Strákarnir okkar í krísu?

Eins og alþjóð veit gekk íslenska landsliðinu í handknattleik ekki sem skyldi á Ólympíuleikunum í Aþenu sem lauk í gærkveldi. Liðið endaði í níunda sæti og verður að telja það algjörlega óásættanlegan árangur.

Eins og alþjóð veit gekk íslenska landsliðinu í handknattleik ekki sem skyldi á Ólympíuleikunum í Aþenu. Liðið endaði í níunda sæti og verður að telja það algjörlega óásættanlegan árangur.

Í kjölfar þessarar niðurstöðu hljóta menn að setjast niður og skoða málin. Það þarf að skoða hvort réttir menn hafi verið valdir, rétt leikkerfi og hvort undirbúningurinn hafi verið réttur. Ljóst er að alltaf verður deilt á val þjálfarans á hópnum en eftir þessa frammistöðu hlýtur að vera kominn tími til að gefa nýjum mönnum tækifæri á að spreyta sig í stað þeirra sem virðast eiga fast sæti í liðinu. Fyrirliði liðsins, Dagur Sigurðsson, er einn þeirra sem má taka sér hvíld. Hann hefur nú ekkert sýnt nokkur stórmót í röð sem bendir til þess að hann eigi skilið að vera í liðinu. Á meðan sat heima einn allra efnilegasti handknattleiksmaður landsins, Arnór Atlason, sem hefði, með fullri virðingu fyrir öðrum, ekki getað staðið sig verr í þessari vandræðastöðu hægri handar skyttu en Dagur og Garcia gerðu.

Hvað nákvæmlega fór úrskeiðis á Ólympíuleikunum er ekki ljóst. Lykilmenn voru t.a.m. ekki eins sterkir og oft áður og Ólafur Stefánsson, sem af mörgum er álitinn einn allra besti handknattleiksmaður heims, stóð ekki undir væntingum og gerði of mikið af mistökum í sóknarleiknum. Það var eins og ákveðna leikgleði hafi skort hjá honum sem og öðrum og oft hafði maður á tilfinningunni að Ólafur væri pirraður yfir því að hann þyrfti að gera allt sjálfur. Í kjölfar slaks gengis lýsti hann yfir áhuga á að taka sér frí frá landsliðinu um óákveðinn tíma, líklega skiljanleg ákvörðun og kannski ekki alvitlaus. Þetta gæfi yngri leikmönnum færi á að sýna hvað í þeim býr og veitti þeim dýrmæta reynslu fyrir framtíðina. Ásgeir Örn Hallgrímsson fengi þá heilt stórmót til að sanna sig en hann er mikið efni og að mati Viggós Sigurðssonar, fyrrverandi þjálfara Hauka, betri leikmaður en Ólafur Stefánsson var á hans aldri. Þetta myndi þá kannski opna þann möguleika að Ólafur spili á miðjunni í sókninni í framtíðinni með Ásgeir og Atla í skyttuhlutverkunum. Þessa leikaðferð væri reynandi að mínu mati og m.a.s. var það Ólafur sjálfur sem gaukaði þeim möguleika að blaðamönnum að hans framtíðarstaða væri kannski á miðjunni.

Menn geta líka spurt sig hvort kröfur íslensku þjóðarinnar séu ekki gjörsamlega óraunhæfar miðað við fámennið hér á landi. Því verður ekki neitað að kröfurnar eru miklar en við eigum marga mjög frambærilega leikmenn og nánast allir i liðinu leika með liðum í sterkustu deildum heims. Auk þess má benda á að handbolti er langt í frá vinsæl íþróttagrein á heimsvísu. Þessi íþrótt er leikin af afar fáum og nýtur lítillar hylli nema þá kannski helst á Norðurlöndunum, Þýskalandi og á Spáni. Gott dæmi um vinsældir handboltans á heimsvísu er að í þætti fyrir nokkrum árum sem hét “Amazing sports” eða eitthvað í þá veru voru sýndar myndir frá hinni stórundarlegu íþrótt handbolta! Líklega eru hvergi fleiri, miðað við þessa frægu höfðatölu, sem spila handknattleik en á Íslandi. Auk þess eru aðstæður til iðkunar íþróttarinnar jafngóðar hér á landi og í öðrum löndum. Það er því miklu raunhæfara að gera miklar kröfur til landsliðsins í handknattleik en í öðrum hópíþróttum.

Hvort sem Óli Stef ákveður að taka sér frí frá liðinu eða ekki hlýtur stjórn handknattleikssambandsins að velta framtíð landsliðsins alvarlega fyrir sér. Stóra spurningin í því sambandi er sú hvort Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari sé kominn á leiðarenda með liðið. Samningurinn hans gildir fram yfir heimsmeistaramótið í Egyptalandi í janúar og standi liðið sig ekki á því móti er ljóst að samningurinn verður ekki endurnýjaður eftir það, ef hann verður þá ekki þegar hættur með liðið.

Latest posts by Þórður Heiðar Þórarinsson (see all)