Hin veika von

Kosningar færast sífellt nær og Bandaríska þjóðin bíður í ofvæni eftir nýjum eða gömlum forseta.

Rétt er að byrja á byrjuninni. Höfundur lagði fyrir skömmu land undir fót, fluttist vestur um haf og leggur nú í eitt ár stund á hagfræðinám í sveitasælu við University of Iowa. Það var vissulega tilhlökkunarefni að koma til Bandaríkjanna og fá að fylgjast í návígi með komandi forsetakosningum, horfa á svæsnar sjónvarpsauglýsingar, rökræða við landann og jafnvel taka með einum eða öðrum hætti þátt í baráttunni.

Því er skemmst frá að segja að höfundur varð síður en svo fyrir vonbrigðum. Skömmu eftir lendingu í Minneapolis var sest niður hjá vinafólki og kveikt á sjónvarpinu. Það fyrsta sem blasti við voru myndir af núverandi forseta, George W og um leið hljómaði rödd sem taldi upp helstu gallar mótframbjóðandans, John Kerry.

Bush-framboðið hefur hingað til að mestu byggt kosningabaráttu sína á því að telja Bandaríkjamönnum trú um hversu alslæmur Kerry sé, hann viti hvorki hvað snýr upp né niður á stríðinu í Írak og að honum verði lífsins ómögulegt að sigrast á hryðjuverkaógninni.

Höfundur fær ekki séð að George W sé nokkru betri hvað þetta varðar. Allt hefur gengið á afturfótunum í Írak þar sem hver vitleysan rekur aðra. Nú þegar hefur um 200 milljörðum dala verið eytt þar og hækkar sú upphæð með hverjum deginum sem líður. Á sama tíma eru skattar þeirra allra ríkustu hér í Bandaríkjunum lækkaðir og fjárútlát til mennta- og heilbrigðismála hafa verið minnkuð svo um munar. Sömuleiðis hefur George W lítið sem ekkert orðið ágengt í baráttunni við hryðjuverkamenn og margir vilja meina að ógnin nú sé enn meiri en fyrir þremur árum, jafnvel að endurtekning 11. september sé yfirvofandi.

Á hinum vængnum hefur John Kerry lofað bót og betrun. Hann ætlar að veita meira fé til heilbrigðis- og menntamála, sem ekki er vanþörf á. Sömuleiðis hefur hann í hyggju að ljúka stríðinu í Írak eins hratt og unnt er og ef þetta er ekki nóg þá ætlar hann líka að vinna bug á hryðjuverkum. Margir Bandaríkjamenn hafa tekið orð Kerry til sín og ætla þess vegna að veita honum atkvæði sitt í kosningunum í byrjun nóvember. Hins vegar virðist því miður útlit fyrir að Kerry þurfi á endanum að bíta í hið óvinsæla súra epli og tapa.

Þetta má meðal annars sjá af því að fjármálaspekúlantar veðja nú á sigur George W í kosningunum. Ef Kerry vinnur má búast við ólgu í efnahagslífinu þar til hann leggur línurnar, en væntingar manna á Wall Street um áframhaldandi stöðugleika og betri horfur virðast segja fyrir um að þeir telji Bush eiga sigurinn vísan.

Sem annað dæmi má nefna að hér við háskólann er rekinn nokkurs konar verðbréfamarkaður, þar sem framvirkir samningar varðandi forsetakosningarnar ganga kaupum og sölum. Hér má nú kaupa slíkan samning sem gerir ráð fyrir að George W vinni, á $0.47, á meðan samningur sem gerir ráð fyrir sigri Kerry selst á $0.09. Þetta bendir eindregið til þess að menn telji George W mun sigurstranlegri.

Þrátt fyrir þetta er alveg ljóst að Kerry hefur ekki lagt árar í bát, enda nægur tími til stefnu. Bandaríska þjóðin býr sig nú undir kappræður miklar milli frambjóðandanna sem hefjast í kvöld og var fjallað um í pistli hér á vefnum fyrir skömmu. Þar verður Kerry að fara með sigur af hólmi til þess að eygja von þegar upp er staðið.

En þar til úrslitin ráðast þann 2. nóvember mun höfundur halda í vonina um að Bandaríkjamenn átti sig á þeirri vitleysu sem George W hefur boðið upp á í Hvíta húsinu undanfarin fjögur ár. Næsti mánuður verður John Kerry erfiður en vonandi tekst honum að lokum að vinna kosningarnar, án hjálpar frá pabba sínum eða bróður og bjarga því sem bjargað verður hér í landi.

Latest posts by Davíð Gunnarsson (see all)