Vaxtarverkir litla bróður

Til að safna upplýsingum um DC++ „tölvuþrjótahringinn“ fylgdist lögreglan með internetnotkun þeirra í nokkra mánuði, og segist hafa upplýsingar um internetnotkun um hundrað íslendinga.

“Hvar [rannsóknin] endar er auðvitað ennþá óljóst. Þessi samskipti eru rekjanleg og verða rakin og sönnunargagna aflað með þeim hætti. Þetta er alls ekki óframkvæmanleg réttarvarsla sem við stöndum í.”

“Aðgerðirnar í gær eru aðeins upphafið að sögn Jóns [hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra]. Undirbúningur rannsóknarinnar hefur staðið í nokkra mánuði.”

Í fréttum af “tölvuþrjótamálinu” svokallaða hefur komið fram að lögreglan komst yfir lykilorð eins notandans og fylgdist með samskiptum um 100 manns í nokkr mánuði áður en látið var til skarar skríða. Eflaust hafa handhafar lögregluvaldsins fengið öll möguleg leyfi hjá dómara áður en farið var í þetta eftirlit, en það hreinlega skiptir ekki máli. Yfirvöld hafa nú getu – og vilja – til að fylgjast með internetnotkun almennings í landinu. Það er mikið vald, og líkt og allt vald mun það spilla þeim sem með það fara.

Nú kynni einhver að segja að þeir sem saklausir séu þurfi ekkert að óttast lögregluna, eða umfangsmikið eftirlit hennar – það séu bara tölvuþrjótar og barnaníðingar sem hafi eitthvað að fela. Því sé ekkert athugavert við það að lögreglan sanki að sér alls kyns upplýsingum um almenning, og aðeins vænisjúkir samsæriskenningasmiðir sem sjái eitthvað að því.

Við þessu er það að segja að í samfélagi þar sem ætlast er til þess að lögreglan hafi aðgang að öllum gögnum og upplýsingum um almenning, hefur sönnunarbyrðin í opinberum málum í raun snúist við. Lögreglan þarf þá ekki að hafa rökstuddan grun um að glæpur hafi verið framinn áður en farið er af stað með rannsókn, heldur getur af minnsta tilefni skoðað allar upplýsingar sem hún hefur áhuga á að skoða. Mótþrói viðkomandi einstaklings er þá skoðaður sem sönnun fyrir því að hann hafi eitthvað óhreint í pokahorninu. Eigi réttarríkið að þrífast á lögreglan ekki að geta aflað upplýsinga um almenning án þess að hafa rökstuddan grun um að glæpur hafi verið framinn.

Þess fyrir utan þá kemur lögreglunni, eða öðrum handhöfum ríkisvaldsins, hreint ekkert við hvað ég, eða einhver annar, hef að geyma í tölvunni minni, skjalaskáp, eða í bókahillunni á salerninu. Hver sá sem heldur því fram að ekkert sé að því að lögreglan skoði allan tölvupóst og annað sem um Netið fer, ætti að velta því fyrir sér hvort hann sé tilbúinn að sleppa notkun umslaga í venjulegum póstsendingum.

Sem betur fer er almenningur ekki fullkomlega varnarlaus gagnvart þessu ofríki yfirvalda. Hægt er að dulkóða allar upplýsingar á tölvum á einfaldan hátt og eins er hægt að fá búnað sem gerir fólki kleyft að dulkóða allar upplýsingar sem streyma frá tölvunni um Netið.

Síðan Anonymizer.com veitir þeim sem hana nota tækifæri til að skoða hvaða vefsíðu sem er án þess að hægt sé að rekja slóðina í tölvu hans. Hún er vinsæl meðal íranskra andófsmanna, og ætti að koma íslenskum netnotendum vel.

PGP, eða Pretty Good Privacy, er dulkóðunarforrit sem nálgast má á síðunni www.pgp.com. PGP er almennt talið fullkomnasta dulkóðunarforrit sem völ er á, og einstaklingum býðst að nota það endurgjaldslaust. Hægt er að dulkóða hvaða skrá sem er, og er lykillinn svo flókinn að nær ómögulegt er að ráða hann – að minnsta kosti mun íslenskum lögreglumönnum reynast það snúið. Þá má einnig nota PGP til að eyða upplýsingum af hörðum diskum þannig að ómögulegt verður að nálgast þær aftur, en það er oft hægt þegar gögnum er eytt með hefðbundnum hætti.

Íslenskt samfélag er ennþá um margt frábrugðið hinu martraðarkennda alræðissamfélagi sem lýst er í bók Orwells 1984 – þar sem Stóri Bróðir fylgist með öllu og öllum. En fullljóst er að hinn íslenski litli bróðir er óðum að nálgast gelgjuskeiðið.

Það er enginn glæpur að vilja hafa frið í sínu einkalífi. En það er í góðu lagi að baktryggja sig, svona ef vera kann að lögreglan sé á öðru máli.

bjarni_olafsson@hotmail.com'
Latest posts by Bjarni Ólafsson (see all)