Manndráp í beinni

Ástandið í Írak síðasta ár hefur einkennst af sundrungu og eru framtíðarhorfur landsins alls ótryggar. Vopnaðir hryðjuverkahópar hafa verið í stöðugri baráttu gegn erlendu hernámsliði auk þess sem árásir á almenna borgara, þá sérstaklega erlenda, hafa færst í aukana.

Ástandið í Írak síðasta ár hefur einkennst af sundrungu og eru framtíðarhorfur landsins alls ótryggar. Vopnaðir hryðjuverkahópar hafa verið í stöðugri baráttu gegn erlendu hernámsliði auk þess sem árásir á almenna borgara, þá sérstaklega erlenda, hafa færst í aukana. Hryðjuverk eru tíð, en hafa verið að breyta um mynd. Mannrán og gíslatökur verða æ algengari. Saklausum borgurum í Írak er rænt og morðin fest á filmu og sýnd á sjónvarpsstöðum um allan heim.

Mannrán er vissulega ógnarglæpur. Fórnarlömbin eru gjarnan valin út frá þjóðerni sínu og þau síðan notuð sem vopn í baráttu mannræningjanna til þess að ná fram kröfum sínum. Annaðhvort er um að ræða kröfur á hendur ríkisstjórnum erlendra ríkja eða mannránið framið til að fjármagna starfsemi hryðjuverkahópsins.

Markmið með þessum hryðjuverkum er jafnframt skýrt. Með hryðjuverkjum vilja þeir valda óværð meðal erlendra íbúa í landinu og hrekja þá úr landi. Hryðjuverkin valda jafnframt upplausnarástandi í landinu sem fyrirbyggir að hugmyndir hernámsliða um úrbætur í Írak nái fram að ganga.

Það slæma er að mannránin eru að skila markmiði sínu og hryðjuverkahópar sjá að þarna er á ferðinni aðferð sem skilar árangri. Embættismenn erlendra ríkja hafa flykkst frá landinu auk þess sem fyrirtæki og fjárfestar hafa látið hjá líða að hefja þar starfsemi. Írösk yfirvöld hafa reynt að sporna við þessu og hafa hvatt hjálparstofnanir til að gefast ekki upp og hætta starfsemi í landinu. Einnig hafa yfirvöld sagt að það það sé einmitt það sem öfgahóparnir séu að reyna að gera með mannránum sínum og árásum og hvetja hjálparsamtök til að sitja sem fastast.

Verra er, að hryðjuverkahópar hafa gert sér grein fyrir að því hrottalegri sem gíslatakan er, því meiri fjölmiðlaumfjöllun fær málið. Þetta veldur keðjuverkandi áhrifum sem eykur grimmd mannræningja og samhliða, áhuga fjölmiðla. Hvar þessi þróun tekur enda veit enginn, en ljóst er að þarna er farið af stað ferli sem verður að stöðva..

Til dagsins í dag hafa um 100 erlendir borgarar verið teknir gíslatöku í Írak auk þess sem all nokkrir hafa verið teknir af lífi fyrir framan myndavélar. Eftir því sem tilvikum fjölgar eru mannræningjarnir sífellt farnir að tileinka sér “fagmannlegri “ vinnubrögð til þess að fanga athygli fjölmiðla. Notkun netsins hefur jafnframt fært með sér nýjan vinkil í málið. Núna þurfa mannræningjarnir ekki einusinni að koma efninu frá sér með hjálp fréttamanna. Það eina sem þarf til er stafræn myndavél, gísl af erlendum uppruna og svo eru myndir sendar yfir hnöttinn.

Erfitt er að gleyma Ken Bigley sem var tekinn í gíslingu 16. september af harðlínumönnum í Írak. Tveimur Bandaríkjamönnum var rænt ásamt Bigley, en þeir voru báðir teknir af lífi. Kröfur mannræningjanna voru að að Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, myndi leysa kvenfanga í írökskum fangelsum úr haldi. Mannránið var skipulagt af hryðjuverkahópi, tengdum Abu Musab al-Zarqawi, leiðtoga al-Kaída í Írak. Þegar fyrstu myndirnar af Bigley birtust var erfitt að loka augunum fyrir því að um líf og dauða var að tefla. Seinna þegar upptaka af morðinu þaut eins og eldur í sinu um netið varð hryllingurinn óþægilega nálægur manni heima í stofu. Stefna breskra stjórnvalda í tilvikum sem þessum er skýr, ekki er látið undan kröfum hryðjuverkamanna. Þrátt fyrir að stjórnvöld séu ekki að láta undan kröfum hryðjuverkamannana hafa verk þeirra samt sem áður áhrif því starfsmenn alþjóðlegra hjálparstofnana jafnt og almennir borgarar eru að flýja Írak vegna þess hættuástands sem þar ríkir og eru því hryðjuverkamennirnir smám saman að ná því markmiði að koma erlendum borgurum úr landi.

Latest posts by Helga Kristín Auðunsdóttir (see all)

Helga Kristín Auðunsdóttir skrifar

Helga Kristín hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2004.