Hæð 3400

Úrvalsvísitalan heldur áfram að hækka og virðist fátt benda til þess að hlutabréf fari að lækka. Að undanförnu hefur vísitalan verið drifin áfram af gengishækkunum í bönkum og fjárfestingafélögum.

Úrvalsvísitalan heldur áfram að hækka og virðist fátt benda til þess að hlutabréf fari að lækka. Að undanförnu hefur vísitalan verið drifin áfram af gengishækkunum í bönkum og fjárfestingafélögum. Bæði Landsbanki og Íslandsbanki hafa hækkað talsvert í verði eftir birtingu ágætra hálfs árs uppgjöra og sama skýrir uppsveiflu Burðaráss hf. Í vikunni hefur KB-banki tekið flugið á ný og fór yfir gengið 470 í gær en það var 224,5 í upphafi árs! Meginskýringar mikilla hækkana á hlutabréfum í þessari viku eru annars vegar verðhækkanir breska bankans Singer&Friedlander, sem Jafet Ólafsson, framkvæmdastjóri Verðbréfastofunnar, telur vera komin í þriðjungseigu Íslendinga, og svo vangaveltur um sameiningu Íslandsbanka og Landsbanka en síðarnefndi bankinn og félög tengd honum eiga mikil ítök í Íslandsbanka.

Skrúfueinkenni eru einkennandi á íslenska markaðnum, félög eiga í hvert öðru og hækkanir á einu félagi valda hækkunum á því næsta sem svo hækkar enn verðið á því fyrra. Mikil eignatengsl eru á milli Landsbankans og Burðaráss sem og Straums, TM, Samherja og Kaldbaks. Uppgangur KB banka hefur hækkað mjög gengi VÍS þar sem KB banki er einmitt stærsti hluthafinn. Landsbankinn hefur kauprétt á 7,5% hlutabréfa í Íslandsbanka á gengi sem er töluvert undir síðasta markaðsgengi og því er það mjög hagstætt fyrir banka allra landsmanna að Íslandsbanki hækki. En þetta gæti orðið hættulegt ef hlutabréfaverð fer að lækka, þá er hætt við miklum keðjulækkunum. Fátt bendir þó til þessarar þróunar, enda virðist útrás bankanna og fjárfestingarfélaganna ganga vel, stjórnendur hafa enn haft næmt auga fyrir góðum kostum eins og stjórnendur KB banka.

Skrýtið eignarhald

VÍS er öflugt tryggingarfélög sem er skráð á tilboðsmarkað Kauphallarinnar. Þegar eignarhald þess er kannað kemur ýmislegt forvitnilegt í ljós. Stærsti hluthafinn í VÍS þessa stundina er KB banki með rúm 29%. VÍS á einn mann í stjórn KB banka en félagið á um 4,5% í bankanum. Næststærsti hluthafinn í VÍS er Hesteyri ehf. með um 26,5% hlut. Hesteyri hefur kauprétt á 5% hlut sem er í eigu Samvinnulífeyrissjóðsins. Gengi kaupréttarins er um 31 en síðasta viðskiptagengi var 44. Hesteyri verður því orðinn stærsti hluthafinn að einhverjum tíma liðnum. En hver er á bak við þetta huldufélag? VÍS sjálft á 33% í Hesteyri, annar þriðjungur er í eigu Fiskiðjunnar Skagfirðings og 33% í eigu Skinneyjar-Þinganess, sem er rótgróið framsóknarútgerðarfélag. VÍS á bókfærða eign í Fiskiðjunni að verðmæti 66.000.000 og nærri hálfan milljarð í Skinney (sem sagt mjög stór hluthafi þar). VÍS á því líklega 40-50% óbeinan hlut í Hesteyri sem verður brátt stærsti hluthafinn í VÍS.

Gengishagnaður Hesteyrar af VÍS er orðinn gífurlegur frá því í byrjun júlí, nærri 2 millljarðar og því er með réttu hægt að segja að VÍS sé að græða mjög á sjálfu sér.

Til viðbótar eru Samvinnutryggingar svf., Eignarhaldsfélagið Andvaka og Brunabótafélag Íslands mjög stórir hluthafar en það væri óðs manns æði að reyna að útskýra markmið, tilgang og stjórnun þeirra félaga í þessum pistli. Verður gert síðar vonandi.

Nýju íbúðalánin

Sú nýjung KB banka að bjóða upp á fasteignalán á lægri vöxtum en Íbúðalánasjóður er lofsverð og kjaftshögg á sjóðinn. Sú mýta sem stjórnendur Íbúðalánasjóðs öðrum fremur hafa byggt upp um ágæti hans er því fallinn og vonandi geta Íslendingar séð fram á einkavæðingu íbúðalánasjóðskerfisins. Önnur fjármálafyrirtæki hafa brugðist við útspili KB banka meðal annars stærstu sparisjóðirnir sem reyna að halda í sína kúnna. Ekkert hefur heyrst frá smærri sparisjóðum en það er allsendis óvíst hvort og hvernig þeir eigi að geta jafnað boð KB banka nema með því að stórtapa á útlánunum. Vaxtatekjur margra sparisjóða hafa verið að dragast saman eins og 6 mánaða uppgjör þeirra sýna glögglega.

Nú er runnin upp sá tími að þeir stóru láta reiða til höggs gagnvart þeim smærri. Nú dugar lítt fyrir þá alþingismenn, sem drápu sparisjóðina í dróma með sparisjóðafrumvarpinu svokallaða, að beita sértækum aðgerðum til varnar sparisjóðunum. Aðeins þeir stærstu lifa svona samkeppni af sem er í besta falli innan gæsalappa fyrir minni fjármálafyrirtæki.

Latest posts by Eggert Þór Aðalsteinsson (see all)