Lágtekjumaður í matarboði

Nokkuð hefur verið um það fjallað að forseti Íslands skyldi sjá ástæðu til að heiðra viðskiptamanninn Jón Ólafsson, oft kenndan við Skífuna, með því að bjóða honum til kvöldverðar í tilefni seinni embættistöku sinnar.

Nokkuð hefur verið um það fjallað að forseti Íslands skyldi sjá ástæðu til að heiðra viðskiptamanninn Jón Ólafsson, oft kenndan við Skífuna, með því að bjóða honum til kvöldverðar í tilefni seinni embættistöku sinnar. DEIGLAN hefur áður fjallað um lágtekjumanninn Jón Ólafsson en það er ævinlega gleðiefni að sjá fólk í hans launaflokki brjótast til álna og metorða. Að hugsa sér… maður úr lægstu stigum þjóðfélagsins [tekjulega séð, að sjálfsögðu] skuli nú vera orðinn einn af ríkustu mönnum landsins og auðfúsugestur í matarboðum hjá forseta lýðveldisins.

Það er auðvitað sjálfsagt mál að forsetinn skjóti þannig skjólshúsi yfir þá sem telja sig víða eiga óvildarmenn. Það er höfðinglegt af forsetanum og sýnir ramma taug hans til konunga fortíðar. En þessi uppákoma rifjaði upp í huga DEIGLUNNAR vísu sem hið ágæta Ríó Trío kyrjaði um árið. Hún hefst þannig:

Það var snemma í september

að ég staulaðist heim hálfber

því að mikinn mjöð ég lét í maga mér.

Að lokum kylliflatur ég féll

ofan í forarpoll með skell.

Þá kom syfjað svín og lagði sig hjá mér.

Síðan segir í vísunni frá tveimur kvenfélagskonum sem bar þar að. Þær virtu fyrir sér unga manninn og svínið og eftir að hafa velt því fyrir sér á hvorum endanum maðurinn væri nakinn [á þessum ljótari, var niðurstaðan] gaf sú eldri þeirri yngri heilræði og fjallar niðurlag vísunnar um það:

„Guðrún Þuríður,

það má nokkuð þekkja þá sem drekka

á þeim félögum sem þeir þekkja.“

Þá stóð svínið upp og labbaði heim á leið.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.