FC Framsókn

Engum dylst að á Alþingi eru lið. Hefur það raunar afhjúpast oft og tíðum í ummælum einstakra þingmanna, sem virðast raunar halda svo fast við liðskipanina, að nærtækt er að álykta að þeir telji sig þátttakendur í knattspyrnuleik.

Engum dylst að á Alþingi eru lið. Hefur það raunar afhjúpast oft og tíðum í ummælum einstakra þingmanna, sem virðast raunar halda svo fast við liðskipanina, að nærtækt er að álykta að þeir telji sig þátttakendur í knattspyrnuleik.

Liðin sem eru á Alþingi heita stjórn og stjórnarandstaða, og hvorir um sig eru gráir fyrir járnum. Bæði stjórn og stjórnarandstaða skiptast svo upp í minni lið, þingflokkana sjálfa.

Vogi þingmaður sér að vera á öndverðum meiði við liðið sitt skorar hann oftlega pólitískt sjálfsmark. Á hann jafnvel á hættu að verða skipt út af og eiga ekki möguleika á því að koma inn á í næsta leik, hvað þá að vera í byrjunarliðinu. Dæmi: Kiddi sleggja.

Svo eru hinir sem spila með liðinu, eru t.d. fastir klettar í vörninni. Þeir uppskera. Þeir fá að vera áfram inn á og er umbunað. Á þá getur þjálfarinn stólað. Ekki skemmir fyrir þegar þeir tölta svo fram í hornspyrnum og skora jafnvel með skalla. Þau Birkir og Dagný eru efnilegir hafsenterar. Kannski verða þau einhvern tímann góð.

Þannig byggist upp liðsandinn. Annaðhvort ertu með í liðinu eða á bekknum. Þjálfarinn hefur líka liðsstjóra sér til aðstoðar. Þeir hvísla í eyru þjálfarans hverjum hann eigi að skipta inn á og hvenær. Hverja á að setja fram á völlinn. Þetta eru engir strákhvolpar.

Svo kemur það fyrir að framherjum, stjörnunum, er skipt út af. Þá fyrst byrja lætin. Stjörnurnar fara ekki þegjandi af velli. Þær kasta fyrirliðabandinu á einhvern annan leikmann og strunsa beint inn í klefa og skella hurðum. Þær fara í blöðin og láta öllum illum látum. Þær skilja ekkert í því af hverju þeim var skipt út af enda alls ekkert Sivjaðar.

Áhorfendur annaðhvort fagna og kætast eða lýsa yfir óánægju sinni með bauli og hamagangi. Þeir hafa þó ekkert um málin að segja. Það er þjálfarinn sem tekur ákvarðanir.

Svo er hægt að kaupa menn yfir. Hafi menn setið lengi á bekknum er líklegt að þeir hugsi sér til hreyfings, komi gott boð frá öðrum liðum.

Vonandi er að Kiddi sleggja finni sér sitt lið. Hann getur alla vega bókað það að hann fær ekkert að koma inn á hjá FC Framsókn í vetur.

Latest posts by Arnar Þór Stefánsson (see all)