Draumaríki Skandífasistans

Sumir spá í bolla, aðrir stjörnumerki og fleiri ráða drauma. Greinarhöfundur spáir í stórmyndina Demolition Man.

Demolition Man skartar ekki ómerkari mönnum en Sylvester Stallone og Wesley Snipes í aðalhlutverkum. Hún segir frá átökum ofurlöggunnar John Spartans og glæpónsins Simon Pheonix. Árið 1996 enda dramatísk átök þeirra á því að þeir eru báðir dæmdir til frystingar fyrir morð á rútuhlassi af fólki.

Árið 2032 eru þeir síðan afþýddir og þeim hleypt aftur í samfélagið, sem þá er orðið að Útópíuríki Skandífasismans. Í framtíðinni hafa mörg stefnumál Skandífasistans náð fram að ganga og í raun spaugilegt að horfa á myndina aftur nú rúmlega tíu árum síðan ég sá hana fyrst. Maður fær staðfestingu á því að Manneldisráð nær yfirhöndinni. Spartan langar í hamborgara, salt og bjór en fær ekki fyrr en hann fer neðan jarðar. Allt óhollt er bannað. Spartan og Huxley, kvennkyns aðstoðarkona hans, ákveða að eiga mök eitt kvöldið, en mökin verða að vera sýndarmök. Því öll skipti á líkamsvessum eru bönnuð af heilbrigðisástæðum. „Planned parenthood“ nær nýjum hæðum, því ekki má eignast börn nema með samþykki ríkisvaldsins.

Þorgrímur Þráinsson ætti að gleðjast því tóbak er að sjálfsögðu harðbannað og hvergi fáanlegt. Þorgrímar framtíðarinnar hafa því náð öðru miklu hagsmunamáli í gegn. Það er orðmengun. Það er að sjálfsögðu bannað að bölva. Í hvert skipti sem söguhetja okkar segir hetjuleg orð eins og „shit“, „fuck“ eða „damn“ þá hrekkur vél á veggnum í gang og spúir út úr sér eins kredits sekt. Enda er slík löggjöf örugglega reist á því málefnalega sjónarmiði að það séu mannréttindi að þurfa ekki hlusta á bölv.

Karli Böðvarsyni hlýnar um hjartarætur þegar hann sér að bifreiðar framtíðarinnar keyra sjálfar og því óþarft að lesa af öllum „svörtu kössunum“ sem hann fær setta í bifreiðar í náinni framtíð. Sævar Karl þarf aftur á móti að óttast framtíðina, því eins og í öllum góðum framtíðarmyndum eru allir eins klæddir. Í þessari framtíð kjósa menn að klæðast líkt og Hamid Karzai, í einskonar playboy-náttslopp með hatt og sólgleraugu.

Eiríkur Tómasson og Magnús Kjartansson hjá STEF gleðjast þegar þeir sjá að í framtíðinni er tónlist eins og við þekkjum hana ekki lengur til. Einungis auglýsingar eru spilaðar í útvarpinu. Enda ekkert vit að gefa út „ósponserað“ lag sem allir hlaða niður og spila frítt.

Helgarnesti ykkar fyrir helgina er því að nýta tímann á meðan við höfum hann. Drekkið ykkur full, hlaðið niður tónlist, skiptist á vessum og bölvið á meðan. Því tími Skandífasistana er að koma.

*Efist einhver um spádómsgildi myndarinnar þá skal sá hin sami muna þetta. Stjórnarskrá Bandaríkjanna verður breytt því fram kemur í myndinni að Arnold „no pain, no gain“ Schwarzenegger hafi verið forseti.

Latest posts by Ásgeir H. Reykfjörð (see all)