Óvönduð vinnubrögð

sdfdHelgarnesti dagsins fjallar að mestu leyti um helgarnesti dagsins.

Það skiptir ekki meginmáli hvað menn segja, aðalatriðið er hvernig það er sagt…

Hafi einhver getið sér til um að hugsanlega hafi þessi föstudagspistill verið skrifaður í dálitlum flýti ætti sá hinn sami kollgátuna. Þannig vill nefnilega til, að menn með teflon-minni eins og undirritaður eiga það til að steingleyma hvenær ætlast er til af þeim að skila inn pistli á Deigluna, mæta í bolta, brúðkaup, skólann eða aðra hluti sem fylgja skipulegri dagskrá. Reyndar nær minnisleysið nýjum hæðum á stundum, þótt þær verði vart tíundaðar hér, enda væri með öllu óviðeigandi að fjalla þær í þessum pistli. Niðurstaðan er oftar en ekki sú að menn neyðast til að taka hádegishlé sitt í skálda upp pistil, sem á tíðum getur verið þrautinni þyngri—sérstaklega þegar menn gleymdu að stilla vekjaraklukkuna kvöldið áður og sváfu því yfir sig til hádegis!

Þegar slík vá steðjar að er að mörgu að huga. Oftar en ekki er lausnin þó fólgin í því að þykjast tala um eitthvað án þess að segja nokkurn skapaðan hlut.

Það verður einmitt gert í þessum pistli.

Listin að tala mikið án þess að segja nokkuð er vanmetinn eiginleiki sem allt of fáir hafa tileinkað sér. Að grunni til hverfist hún í kringum það að fjalla ítarlega um það sem menn ætla að fjalla um án þess að segja nokkru sinni það sem ætlunin var. Slíkt getur verið flókið en að öllu jöfnu má gefa sér það að menn komist upp með viðlíka hegðun, enda leiðist flestum það mikið að þeir taka því fagnandi að finna eitthvað á netinu til að dreifa huganum.

Birtingarformin eru jafmismunandi og þau eru mörg, en þó mætti ætla að flestir hafi þróað þennan eiginleika með sér—í mismiklum mæli þó. Endalausar fyrirspurnir frá þýskukennurum um óreglulegar sagnir kveikja í ímyndunarafli nemenda, óundirbúnir fyrirlestrar verða þess valdandi að menn eru nauðbeygðir til að losa um málbeinið og óþolandi spurningar frá kærustunni eins og „hvað ertu að hugsa?“, eru til þess fallnar að þjálfa menn í að tala mikið án þess að segja orð.

Það er nefnilega því miður ríkari krafa uppi um það í samfélaginu að menn segi eitthvað en að menn segi eitthvað af viti!

Góða helgi.

Latest posts by Halldór Benjamín Þorbergsson (see all)