Hringekja Össurar

Nú um helgina ásakaði Össur Skarphéðinsson Sjálfstæðisfólk um að vilja notfæra sér verkfall kennara til þess að benda á nýjar rekstrarlausnir við Skólakerfið. Slíkum ásökunum er auðvitað ekki hægt að svara en rifja má upp að Össur hefur sjálfur verið talsmaður markaðslausna við samfélagsþjónustu.

Nú um helgina fór fram flokkstjórnarfundur hjá Samfylkingunni þar sem formaður flokksins hélt því fram að Sjálfstæðisfólk væri að notfæra sér verkfall kennara til þess að ýta undir hugmyndir um einkavæðingu skólakerfisins. Átti hann þá við að sjálfstæðisfólk væri að þráist við því að ríkisstjórnin kæmi að lausn deilunnar í þeim tilgangi að auglýsa kosti einkavæðingar

Það er með ólíkindum að formaður hjá stórum stjórnmálaflokki skuli láta slíkt út úr sér án þess að blikna. Í fyrsta lagi þá stofnaði sjálfstæðisflokkurinn ekki til verkfallsins, heldur kennarasambandið sem aftur beitir þeirri óbilgjörnu samningatækni að koma hvergi til móts við viðsemjendur sína. Í öðru lagi þá veit Össur það vel að hugmyndir að fjölbreyttara rekstrarformi lúti fyrst og fremst að einkarekstri en ekki einkavæðingu.

Í orðræðu stjórnmálanna hefur lengi gætt þess misskilnings að einkarekstur sé það sama og einkavæðing, en það er fjarri öllum sannleika. Einkavæðing felur í sér að verkefni eru flutt alfarið til einkaaðila þannig að þeir fái full yfirráð. Einkarekstur er því ólík einkavæðingu að því leyti að hið opinbera hefur áfram afskipti af verkefninu með skilgreiningu á þjónustunni og eftirliti með því að skilmálum samnings sé fylgt.

Og Össur veit betur vegna þess að hann hefur sjálfur talað fyrir einkarekstri. Fyrir tæplega ári síðan hélt Samfylkingin landsfund sinn í Hafnarfirði þar sem Össur talaði fyrir þeirri góðu leið að ráðist yrði að rótum rekstrarvanda heilbrigðiskerfisins með því að auka vægi einkareksturs. Þessar hugmyndir voru samhljóma landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins og einnig ályktunum ungra Sjálfstæðismanna.

Vissulega ríkir ófremdarástand í íslensku samfélagi vegna verkfalls kennara og við slíkar aðstæður er ekki óeðlilegt stjórnmálamenn bendi á lausnir til þess að bæta slíkt ástand. Einkarekstur er góð lausn, ekki bara til þess að leysa vandamál við rekstur grunnskóla, heldur á fleiri sviðum samfélagsþjónustunnar. Sérstaklega þegar á það er litið að hlutfall samneyslunnar af landsframleiðslu er hærra á Íslandi en í öðrum löndum OECD.

Formaður næststærsta stjórnmálaflokks Íslands heldur áfram að snúast á hringekju sinni. Maður veit aldrei hvar hann stekkur af næst. Fyrst lendir hann hjá Heimdellingum og næst hjá gömlu Alþýðubandalags vinum sínum. Það er erfitt að treysta slíkum mönnum.

Latest posts by Torfi Kristjánsson (see all)

Torfi Kristjánsson skrifar

Torfi hóf að skrifa á Deigluna í október 2002.