Réttarstaða samkynhneigðra II

Samkynhneigðir og börn

Fáfræði getur af sér fordóma. Fordómar geta síðan af sér mannvonsku, hatur og tjón. Þrátt fyrir að pistill dagsins sé í lengri kantinum þá eru lesendur Deiglunnar eindregið hvattir til að lesa hann og hafa í huga næst þegar ættleiðingar eða tæknifrjóvganir samkynhneigðra ber á góma.

Samkynhneigðir og börn

Í pistli sem undirritaður birti í síðustu viku var fjallað um nýja skýrslu um réttarstöðu samkynhneigðra. Þar kom m.a. fram að það væru mikil vonbrigði að nefndin hefði klofnað í afstöðu til ættleiðinga samkynhneigðra á erlendum börnum og til tæknifrjóvgana samkynhneigðra.

Það verður ekki litið fram hjá því að umrædd nefnd var að fjalla um afar viðkvæmt mál sem málefni barna og samkynhneigðra eru. Í gegnum tíðina hefur þessi umræða farið fram í skugga mikilla fordóma og vanþekkingar á samkynhneigðum sem uppalendum. Það var því ánægjulegt að sjá að íslenska nefndin rannsakaði þann punkt ítarlega og koma niðurstöður þeirrar rannsókna ekki á óvart. Þess ber að geta að pistillinn er að miklu leyti unnin orðrétt upp úr skýrslu nefndarinnar.

Samkynhneigðir sem foreldrar

Þar sem þessi málaflokkur hefur verið lítið skoðaður hér á landi varð nefndin að styðjast við erlendar rannsóknir varðandi samkynhneigða og börn. Studdist nefndin aðallega við bókina „Samkynhneigðir og fjölskyldulíf“ í ritstjórn Rannveigar Traustadóttur og Þorvaldar Kristinssonar en þar er farið í gegnum helstu rannsóknir á þessu sviði. Í sérstakri úttekt Rannveigar er lýst helstu fordómum sem birst hafa í gegnum tíðina gegn samkynhneigðum foreldrum. Þar má nefna fullyrðingar um að samkynhneigðir séu óhæfir foreldrar, að lesbíur séu ekki eins móðurlegar og aðrar konur, að samkynhneigðir séu geðveikir, að samband lesbía og homma við samkynja maka komi í veg fyrir að þau gefi sér tíma til að sinna barnauppeldi, og að lífsstíll samkynhneigðra sé ósamrýmanlegur barnauppeldi og fjölskyldulífi.

Í bókinni er fjallað ítarlega um hvern þessara þátta. Niðurstöðum erlendra rannsókna um hvern þeirra er lýst og þeir bornir saman. Þar kemur meðal annars fram að lesbíur búa við jafn góða geðheilsu og gagnkynhneigðar konur eða betri og ekki hefur tekist að sýna fram á nein sjúkleg einkenni sem tengist kynhneigð lesbía. Þá kemur í ljós við rannsóknir að enginn munur er á samböndum lesbía og gagnkynhneigðra para hvað gæði varðar og jafnframt að lesbíur sem eiga börn úr fyrri gagnkynhneigðum samböndum sýna þeim sömu ástúð og gagnkynhneigðar fráskildar mæður og báðir hópar sýna sama áhuga á uppeldi barnanna. Þá staðfesta engar rannsóknir að lesbíur takmarki aðgang barna sinna að karlmönnum sem fyrirmyndum eins og stundum er haldið fram en þær leiða hins vegar í ljós að lesbískar mæður telja karlfyrirmyndir mikilvægar fyrir börn sín.

Rannsóknir hafa sýnt fram á að streita í fjölskyldum lesbía geti verið meiri en í fjölskyldum gagnkynhneigðra og stafi hún fyrst og fremst af fordómum og mismunun í umhverfinu. Algengt er að fjölskyldur þeirra séu ekki viðurkenndar eða álitnar tímabundnar, sjúklegar eða tilviljanakenndar. Þessir fordómar geta komið frá fjölskyldum eða samfélaginu og hindra fólk oft í að viðurkenna lesbíur og börn þeirra sem fjölskyldur eða litið er á þau sem afbrigðilegar. Loks kemur fram í sumum rannsóknum að margar lesbíur helgi sig börnum sínum og láti þau ganga fyrir öllu öðru. Í stuttu máli sýna niðurstöður rannsókna að lesbíur séu ekki öðruvísi en aðrar mæður hvað varðar uppeldishætti og færni sem uppalendur, tengsl við börnin og í almennri framgöngu sem mæður.

Erlendar rannsóknir á hommum sem feðrum eru mun færri en þær sem hafa beinst að lesbíum sem mæðrum. Mun færri hommar fara með forsjá barna sinna en lesbíur. Niðurstöður rannsókna styðja á engan hátt að samkynhneigð dragi úr hæfni karla sem feðra. Þær sýna hins vegar að hommum og gagnkynhneigðum körlum svipi mjög saman sem feðrum hvað varðar uppeldisaðstæður, tilfinningatengsl, samskipti við börn sín og aðra helstu þætti föðurhlutverksins.

