Í minningu Guðna rektors

Þær fréttist bárust í gær að Guðni Guðmundsson, fyrrum rektor Menntaskólans í Reykjavík, væri látinn 79 ára að aldri. Svipmikill maður hefur kvatt.

Þær fréttist bárust í gær að Guðni Guðmundsson, fyrrum rektor Menntaskólans í Reykjavík, væri látinn 79 ára að aldri. Þetta eru sorgarfréttir fyrir þá sem fengu að kynnast Guðna og einnig fyrir Menntaskólann, enda varð MA-ingurinn Guðni persónugervingur skólans og stýrði honum á skeiði þegar köllin um „endurbætur” í menntamálum þjóðarinnar heyrðust hvað hæst. Guðna tókst að stýra Menntaskólanum í gegnum þennan tíma án þess að fórna sérstöðu hans fyrir tískubólur og ráðuneytisdynti.

Sagt er að þegar menntamálayfirvöld gerðu athugasemd við það að í Menntaskólanum væri enn kennd hin útdauða tunga latína hefði Guðni brugðist hinn versti við. Ekki aðeins lét hann stórefla latínukennslu heldur lagði til að kennsla í forn-grísku yrði einnig tekin upp og það var gert. Honum fannst það fremur ósennilegt að spekingar úr ráðuneytum gætu með formúlum gert verulegar úrbætur á þeirri starfsemi sem hafði í um níu hundruð ár þjónað sem grundvöllur æðri menntunar Íslendinga.

Þótt Guðni hafi látið af störfum árið áður en ég útskrifaðist úr Menntaskólanum átti ég þó nokkur samskipti við Guðna rektor og sjaldnast af sérlega góðum tilefnum – og ætli ég sé ekki einn allra síðasti maðurinn sem hlaut rektorsáminnningu hjá Guðna Guðmundssyni. Það var fyrir fremur illa ígrunduð skrif í skólablað og þrátt fyrir að hann hafi reiðst heljarinnar ósköp yfir skrifunum – bæði stíl og efnistökum – þá lét hann ekki þessi fyrstu kynni okkar skemma meira en þurfti og fór ætíð mjög vel á með okkur síðar. Næsta vetur sat ég í skólastjórn fyrir hönd nemenda og fékk því dýrmætt tækifæri til að kynnast Guðna Guðmundssyni örlítið betur.

Guðni var ekki allra og mörgum sveið eflaust undan orðbragðinu sem hann átti til en það má hann eiga að hann vissi hvað hann var að gera. Og það er mikill kostur þegar fólki er treyst fyrir miklu að það viti hvað það á að gera við það – og reyni hvorki að gera meira eða minna heldur en það. Guðni var ekki rektor Menntaskólans til að ganga erinda einhverra annarra en skólans og nemenda hans.

Guðni vældi ekki eftir meiri peningum frá ríkinu. Þvert á móti skilaði hann reglulega til baka hluta af fjárframlögum (mörgum til mikillar gremju). Ekki reyndi hann að skilgreina skólann upp á nýtt – eða búa til skipurit og gera stefnulýsingu og skilgreina boðleiðir. Og ég held það sé óhætt að fullyrða að Guðni Guðmundsson gerði ekki hina minnstu tilraun sem stjórnandi Menntaskólans í Reykjavík til þess að „innleiða nútímalega stjórnunarhætti.”

Guðni vissi alltaf hvað það var sem gerði Menntaskólann að góðum stað fyrir ungt fólk. Eins óskýrt og loðið og það kann að hljóma þá var það einfaldlega – og er vonandi enn – skólaandinn. Það er nefnilega ekki endilega þannig að góður aðbúnaður geti af sér góðan árangur – heldur eru það mannlegir þættir; gleði, hæfilegt sjálfsöryggi og heilbrigð samkeppni sem gera umhverfi mannvænlegt og árangursríkt. Þessa hluti er ekki hægt að kaupa með peningum – en stundum virðist sem lítið mál sé að eyðileggja þá með peningum.

Guðni lét sér fátt um smávægilega hluti finnast. Þegar ég sat með honum í skólastjórn kynntist ég þessu ítrekað. Honum fannst það vera bjánalegt að reka nemendur á stærðfræðibraut úr skóla fyrir að standa sig illa í þýsku – þótt hann hefði ekkert á móti því að menn gætu lært hvort tveggja. Hann fúlsaði við tillögu um að banna reykingar á skólalóðinni og sagði að reykingar væru félagsleg athöfn þrátt fyrir óhollustuna. Hann nennti ekki að búa til stórmál úr smámálum eða að beita áhrifum sínum í málum sem enga þýðingu höfðu fyrir skólann í heild. Og í því fólst stjórnviska hans – að einbeita sér að því sem skipti máli en láta ekki dægurflugur og tískubólur trufla sig frá því að tryggja áframhaldandi árangur í skólanum sem honum var treyst fyrir. Og það tókst bara býsna vel.

Á sinn hátt var Guðni alveg eins og maður vill hugsa sér að MR hafi verið. Hann var skemmtilegur – og mátulega kaldhæðinn. Hann var hjartahlýr en ákveðinn. Hann var stoltur af skólanum og vildi veg hans sem mestan – en aldrei á kostnað annarra. Og það var alltaf stutt í brosið og gáskann þótt hann virðist alltaf hafa gert sér far um að vera sem allra ábúðarmestur þegar hann gekk um ganga skólans, sérstaklega í návist þriðju bekkinga.

Þannig var það allaveganna sem ég kynntist honum.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.