Á Austurlandi – eða alls ekki

Hér á landi eru starfræktar ýmsar verksmiðjur. Einhverjar þeirra teljast stóriðjur og tvær þeirra eiga það sameiginlegt að framleiða ál.

Hér á landi eru starfræktar ýmsar verksmiðjur. Einhverjar þeirra teljast stóriðjur og tvær þeirra eiga það sameiginlegt að framleiða ál. Eflaust er sá maður vandfundinn sem varhuga hefur farið af endalausum tilraunum stjórnvalda til að fá hingað til lands þriðja fyrirtækið til að bræða ál. Er það eitt helsta baráttumál Framsóknarflokksins að byggja upp orkufrekan iðnað í landinu og hefur flokkurinn haft þessi mál á sinni könnu í rúmlega fimm ár. Ekki er ofsögum sagt að Framsóknarflokkurinn hafi lagt heiður sinn [sumir myndu segja líf sitt] að veði vegna fyrirheita um að Norsk Hydro reisi álverksmiðju á Reyðarfirði og hefur þessi eindregni vilji þótt vera til marks um stefnufestu flokksins í orkumálum.

Nú er hins vegar komið í ljós að ekki er sama álbræðsla og álbræðsla í huga framsóknarmanna. Norðurál í Hvalfirði hefur í hyggju að stækka verksmiðju sína all verulega en forsenda þess er að nægileg orka sé til sölu hjá Landsvirkjun. En orkan úr íslensku fallvötnunum má auðvitað ekki nýtast röngum stöðum. Iðnaðarráðherra hefur látið í veðri vaka að álver á Reyðarfirði hafi forgang hvað varðar orkusölu Landsvirkjunar og að ekki verði gengið til samninga við Norðurál fyrr en Norsk Hydro-málið er í höfn, hvenær sem það svo verður.

Í þessu máli virðist Framsóknarflokkurinn endanlega hafa kastað grímunni. Stóriðjustefna hans, sem verið hefur þungamiðjan í stefnu flokksins síðustu ár, er ekkert annað en yfirskin yfir blygðunarlaust kjördæmapot. Stækkun á arðbæru og atvinnuskapandi fyrirtæki verður að líklega ekki að veruleika, því Framsóknarflokkurinn er búinn að taka frá orkuna fyrir norskt fyrirtæki sem er undir miklum þrýstingi um að reisa álver í mikilvægu kjördæmi úti á landi, sem senn rennur saman við annað ekki síður mikilvægt kjördæmi.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.