Pylsur og lýðræði

Pylsur eru að margra mati góðar og í huga sumra hreinn herramannsmatur. Pylsa með öllu hefur ákveðinn sess í íslenskri þjóðarsál og viss menningarathöfn að leggja sér hnossgætið til munns.

Pylsur eru að margra mati góðar og í huga sumra hreinn herramannsmatur. Pylsa með öllu hefur ákveðinn sess í íslenskri þjóðarsál og viss menningarathöfn að leggja sér hnossgætið til munns. En þótt þorri manna kunni vel að meta pylsur hafa fæstir hugmynd um innihald þessa annars einfalda fyrirbæris. Enn færri hafa af eigin raun kynnst framleiðslu matvörunnar, þ.e. úr hverju er pylsa búin til og hvernig. Flestum nægir að vita að hún bragðast vel – en hætt er við að lystin minnkaði ef framleiðsluferill pylsunnar kæmist undir smásjá og hver einasta görn, sin og tægja yrði krufin til mergjar, ef svo má að orði komast.

Lýðræðið er á margan hátt eins og pylsa. Almennt ríkir sátt um lýðræðisfyrirkomulagið, það er einfalt og auðskýranlegt á yfirborðinu og hingað til hefur engin betri uppskrift fundist. En fæstir hafa af eigin raun kynnt sér framleiðsluferil lýðræðisins og þess vegna hefur enginn ástæðu til að ætla að lýðræðið sé nokkuð annað en það sem það lítur út fyrir að vera – rétt eins og hver önnur pylsa. Nú hefur það gerst að frameiðsluferill lýðræðisins, í mesta lýðræðisríki heims, hefur lent undir smásjánni og í ljós kemur að tilbúningur þess er á margan hátt illsamrýmanlegur hugmyndum margra um afurðina.

Framkvæmd lýðræðisins verður aldrei fullkomnari en þeir sem um hana sjá. Menn eru vitaskuld ekki fullkomnir og það eru vélar ekki heldur. En svona hefur lýðræðið alltaf virkað – það er ranghugmynd að kosningarnar í Bandaríkjunum nú séu á nokkurn hátt öðruvísi en áður, ef frá er talið að þær eru mun jafnari. Ferillinn er ekki gallalaus og margt miður æskilegt slæðist með – eins og við framleiðslu pylsunnar. Það sem mestu máli skiptir er að sem flestir séu sáttir við bragðið af pylsunni og að engum verði meint af neyslu hennar – það sama gildir um lýðræðið.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.