Ógnvænleg ofþyngdarþróun þjóðar

Upp hafa komið hugmyndir um að leggja skuli syndaskatt á sykur og sæta matvöru til að standa undir kostnaði við rekstur Lýðheilsustofnunar og til að stemma stigu við „ógnvænlegri ofþyngdarþróun þjóðarinnar“.

Undanfarna daga hefur svokallaður „offituvandi“ verið mikið til umræðu í fjölmiðlum og hafa heilsufarskrossfarar, með Lýðheilsustöð í broddi fylkingar, farið mikinn í fullyrðingum um þessa miklu ógn sem þeir telja að að æsku landsins steðji.

Samhliða umræðunni um offitu hefur það komið fram að rekstur Lýðheilsustöðvar er ekki eins traustur og vera mætti og er leiða því leitað að nýjum tekjustofnun henni til handa. Sú leið sem skrifstofufólkinu þykir hvað heppilegust er almennur syndaskattur á sykur og sæta matvöru. Sá skattur myndi beina neyslu fólks inn á aðrar brautir, Lýðheilsustofnun þóknanlegar, og afraksturinn rynni beint í vasa stöðvarinnar. Lýðheilsustofnun á því að fá greitt fyrir hvert kíló af sykri sem selt er í landinu, um leið og hún hvetur fólk til að borða minni sykur. Al Capone var glæpamaður, en hann var að minnsta kosti ekki hræsnari. Hann las ekki yfir viðskiptavinunum um illsku áfengisins og hvatti þá til að hætta áfengisneyslu.

Í DV um daginn var svo sagt frá því að Ölgerð Egils Skallagrímssonar neitaði því að hún bæri ábyrgð á „offituvandanum“, og var hneykslanin svo mikil á ritstjórnarskrifstofu blaðsins að heyrðist allt upp á Akranes. En auðvitað ber Egill Skalli enga ábyrgð á holdafari mínu eða Illuga Jökulssonar. Ef við tökum þá ákvörðun að borða kíló af súkkulaði á dag og skola því niður með tveimur lítrum af Egils Appelsíni, þá er það okkur að kenna ef við bætum aðeins utan á okkur. Hver einn og einasti einstaklingur ber fulla ábyrgð á þeim ákvörðunum sem hann tekur og það er rangt að reyna að svipta fólk þeirri ábyrgð.

Þótt auðvitað megi finna þá á hægri væng stjórnmálanna sem aðhyllast alls kyns inngrip í einkalíf fólks – eru talsmenn neyslustýringar og syndaskatta almennt af vinstri kantinum. Fólk sem telur sig vita betur en almenningur hvað almenningi er fyrir bestu og vílar sér því ekki við að banna áfengisneyslu hér og tóbaksneyslu þar, hækka skatta á eldsneyti til að bjarga þessu og hækka tolla á grænmeti til að bjarga hinu. Það skýtur því skökku við að þetta sama fólk skuli vilja hækka verð á ýmsum nauðsynjavörum sem svo óheppilega vill til að innihalda sykur. Jón Ásgeir og Björgólfur Thor munu ekki hafa af því miklar áhyggjur þótt sykurkílóið hækki um fimmtán krónur, eða fimmtánhundruð. Það mun hins vegar skipta máli fyrir einstæða, þriggja barna móður, sem vinnur fyrir sér og sínum á kassa í Nýkaupum. Á því heimili telur hver króna, og aukagjald á sykur, gos og sælgæti mun hafa raunveruleg áhrif á heimilisbókhaldið á þeim bænum.

Fólk sem lifir af lágmarkslaunum hefur ekki efni á því að skreppa á ráðstefnu í Svíþjóð til að ræða Offituvandann og slappa af með nýkreistann appelsínusafa fyrir framan einhvern Herragarðinn í Smálöndunum. Þeirra afslöppun felst e.t.v. í því að horfa á Ríkissjónvarpið með eina kókdollu og súkkulaðistöng sé við hlið. Þennan litla munað getur Lýðheilsustofnun hins vegar ekki unnt því.

Í raun er Lýðheilsustofnun svona dæmigert brunaliðsbatterí, sem þarf sífellt að réttlæta tilvist sína með nýjum og nýjum „faröldrum“. Nú þegar reykingafólki fækkar stöðugt þarf stofnunin að finna ný verkefni til að detta ekki af spenanum. Skemmtilega samlíkingu má finna í bókunum eftir Terry Pratchett. Margar af bókum hans um Diskheiminn gerast í hinni ímynduðu borg Ankh-Morpork. Borgin hélt eitt sinn úti brunaliði sem fékk greitt fyrir hvern eldsvoða sem það vann bug á. Slökkviliðið var svo leyst upp eftir að framtakssemin varð skynseminni yfirsterkari og slökkviliðsmennirnir fóru um borgina síkveikjandi í húsum samborgara sinna. Þarna var opinbert batterí sem fékk greitt fyrir að gera hluti sem það átti, tæknilega séð, ekki að vilja að gerðust.

Ég er ekki með þessari samlíkingu að halda því fram að Lýðheilsustöð beri sjálf ábyrgð á því hvernig komið er fyrir holdafari Íslendinga. Þótt starfsmenn stöðvarinnar gangi ekki um grunnskóla landsins, með vasa fulla af súkkulaði, troðandi ungviðið fullt af marsípani og franskbrauði, þá ber Lýðheilsustöð hluta ábyrgðarinnar á því hvernig umræðan þróast nú.

Hvernig dettur nokkrum siðuðum manni það í hug að það sé slæmt að þjóðin sé svo efnuð og vel búin að áhyggjur velmeinandi fólks eru ekki lengur af því að stór hluti þjóðarinnar gangi soltinn til hvílu, heldur að stór hluti þjóðarinnar sé helst til vel í holdum! Föðurmóðir mín sálug upplifði raunverulegt hungur í æsku og aldrei hafði hún orð á því við mig að ég væri of feitur – þótt vel hefði mátt færa rök fyrir því – heldur var hún stolt og hamingjusöm með að hún lifði í þjóðfélagi þar sem barnabörnin hennar voru sultu ekki, heldur voru jafnvel helst til þéttholda.

bjarni_olafsson@hotmail.com'
Latest posts by Bjarni Ólafsson (see all)