Austurstræti ys og læti?

Lítil hugmynd að bættum miðbæ skaut upp í kollinn á mér þegar ég var staddur í Málmey um síðustu páska. Í Málmey við Eyrarsund er að finna skemmtilegt torg þar sem eru ekkert annað en kaffi- og veitingahús staðsett. Þar sitja Svíar, ekki Skagfirðingar, og svolgra í sig kjötbollur og Pripps eða e-ð annað álíka sænskt.

Þeir eru ófáir sem hafa gefið út dánarvottorð á miðbæ Reykjavíkur á síðastliðnum árum. Verslunareigendur hafa margir kvartað sáran yfir versnandi afkomu og borgarbúar telja miðbæinn ekki aðlaðandi stað til að vera á. Þetta fyrrum vígi smásöluverslunar á landinu má muna sinn fífil fegurri og sér á eftir þorra fólks flykkjast í risamollin að bandarísku ofurverslunarfyrirmyndinni. Með flótta höfuðstöðva stórra fyrirtækja á borð við Eimskipafélagið og KB Banka úr miðbænum er einnig ljóst að þeim fækkar sem eiga erindi í miðbæinn dags daglega. En þýðir þetta að miðbærinn sé dauður úr öllum æðum?

Ég er einn þeirra sem er ekki sammála því. Eftir að hafa búið í miðbænum undanfarin tvö ár get ég ekki tekið undir með þeim röddum sem segja miðbæinn vera að syngja sitt síðasta. Að mínu mati er miðbær Reykjavíkur stórskemmtilegur staður og þar ættu menn að geta fundið sér hvað það sér til dundurs sem þeim lystir. Helsti kosturinn er að maður kemst allt á tveimur jafnfljótum. Hitt er þó rétt að verslunin er á undanhaldi og er líklega borinn uppi af erlendum ferðamönnum í dag.

Að sjálfsögðu má alltaf gera betur og það eru mörg atriði sem borgaryfirvöld ættu að hafa í huga í þeim efnum. Mikilvægast þeirra er að sjálfsögðu þétting byggðar sem er algjör lykilforsenda þess að blómlegt mannlíf geti þrifist í miðbænum. Fyrstu skrefin í þá átt hafa verið stigin og má nefna því til staðfestingar byggingu íbúða í Skuggahverfinu sem og fyrirhugaða byggingu stúdentagarða við Lindargötuna. Betur má ef duga skal, plássið er yfirdrifið í miðbænum og grennd við hann, og ekkert því til fyrirstöðu að nokkrir tugir þúsunda búi á þessu svæði í framtíðinni.

Lítil hugmynd að bættum miðbæ skaut upp í kollinn á mér þegar ég var staddur í Málmey um síðustu páska. Í Málmey við Eyrarsund er að finna skemmtilegt torg þar sem eru ekkert annað en kaffi- og veitingahús staðsett. Þar sitja Svíar, ekki Skagfirðingar, og svolgra í sig kjötbollur og Pripps eða e-ð annað álíka sænskt. Sé kalt í veðri breytir það ekki öllu. Gashitarar og Jegermeister sjá um að ylja gestum staðanna um hjartarætur sem vel flestir kusu að sitja úti þrátt fyrir napurt veður. Í Reykjavík eigum við eiginlega svipað torg, Austurvöll. Austurvöllur er þéttsetinn á sumrin í góðu veðri en vegna takmarkaðs pláss komast færri að en vilja á þeim kaffihúsum sem þar eru staðsett.

Ég held það væri reynandi að skapa svipaða stemningu og í Málmey á Austurvelli. Til þess þyrfti að loka fyrir umferð um Pósthússtræti frá Dómkirkjunni að Apótekinu. Þeir veitingastaðir sem þar eru gætu þá tekið götuna undir sína starfsemi. Þeir gætu farið að fordæmi Málmeyinga og boðið upp á veitingar undir gashituðum tjöldum.

Þó kannski ekki veðri alltaf til þess gætu Reykvíkingar dags daglega, um helgar eða í jólaösinni fengið sitt Cappuccino eða heita jólaglögg úti í fersku borgarloftinu, lausir við óþarfa bílaumferð á þessu svæði. Þetta gæfi jafnframt kost á frekari sýningum á Austurvelli svipuðum stórskemmtilegum ljósmyndasýningum síðustu sumur. Nú veit ég ekki hvort þetta sé í raun hægt. Bíllinn þarf sitt pláss og sínar leiðir til að komast milli staða. Ég skora hins vegar á Reykjavíkurborg að gaumgæfa málið. Þetta gæti gert góðan stað enn betri.

Þeir eru líklega fleiri en ég sem er sama sinnis og bera hlýjar taugar til miðbæjarins. Allavega má telja ólíklegt að fasteignaverð á þessum stað væri það hæsta á landinu ef miðbærinn væri ekki eftirsóttur búsetustaður. Ég skora hins vegar á aðra borgarbúa, þ.e. þá sem telja miðbæinn lítt aðlaðandi, að kynna sér hann betur. Þeir gætu t.a.m. sest á eitt af veitingahúsum bæjarins, gert vel við sig í mat og drykk og rölt tjarnarhringinn og þrönga stíga Þingholtanna á eftir, s.s. Haðarstíg og Válastíg. Einnig væri tilvalið, þar sem jólin nálgast, að kíkja í litlu jólabúðina á Grundarstígnum eða fá sér Latte í stóru bókaverslunum með blað eða bók í hönd. Svo eru alltaf leikhúsin, Regnboginn og Listasafn Íslands, svo fátt eitt sé nefnt. Það er í það minnsta af nógu að taka og líklega kemur það flestum á óvart hversu fjölbreytt mannlífið í miðbænum er í raun og veru.

Latest posts by Þórður Heiðar Þórarinsson (see all)