Fordæmið að austan

Á dögunum gengu 59 Austfirðingar í samtök þar eystra sem láta sig varða náttúruvernd. Reyndist innganga þeirra nægileg til að ná völdum í félaginu, sem reyndari félögum þótti miður, af því að skoðanir nýju félaganna á náttúruverndarmálum voru engan veginn í takt við skoðanir eldri og reyndari félaga.

Á dögunum gengu 59 Austfirðingar í samtök þar eystra sem láta sig varða náttúruvernd. Reyndist innganga þeirra nægileg til að ná völdum í félaginu, sem reyndari félögum þótti miður, af því að skoðanir nýju félaganna á náttúruverndarmálum voru engan veginn í takt við skoðanir eldri og reyndari félaga. Er nú svo komið að helstu náttúrverndarsinnar landsins telja Náttúruverndarsamtök Austurlands (NAUST) ónýt og lítið að marka lengur það sem þessi merku samtök hafa til málanna að leggja.

Þessi uppákoma austur á fjörðum er auðvitað grátbrosleg. Öllum er jú frjálst að ganga í samtök á borð við NAUST, jafnvel þeim sem er uppsigað við tilgang félagsins og stefnu. Líklega hefði einungis þurft brotabrot af félögum í hverfafélagi Sjálfstæðisflokksins í Nes- og Melahverfi til að ná völdum í samtökum herstöðvarandstæðinga og koma því þannig til leiðar að samtökin féllust á tímabundna veru bandaríska hersins – eða jafnvel ótímabundna, ef menn hefðu viljað. Hægt er taka dæmi af fleiri frjálsum félagasamtökum sem allt í einu eru í ákaflegri tilvistarkreppu eftir að fordæmið var gefið eystra. „Málefnalegir“ andstæðingar geta nú gert frjáls félagasamtök óvíg með því að mæta með sæmilegt vinnustaðapartý á aðalfund.

En þetta sýnir líka fáránlegan tilverugrundvöll margra slíkra samtaka. Íslenskir fjölmiðlar, sérstaklega ríkisfjölmiðlarnir, eiga afar erfitt með sig þegar mörg hver þessara samtaka hefja upp raust sína. Ef nafnið er nógu stórt skipta innviðir samtakanna litlu máli. Náttúrverndarsamtök Austurlands voru þegar til kastanna kom fátt nema stórt nafn utan um fámennan hóp náttúrverndarsinna. Ekki er ætlunin að gera lítið úr þessum ágætu samtökum, því líku máli gegnir um flest önnur frjáls félagasamtök. Ýmsir stjórnmálaflokkar, lífs og liðnir, eru sama marki brenndir. Fjölmiðlaathygli á þeim er ekki í neinu samræmi við vægi félagskaparins. Frægt er auðvitað „landsþing“ Kvennalistans í Viðey fyrir nokkrum árum – sem var auðvitað ekkert annað en samkoma í saumaklúbbi.

En hverju breytir svo allt þetta félagabrölt? Hvað ávinningur hefði það orðið fyrir fylgismenn varnarsamningsins að yfirtaka samtök herstöðvaranstæðinga? Hvaða ávinningur verður það fyrir virkjunarsinna á Austurlandi breyta stefnu NAUST? Nákvæmlega enginn, nema kannski sá að sýna fram á að örfáar hræður náðu völdum í félagi sem í voru enn færri hræður – ef vera skyldi að einhverjum hefði ekki verið það ljóst fyrir.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.