16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi

25. nóvember er alþjóðlegur baráttudagur gegn kynbundnu ofbeldi. Í tilefni af því hleypir UNIFEM á Íslandi af stokkunum 16 daga átaki í samstarfi við fjölmörg félagasamtök.

Ofbeldi gegn konum er líklega eitt útbreyddasta vandamál heimsins í dag. Kerfisbundin kúgun er viðvarandi í mörgum ríkjum heimsins en annars staðar er hún falin. Talið er að ein af hverri þremur konum verði fyrir ofbeldi, nauðgun eða misnotkun á lífsleiðinni, segir á heimasíðu UNIFEM á Íslandi.

Í fréttabréfi samtakanna segir jafnframt að í dag hafi a.m.k. 45 þjóðir samþykkt ný lög sem sérstaklega banni heimilisofbeldi og 21 land séu með slík lög í undirbúningi. Tuttugu og fimm lönd hafi tekið upp lög sem taki á afskræmingu á kynfærum kvenna, 16 hafi samþykkt lög sem taki á kynferðislegu áreiti og 14 lönd hafi tekið upp lög um kynferðislega misnotkun. En betur má ef duga skal.

Árið 1999 samþykkti allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna að 25. nóvember ár hvert yrði alþjóðlegur baráttudagur gegn kynbundnu ofbeldi. 16 daga átakið hefst á þessum degi, nær yfir alþjóða alnæmisdaginn 1. desember og lýkur á alþjóða mannréttindadeginum þann 10. desember. Síðan því var hrint af stað í fyrsta sinn árið 1991 hafa um 1700 samtök í 130 löndum tekið þátt í verkefninu. Þetta er hins vegar í fyrsta sinn sem Ísland tekur þátt. Í ár er sjónum sérstaklega beint að tengslum kynbundins ofbeldis og alnæmis, en segja má að alnæmi sé eitt stærsta heilsufarsvandamál nútímans.

Rannsóknir sýna að kynferðislegt ofbeldi gegn konum er einn helsti orsakavaldur þess að útbreyðsla alnæmis í þeirra hópi er nú orðið að stærra vandamáli en hjá körlum. Tengslin eru flókin og snerta flesta þætti mannlegrar hegðunar. Í fréttabréfi UNIFEM má finna ítarlega útlistun á rannsóknum sem sýna þetta svart á hvítu.

Fyrir utan UNIFEM á Íslandi taka 17 samtök þátt í dagskránni og vekja með því athygli á brotalömum hér heima og erlendis. Ofbeldi gegn konum á Íslandi er raunverulegt vandamál í íslensku samfélagi og þarf aðeins að fylgjast með fréttum frá degi til dags til að fá staðfestingu á því. Næstu 16 daga gefst því kjörið tækifæri til að opna umræðuna enn frekar. Vonandi verður það enn eitt skrefið í átt til þess að útrýma þessu meinvarpi í þjóðfélaginu.

baldvin@deiglan.com'
Latest posts by Baldvin Þór Bergsson (see all)