fá aðra til að selja vöruna heldur að selja hana sjálfir.

Hugmyndafræðin er einföld: Látum sem að einhver hafi vöru til að selja, s.s. vítamín eða bætiefni í duftformi, með tilheyrandi þóknun. Viðkomandi getur reynt að selja vöruna sjálfur eða selt hana einhverjum öðrum sem aftur gæti reynt fyrir sér í sölu. Svona á þetta að ganga út í það óendanlega.

Að minnsta kosti tveir stórir gallar eru á þessu kerfi sem virðast fara fram hjá mörgum, þ.á.m. þúsundum norðmanna og a.m.k. fjórum Íslendingum sem tóku þátt í T5PC. Sá fyrri er að fyrirkomulagið getur ekki gengið út í það óendanlega. Markaðurinn mettast og sama hversu stór hann er, er alltaf takmarkaðir möguleikar til að selja vöruna. Seinni gallinn er sá að með því að fá aðra til að selja á þínu svæði ertu að búa til samkeppni sem hefur bein áhrif á þína afkomu.

Söluaðferðin skapar auk þess mörg lög birgja og seljenda og til þess að hver fái sinn hlut í sölu er nauðsynlegt að halda uppi verði – kakan verður jú að vera nógu stór til að eitthvað sé til skiptanna. Þannig verður meirihluti verðmætasköpunarinnar til sem kostnaður við sölu og markaðssetningu sem gefur til að kynna að framleiðslukostnaður getur ekki verið mjög hár. Í flestum tilfellum er það líka málið. Varan er oftar en ekki einhverskonar næringarefni og vítamín í duftformi í hentugum pakkningum – ekki ósvipað hundamat.

Auðvitað er til fólk sem græðir á sölupíramídum því annars væru þær varla til. En líklega verða langflestir fyrir nettótapi í þessum viðskiptum. Óhætt er að áætla að fyrir hvern einstakling sem nær árangri eru tíu aðrir sem tapa.

Sölupíramídinn tryggir jafnframt að mjög lítið heyrist frá þeim sem tapa á sölunni. Söluaðferðin gengur jú að miklu leyti út að að sannfæra aðra um að salan gangi vel, varan rjúki út, ekkert mál sé að selja og má geta sér til um að í mörgum tilfellum grípi fólk til þess að hagræða sannleikanum til að auka líkur á árangri.

Auðvitað mætti telja til tekna allskyns ekki eins augljósa kosti píramídasölu eins og Herbalife. Vissulega getur verið að einhverjir bæti lífstíl sinn og hjálpi öðrum að ná árangri. Kannski gefst kostur á því að mæta samkomur um hversu frábær varan er og kannski að hlusta á ógrynni af sögum um hversu miklum árangri fólk nær í sölu og notkun á vörunni.

Líklegast er þó að þeir sem taka þátt í slíkri starfsemi endi uppi með sárt ennið ekki einungis fjárhagslega heldur einnig félagslega því fátt er verra en að hafa sannfært vini og fjölskyldu um ágæti einhvers sem ekkert reynist.

Hádegisverðurinn er nefnilega ekki ókeypis – jafnvel þó að hann komi í duftformi.

Latest posts by Brynjólfur Stefánsson (see all)

Brynjólfur Stefánsson skrifar

Brynjólfur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.