Bölvun Bambinos

Á dögunum rituðu leikmenn hafnaboltaliðsins Boston Red Sox nöfn sín á spjöld sögunnar, þegar þeir gerðu sér lítið fyrir og hrepptu World Series titilinn eftirsótta, sem lið þeirra hafði ekki unnið í 86 ár.

Hafnabolti er íþrótt sem milljónir manna iðka og enn fleiri horfa á. Í Bandaríkjunum er hafnabolti ástríða og menn vilja auðvitað alltaf, sem og í öðrum íþróttum, sjá liðið sitt vinna. Stuðningsmenn Boston Red Sox höfðu ekki séð sína menn vinna meistaratitillinn í 86 ár þegar það gerðist loksins síðastliðinn miðvikudag og er þungu fargi af þeim létt.

Í bandarískum hafnabolta eru tvær deildir, önnur kallast National League og hin American League. Fyrirkomulag úrslitakeppninnar er nokkuð svipað og við þekkjum úr NBA deildinni, þar sem þau lið sem vinna hvora deild etja kappi í úrslitakeppninni, World Series. Eins og nafnið bendir til er þetta röð leikja og það lið sigrar sem er fyrra til að vinna fjóra leiki.

Það var árið 1918 að Boston Red Sox unnu síðast World Series, þá með einn þekktasta hafnaboltaleikmann allra tíma, George Herman “Babe” Ruth innanborðs. Þeir höfðu þá unnið titilinn fjórum sinnum síðustu fimmtán árin þar á undan og flestir bjuggust við áframhaldandi velgengni.

Hún átti þó sannarlega eftir að láta á sér standa og flestir eru sammála um að árið 1920, þegar fyrrnefndur Babe Ruth var seldur til erkifjendanna New York Yankees, hafi verið vendipunktur og raunverulega upphafið að áratugaóförum Boston liðsins. Fylgismenn þess bjuggust á hverju ári við titlinum, en allt kom fyrir ekki.

Eftir tæplega sjötíu ár án titils, árið 1986, var fyrst minnst á það að nokkurs konar bölvun hvíldi á Boston liðinu, að því væri einfaldlega ómögulegt að vinna titilinn. Menn tóku upp á því að kalla þessa bölvun “The Curse of the Bambino”, en Bambino var einmitt gælunafn Babe Ruth. Menn tengdu því þessa titilþurrð beint við brotthvarf hans árið 1920, þrátt fyrir að ljóst væri að hann ætti takmarkaðan hlut að máli.

Það var svo fjórum árum síðar, árið 1990 að blaðamaður Boston Globe, Dan Shaughnessy, gaf út bók undir þessu nafni og þá varð ekki aftur snúið. Upp frá því var allt sem miður fór hjá Red Sox skrifað á reikning Babe Ruth og fjölmargir áhorfendur, sem vildu „losna undan“ bölvuninni, mættu gjarnan á leiki með spjöld sem á stóð „Reverse the Curse“.

En leið Boston Red Sox að titlinum að þessu sinni var þyrnum stráð. Í úrslitum American League, raunverulega undanúrslitunum, mættu þeir stórliðinu New York Yankees og töpuðu fyrstu þremur leikjunum í þeirri seríu. Eftir þriðja leikinn og þegar langt var liðið á þann fjórða höfðu flestir afskrifað þá og leit út fyrir að þeirra stuðningsmenn þyrftu, sem fyrr, að bíða þar til á næsta ári.

Leikmenn liðsins voru hins vegar ekki á þeim buxunum heldur gerðu sér lítið fyrir og tókst það sem engu liði hafði áður tekist. Þeir unnu næstu fjóra leiki og þar með seríuna og komust í úrslit.

Í World Series gerðu þeir sér svo lítið fyrir og unnu St. Louis Cardinals með fjórum leikjum gegn engum og þar með “heimsmeistaratitilinn”.

Hafnaboltaáhugamenn í Bandaríkjunum bíða nú spenntir eftir því hvað gerist áður en næsta tímabil hefst, hvaða leikmenn verða seldir og hverjir keyptir og líklega vonast stuðningsmenn Boston Red Sox eftir öðrum titli. Það á þó eftir að koma í ljós, því aldrei er að vita nema þeir þurfi að bíða önnur 86 ár eftir þeim næsta.

Latest posts by Davíð Gunnarsson (see all)