Heimtur á fullveldi

sdfdÁ fullveldisdaginn setur pistlahöfundur sig í þjóðlegar og drepleiðinlegar stellingar og veltir fyrir sér orðfæri í auglýsingum.

Fríar heimtur hjá Hive á fullveldisdaginn svo ást okkar blómstri, Jón Sigurðsson!

Á degi íslenskrar tungu birtist auglýsing í Morgunblaðinu og var athygli manna vakin á því að til væru íslensk heiti yfir ýmis orð og hugtök sem gjarna eru notuð í veitingahúsarekstri. Þetta þótti pistlahöfundi sniðug og skemmtileg leið til að benda mönnum á að það er ekkert klókt að nota erlend heiti á íslenska veitingastaði og á matseðlum. Veitingastaðir verða nefnilega ekkert alþjóðlegri fyrir vikið — þeir verða kjánalegri. Það er af nógu að taka í þessum efnum og þannig myndi okkur ekki endast dagur til að fara í saumana á öllum þeim orðskrípum sem sjást í auglýsingum.

En þar sem Deiglan er nú einu sinni þjóðrækið vefrit fer vel á því að kíkja stuttlega á hugtök tengd netinu á fullveldisdaginn. Þannig er búið að íslenska fjöldann allan af erlendum heitum og hefir tekist hreint frábærlega til með það. Við tölum nú um beini (e. router), eldvegg (e. firewall), mótald (e. modem) og hafnir (e. hubs).

Kæru lesendur, ef þið eruð ekki fallnir í yfirlið af leiðindum þá hvet ég ykkur eindregið til að lesa áfram enda eru bjartari tímar framundan.

Nú getur pistlahöfundur fúslega viðurkennt að hann hefir enga menntun á sviði íslenskra fræða og því orkar það kannski tvímælis að hann fjalli um þetta mál — enda meiri líkur en minni á að stafsetningarvilla leynist í pistlinum sem gefur plebbum og öðrum vinstrisinnuðum smámunaseggjum gráupplagt tækifæri til að skjóta pistilinn og efni hans í bólakaf. En þar sem pistlahöfundur er útsmoginn með afbrigðum hefir hann nú tryggt sig gegn því að nokkur leggist svo lágt að gera atlögu að íslenskunotkun hans með ofangreindri baktryggingu (enda vill enginn gangast við því að vera smámunasamur plebbi!).

Því er við hæfi að skoða þetta mál svolítið betur.

Það fer alveg óstjórnlega í taugarnar á mér að engri nothæfri þýðingu á enska orðinu „download“ sé til að dreifa. Og það er sama hvað menn segja, þá er glatað og afar óþjált að tala um niðurhal!

Sko, þannig er hægt að segja: „Ég er að download-a vafasömu efni af netinu!“ Hins vegar get ég ekki séð að það sé neitt sérstaklega hressandi að reyna að koma orðinu niðurhali fyrir á sama máta í málsgreininni. Lesendur geta spreytt sig á þessu:

„Ég er að (niðurhal) __________________ vafasömu efni af netinu!“

Hér verður manni hreinlega orða vant — og það á sjálfum fullveldisdeginum!

Það er alveg stórmerkilegt að orðið „heimtur“ sé ekki notað í stað „niðurhals“. Þannig er orðið stutt, lýsandi og fellur vel að málinu. Dæmi: „Því miður kemst ég ekki í skólann í dag enda er ég upptekinn við heimtur á kvikmynd af netinu.“ Eða: „Ég kemst ekki — ég er við heimtur!“ Annað dæmi: „Hvað ertu að gera?“ — „Æi, ég sit við heimtur!“

Snjallt, ekki satt?

Hins vegar er fullljóst að hvernig sem menn túlka þetta er líklegt að frelsishetjan Jón Sigurðsson hafi snúið sér í gröfinni þegar alnafni hennar og Idol-stjarna gaf nýverið út geisladisk á Íslandi, fyrir íslenskan markað, hjá íslensku útgáfufyrirtæki, fyrir íslenska tónlistarunnendur undir íslenska titlinum „Our Love“.

Kaldari kveðju er vart hægt að senda alnafna sínum á fullveldisdaginn!

Latest posts by Halldór Benjamín Þorbergsson (see all)