Áhrif á börnin

Jafnframt hafa verið miklir fordómar gagnvart þeim áhrifum sem samkynhneigðir foreldrar hafi á börn sín. Er um að ræða fullyrðingar þess eðlis að börn samkynhneigðra skaðist af því að alast upp hjá samkynhneigðum, að kynímynd þeirra brenglist, að þau verði samkynhneigð, að persónuleikaþroski þeirra truflist, að þau verði fyrir aðkasti vegna kynhneigðar foreldranna, eigi erfiðara með að mynda félagstengsl við jafningja og að þau verði misnotuð kynferðislega.

Í úttekt Rannveigar Traustadóttur kemur fram að margar rannsóknir hafa beinst sérstaklega að börnum samkynhneigðra og þá einkum að því hvort þau skaðist á einhvern hátt við að alast upp hjá þeim, þrói t.d. með sér brenglaða kynímynd og að félagslegur og persónulegur þroski þeirra bíði skaða. Rannsóknir sýna hins vegar fram á að ekkert samband virðist vera á milli kynhneigðar foreldra og þróunar kynbundinnar sjálfsmyndar hjá börnum. Sama er að segja þegar borin hefur verið saman kynhlutverkahegðun barna lesbískra mæðra og gagnkynhneigðra mæðra en rannsóknir sýna að börn lesbía þrói sams konar kynhlutverkahegðun og börn gagnkynhneigðra. Margir hafa haft áhyggjur af því að börn lesbía og homma „smitist“ af samkynhneigð foreldra sinna og því hafa margar rannsóknir beinst að þessu atriði. Allar þessar rannsóknir sýna hins vegar fram á að yfirgnæfandi meirihluti barna lesbía og homma lýsir sjálfum sér sem gagnkynhneigðum og yfirlit yfir þessar rannsóknir leiða í ljós að hlutfall samkynhneigðra er ekki hærra meðal afkomenda lesbía og homma en meðal afkomenda gagnkynhneigðra.

Rannsóknir á öðrum persónuleikaþáttum barna lesbía og homma hafa beinst að fjölmörgum atriðum svo sem sjálfsmynd, geðheilsu, hegðunarerfiðleikum, siðgæðismati og greind. Ekki er óalgengt að fólk telji að börn, sem alast upp hjá lesbíum og hommum, séu líklegri til að eiga við ýmis geðræn vandamál að stríða en rannsóknir sýna hins vegar að svo er ekki. Raunar leiða þær frekar í ljós þann styrk barna samkynhneigðra að þau hafi frekar tilhneigingu til að vera umburðarlynd gagnvart ólíkum samfélagshópum.

Loks hefur verið kannað hvort samkynhneigð foreldra hafi hugsanleg áhrif á félagstengsl barna og hvort börn samkynhneigðra eigi erfiðara uppdráttar í félagahópnum vegna samkynhneigðar foreldranna. Rannsóknir sýna að þessi börn hafa góð félagstengsl við jafningja en þó kemur fram í rannsóknum, sem byggjast á viðtölum, að sum þeirra hafa áhyggjur af neikvæðum viðhorfum til kynhneigðar foreldra. Slík viðhorf koma einnig fram í íslenskri rannsókn sem byggðist á viðtölum við fimm uppkomin börn lesbía og homma um reynslu sína þar sem þau lýsa m.a. fordómum í samfélaginu gagnvart samkynhneigðum sem birtast í viðhorfum annars fólks. Þar kom fram að þótt fæst þeirra hefðu orðið fyrir fordómum með beinum hætti höfðu þau öll skynjað hræðsluna við að verða fyrir þeim. Tengsl þeirra við foreldra sína og aðra sem standa í svipuðum sporum hefðu hins vegar hjálpað þeim að skilja lífið.

Þar af leiðandi hefði reynsla þeirra haft marga kosti í för með sér og dýpkað sýn þeirra á tilveruna.

Niðurstaða

Af þessu sést greinilega að samkynhneigðir eru ekkert síðri uppalendur en við hin. En þegar upp er staðið ætti það kannski ekki að koma neinum á óvart að sem skiptir mestu máli við uppeldi barna er að þau alist upp í kærleiksríku og ástúðlegu umhverfi. Skiptir kynhneigð foreldra þar engu máli hvort sem mönnum líkar betur eða verr.

Þessar niðurstöður vekja hins vegar upp áleitnar spurningar. Ljóst er að öll „rök” gegn ættleiðingum og tæknifrjóvgunum fyrir samkynhneigð pör eru ekki byggð á vísindalegri þekkingu heldur vanþekkingu eða fordómum. Miklu skiptir að slíkar bábiljur séu ekki festar í almenn landslög enda grefur slíkt ekki aðeins undan mannréttindum heldur einnig undan þeirri mikilvægu trú að nútímalegt réttarríki reisi reglur sínar á grunni skynsemi fremur en hindurvitnum.

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.