ESB og Almættið

Menn úti í löndum reyna nú að fá stofnanda ESB gerðan að dýrlingi. Hvað segir það um viðkomandi, trúa þeir því að ESB sé kraftaverk?

Í breska blaðinu The Daily Telegraph á fimmtudaginn síðasta [hlekkur] var sagt frá því að hópur manna, með aðsetur í frönsku borginni Metz, leggi nú hart að páfanum að gera Robert Schuman, sem kallaður hefur verið stofnandi Evrópusambandsins, að dýrlingi. Segir frá því í fréttinni að hópurinn, sem kallar sig St. Benoit stofnunina, njóti stuðnings forseta Frakklands, Jaques Chiracs í þessari viðleitni til að fá Schuman ausinn guðlegri blessun.

Þeim hefur að vísu ekki tekist að sýna fram á að kraftaverk hafi orðið í kjölfar þess að bænum hafi verið beint til Schumans, en hafa bent á að stofnun ESB sé kraftaverk í sjálfu sér.

Það er sumsé ekki nóg fyrir ríkisbubbana í Brussel að stjórna, með æ nánari hætti, einkalífi íbúa álfunnar, heldur vilja þeir nú fá staðfestingu á því að þeir séu að vinna Guðs verk! Undirritaður stóð í þeirri trú að kenningunni um guðlegt einveldi hefði verið varpað fyrir róða, eða eigum við eftir að heyra Barroso, forseta ESB lýsa því yfir að “L’Etat, c’est moi”, eða er Jacues sjálfur líklegri til að halda því fram að hann sé ríkið og ríkið hann?

Það má svosum hlæja að þessu og segja – eins og stuðningsmenn ESB gera – að þetta sé nú bara upp á ímyndina gert, að það sé ekkert að marka svona upphlaup. Fyrir utan það að maður þarf ekki að vera kristinn til að sjá allt það góða sem ESB hefur gert, gerir og mun gera fyrir íbúa álfunnar.

Það má vel vera, þótt ég sé þeim ekki sammála, en bera svona tilfæringar og tilraunir ekki vott um ákveðna lífssýn þeirra sem aðþeim standa? Trúir Chirac því að hann sé að vinna Guðs verk með því að hlaða æ meiri völdum á hendur miðstjórnar sem ekki er kosin lýðræðislegum kosningum?

Maður skyldi nú ætla að sósíaldemókratar Evrópu rækju upp ramakvein, reyndi George W. Bush, bandaríkjaforseti að gera Thomas Jefferson að dýrlingi – næg þykir evrópsku elítunni helgislepjan vestan Atlantsála, og ekki á hana bætandi. Athyglisvert samt að sömu kampavínssötrandi, Goulloise-reykjandi, flauelsklæddu gáfumennunum finnist ekkert athugavert við að forseti Frakklands sé einn þeirra sem rói að því öllum árum að gera einn af stofnendum ESB að dýrlingi.

bjarni_olafsson@hotmail.com'
Latest posts by Bjarni Ólafsson (see all)