Uppnám utanríkisráðherrans

Á nýafstöðnu þingi sambands ungra framsóknarmanna lét Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, í ljós efasemdir sínar um að EES-samningurinn stæðist stjórnarskránna.

Á nýafstöðnu þingi sambands ungra framsóknarmanna lét Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, í ljós efasemdir sínar um að EES-samningurinn stæðist stjórnarskránna. Eðlilega vakti þessi yfirlýsing Halldórs nokkra athygli, enda þykir mönnum nú á tímum almennt ekki gott að brjóta stjórnskránna, og ekki er laust við að hún hafi valdið hálfgerðu uppnámi, þar sem sjálfur utanríkisráðherrann er á ferð. Ungir framsóknarmenn hafa snúið algjörlega baki við yfirlýstri og einarðri afstöðu flokksins frá því fyrir nokkrum árum, nefnilega þeirri að Íslendingar ættu ekkert erindi inn í Evrópubandalagið, eins og það var kallað þá. Hver man ekki eftir hinu hljómfagra slagorði: „X-B, ekki EB!“

Efasemdir ráðherrans eiga eflaust einhvern rétt á sér og hann hlýtur að hlutast til um það sjálfur, að farið verði ofan í saumana á þessu. Það vekur hins vegar athygli að ekkert kom fram um þessar efasemdir endurskoðandans fyrrverandi í ítarlegri skýrslu utanríkisráðherra sem kynnt var Alþingi á dögunum. Halldór hlaut nokkurt hrós fyrir skýrsluna, bæði af andstæðingum og fylgismönnum aðildar að ESB, en nú kemur á daginn, að veigamikla þætti vantaði í hana. EES-samningurinn er einn af hornsteinum íslenskrar utanríkisstefnu og því er umhugsunarvert að utanríkisráðherra sjái meiri ástæðu til að greina sambandsþingi ungra framsóknarmanna en sjálfu Alþingi frá því að hugsanlega standist samningurinn ekki stjórnskrá.

Það sem einnig vekur athygli í þessu máli og skólagjaldamálinu svokallað, er sá mikli samhljómur sem er að verða með Framsóknarflokknum og Samfylkingunni. Forystumönnum fyrrnefnda flokksins er kannski að verða það ljóst, að hann hefur ekki lengur nógu mikið fylgi á bak við sig til að eiga réttmætt tilkall til núverandi þingflokksherbergis. Það skyldi þó ekki vera þannig að flokkurinn sem ekki segist taka mark á skoðanakönnunum sé að fara á taugum yfir auknu fylgi Samfylkingarinnar, en þessir flokkar leita jú mjög á sömu mið í atkvæðaveiðum. Það er svolítið kaldhæðnislegt, að þegar einöngu þessir tveir flokkar geta myndað tveggja flokka vinstri stjórn, skuli þeir berjast í sama mengi kjósenda, mengi sem verður líklega aldrei stærra en fimmtíu prósent.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.