Við skulum kýl’ á soldið gas

Í texta lagsins Einn dans við mig af sólóplötu Hermanns Gunnarssonar Frískur og fjörugur… er hugtakið gas notað í óvenjulegri merkingu.

Í texta lagsins Einn dans við mig af sólóplötu Hermanns Gunnarssonar Frískur og fjörugur… er hugtakið gas notað í óvenjulegri merkingu.

Í fjórða erindi kvæðisins segir:

Inn’ á bar

Tómt mas og þras

Við að ná í glas.

„Halló beibí. Hvar er kallinn þinn í kvöld?

Kemur’ oft hingað?

Ertu ein?

Við skulum kýl’ á soldið gas.“

Ekki er fyllilega ljóst hvað átt er við með hugtakinu gas í þessu samhengi. Samkvæmt þriðju útgáfu íslensku orðabókarinnar í ritstjórn Marðar Árnasonar þá merkir hugtakið gas, gass, gös 1 efni í loftkenndu ástandi, loft. 2 eðlis/efnafr. Lofttegund, einn af fjórum fösum efnis, blanda eldfimra lofttegunda, notuð til brennslu í iðnaði og til heimilisnota › gasljós/gasleiðsla 3 eðlis/efnafr. eitruð lofttegund › eiturgas, táragas. 4 grisja, sárabindi.

Af lestri orðabókarinnar er ljóst að Mörður hefur klikkað á að kynna sér sólóplötu Hermanns Gunnarssonar við ritstjórn orðabókarinnar. Er sú vanræksla hörmuð og Merði bent á að botna Hemma í næsta teiti þingflokks Samfylkingarinnar.

Þar sem Mörður er ekki með sitt á hreinu verðum við að leita annað í leit okkar að merkingu hugtaksins gas í þessu samhengi. Ef setningin er lesin í samhengi við allan textann er augljóst að með hugtakinu gas er átt við einhvers konar fjör eða skemmtan. Eins er ljóst að fjögur orð í fjórða versi ríma, þ.e. orðin mas, þras, glas og gas. Etv. erum við strax búin að komast að niðurstöðu. Hugtakið gas er einungis notað til rímnagerðar auk þess sem að setningin „við skulum kýl’ á soldið gas“ hljómar ágætlega og fellur vel að stíl kvæðisins.

Með empírískri rannsókn á hugtakanotkun nokkurra lögfræðinga, viðskiptafræðinga og laganema hefur undirritaður komist að þeirri niðurstöðu að hugtakið gas er notað yfir fyndin mannleg samskipti sem hafa einhvers konar fáránleikablæ yfir sér.

Dæmi um gott gas er að skella sér á skemmtistaðinn 22 um ellefuleytið á föstudagskvöldi þegar sárafáir eru inni á staðnum. Fara upp á aðra hæð þar sem dansgólfið er. Fara því næst út í horn og ná sér í nokkra stóla og byrja að fleygja þeim inn á dansgólfið. Ef plötusnúðurinn hefur einhverjar athugasemdir við þessa hegðun skal viðhafa þessi orð: „Far þú bara inn í búr og settu plötu á fóninn. Kallinn er að fleygja stólum.“ Annað dæmi um gott gas er að íklæðast jakkafötum og teipa á sér hausinn í samkvæmi og fá aðra til þess sama. Taka verður skýrt fram að hægt er að gasa á fleiri vegu.

Að lokum ætla ég að biðja sem flesta að kýl’ á soldið gas á börum og býlum landsins um helgina, fleygja nokkrum stólum í liðið og teipa á því hausinn.