Jafnaðarkaup

Að undanförnu hefur jafnaðarkaup verið í umræðunni hvað varðar ungt fólk í atvinnulífinu. Jafnaðarkaup byggist á því að greidd laun á klukkustund taka ekki mið að því hvaða tíma dags er unnið eða hvaða dag vikunnar.

Að undanförnu hefur jafnaðarkaup verið í umræðunni hvað varðar ungt fólk í atvinnulífinu. Jafnaðarkaup byggist á því að greidd laun á klukkustund taka ekki mið að því hvaða tíma dags er unnið eða hvaða dag vikunnar.

Á meðal ungs fólk hafa brögð verið að því að jafnaðarkaup er lægra en umsamið lágmarkskaup. Jafnvel eru tilvik þar sem starfsfólki er greitt með hlutfallslegum launaútreikningi dag- og næturvinnulauna þó svo starfsmaður sinni aðeins kvöld og helgarstarfi.

Í raun er ekkert í lögum eða kjarasamningum sem leyfir eða bannar jafnaðarkaup. Gallinn er hins vegar sá að forsendur á bak við jafnaðarkaup eru oft rangar. Skilgreining hugtaksins er mjög á reiki og ýmis skilningur lagður í það.

Hjá stéttarfélögum kemur það fram að ef vinnuveitandi greiðir með jafnaðarkaupi skulu forsendur á bak við launin vera í samræmi við hlutfall dagvinnu og yfirvinnu. Jafnaðarkaup á að endurspegla meðal tímakaup hvers einstaklings miðað við skiptingu vinnustunda hans í dagvinnu og yfirvinnu.

Nýlega var framkvæmd könnun á meðal starfsfólks verslunarmiðstöðvarinnar Kringlunnar. Rannsóknin miðaði að því að kanna tíðni jafnaðarkaupsgreiðslna á meðal ungs fólks og jafnframt athuga hvort það væru tilvik þar sem jafnaðarkaupsgreiðslur væru undir lögbundnum lágmarkslaunum kjarasamninga. Var í raun verið að kanna hvort atvinnurekendur væru að misnota sér svokallaða gráa heimild til slíkra greiðslna.

Rannsóknin sýndi fram á að svo væri. Jafnaðarkaup var greitt í 33% tilvika og var umsamið jafnaðarkaup á bilinu 750 – 1450 krónur á klukkustund. Margir voru aðeins starfandi í aukavinnu og var þeim greitt með jafnaðarkaupi líkt og fastráðnu.

Það kemur spánskt fyrir sjónir að hægt sé að greiða aukavinnustarfsmanni með jafnaðarkaupi þar sem vinnuhlutfall hans liggur ekki fyrir í byrjun mánaðar.

Þegar þátttakendur voru spurðir nánar út í launin kom fram að aðeins 15% aðspurðra höfðu fengið að vita forsendur á bakvið launin. Það liggur í augum uppi að ef starfsmaður ræður sig til vinnu án þess að vita launaforsendur er um brot á vinnulöggjöfinni að ræða. Þar segir fyrir um skyldu atvinnurekanda til að ganga frá skriflegum ráðningarsamningum eða skriflegri staðfestingu ráðningar við starfsmenn. Samkvæmt þessu samkomulagi er atvinnurekanda skylt að láta starfsmanni í té skriflega staðfestingu á ráðningu og ráðningarkjörum.

Ungt fólk á vinnumarkaði þekkir rétt sinn mjög illa.Viðmælendur komu fram með það sjónarmið að vinnuveitendur gætu nýtt sér eftirspurn eftir starfi í ákveðnum verslunum til þess að halda launagreiðslum lágum. Ef starfsmaður leitaði réttar síns var oft bent á að auðvelt væri að finna starfsmann til að starfa á þessum kjörum.

Skýrt þarf að koma fram á vinnustöðum að telji starfsmaður að brot eigi sér stað geti trúnaðarmaður orðið að liði. Vegna hlutverks trúnaðarmanns, sem er meðal annars að fylgjast með því að kjarasamningar séu ekki brotnir, eiga þeir rétt á að vita um laun og ráðningarkjör allra starfsmanna. Telji starfsmaður sem er á jafnaðarkaupi að laun hans standist ekki lágmarkskjör skal hann því tala við sinn trúnaðarmann. Mjög mikilvægt er að skráning vinnustunda sé skýr og það hver fjöldi dagvinnutíma sé á móti yfirvinnutímum.

Latest posts by Helga Kristín Auðunsdóttir (see all)

Helga Kristín Auðunsdóttir skrifar

Helga Kristín hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2004.