Stutt hlé á verkfalli?

Í dag mæta kennarar aftur til vinnu eftir langa og stranga verkfallsbaráttu. Einhver kríli hafa eflaust átt erfitt með að vakna í skammdeginu í morgun, eftir að hafa geta tekið dögunum rólega síðustu sex vikurnar, en mörg eru þau þó eflaust fegin að hitta bekkjarfélagana aftur og takast á við hversdagsleikann eins og þau þekkja hann. En gæti verið að þetta verði bara stutt hlé á annars löngu verkfalli?

Í dag mæta kennarar aftur til vinnu eftir langa og stranga verkfallsbaráttu. Foreldrar út um allt land geta nú áhyggjulausir sinnt störfum sínum þar sem börnunum hefur aftur verið haganlega fyrir komið í skólum landsins. Einhver kríli hafa eflaust átt erfitt með að vakna í skammdeginu í morgun, eftir að hafa getað tekið dögunum rólega síðustu sex vikurnar, en mörg eru þau þó eflaust fegin að hitta bekkjarfélagana aftur og takast á við hversdagsleikann eins og þau þekkja hann.

Kennarar virðast þó ekki vera jafnfegnir og börnin. Miðlunartillaga ríkissáttasemjara fellur ekki í kramið hjá kennarastéttinni ef marka má umræðu helgarinnar og óttast margir að með henni sé einungis verið að gera stutt hlé á verkfallinu. Verkfall muni hefjast aftur strax í næstu viku þegar ljóst verði að miðlunartillagan hafi verið felld.

Maður veltir fyrir sér hvað ríkissáttasemjara gengur til með tillögu sem þessari þegar ljóst er að hún er svo langt frá kröfum aðila sem raun ber vitni. Það skyldi þó ekki vera að því sé einfaldlega treyst að kennarar gangi í sig (eða gefist upp) og samþykki tillöguna til að börnin komist í skólann? Og hvað er þá fengið með því? Hvað er fengið með því að hafa kennara illa launaða og óánægða í starfi? Hversu miklu betur eru börnin sett þá? Ég veit að þetta eru gamlar og klisjukenndar setningar en ástæðan fyrir því er að þær hafa hljómað í áraraðir án þess að teljandi árangur hafi náðst í kjarabaráttu kennara. Þær virðast því alls ekki vera skila sér í þau eyru sem máli skipta.

Frá því ég hóf skólagöngu mína hef ég aldrei heyrt að nokkur kennari hafi verið ánægður með launaseðilinn sinn, og það þó ég hafi sjálf þurft að þola sex vikna verkfall og eitt yfirvofandi. Það hlýtur að teljast ábyrgðarhlutur að búa svo um hnútana að kennarar í skólum landsins geti ekki samið um laun við vinnuveitanda sinn nema í félagi og þá með tilheyrandi kostnaði og vera svo ekki tilbúinn til að svara þeim kostnaði. Kennari sem er óánægður með launin sín á einum stað, hefur það ekkert betra á öðrum stað. Eini kostur hans í stöðunni er að hætta kennslu og snúa sér að öðrum verkefnum sem hafa ekkert með upprunalegt val hans á menntun og lífsviðurværi að gera. Ef hann vill það ekki þá á hann ekki marga valkosti eftir til að bæta stöðu sína.

Það hefur mikið verið rætt um fórnarlömb verkfallsins síðustu vikurnar, börnin. Kennarar hafa fengið skammir á opinberum vettvangi fyrir að sýna af sér mikið ábyrgðarleysi og grimmúð gagnvart börnunum með því að beita verkfallsvopninu í kjarabaráttu sinni. Ábyrgðarleysið og grimmúðin, ef einhver er, liggur annars staðar. Það hefði aldrei komið til verkfalls ef samningar hefðu náðs. Samningar hefðu náðst ef kennurum hefðu boðist mannsæmandi laun fyrir störf sín.

Það eru nú líklegast margar hliðar á þessu verkfalli og sitt sýnist hverjum um réttmæti þess. Það er þó nokkuð ljóst að það er takmark fárra í lífinu að fá launaseðil eins og þá launaseðla kennara sem hafa verið að birtast á síðum dagblaðanna. Munurinn er bara sá að flest okkar eigum við annarra kosta völ. T.d. þann að leita betri kjara hjá öðrum atvinnurekanda.

Innst inni vonast ég til að kennarar felli miðlunartillöguna blákalt ef þeim líkar hún ekki. Það verður að muna um þetta verkfall í pyngju kennara fyrst svo er komið. Annars er ég hrædd um að við eigum von á öðru verkfalli fyrr en varir.

Latest posts by Ásta Sóllilja Sigurbjörnsdóttir (see all)