Hálfs árs uppgjör hlutabréfamarkaðarins

Nú þegar fyrsti dagur júlímánaðar er genginn í garð er ekki úr vegi að kíkja stuttlega yfir gengi nokurra félaga á hlutabréfamarkaðinum á fyrri helmingi ársins. Í hvaða félögum hefði borgað sig að fjárfesta um síðustu áramót og í hverjum ekki? Eða hefði kannski verið skynsamlegast að ávaxta pund sitt með öðrum hætti?

Nú þegar fyrsti dagur júlímánaðar er genginn í garð er ekki úr vegi að kíkja stuttlega yfir gengi nokkurra félaga á hlutabréfamarkaðinum á fyrri helmingi ársins. Í hvaða félögum hefði borgað sig að fjárfesta um síðustu áramót og í hverjum ekki? Eða hefði kannski verið skynsamlegast að ávaxta pund sitt með öðrum hætti?

Þó langflest félaganna í Kauphöllinni hafi hækkað það sem af er árinu eru nokkur sem hafa lækkað. Athygliverðast í því sambandi er líklega Pharmaco, sem breytti nafni sínu í Actavis group fyrir nokkrum vikum síðan. Bréf þess hafa lækkað um tæp 2% það sem af er árinu en félagið leiddi miklar hækkanir á úrvalsvísitölunni í fyrra. Það er því ljóst að menn hafa talið að fyrirtækið hafi tekið út það sem það átti inni á árinu 2003 og þar að auki hafa fréttir af frestingu skráningar þess á markað í Lundúnum ekki aukið tiltrú fjárfesta á hlutabréfum félagsins.

Meðal annarra félaga sem hafa lækkað á árinu má nefna Síf en bréf þess hafa lækkað um tæp 12% það sem af er árinu, bréf Nýherja hafa lækkað um 17%, bréf Sæplasts um 13% og bréf Sölumiðstöðvarinnar, SH, hafa lækkað um tæp 2%. Þess skal getið að eignarhald Sölumiðstöðvarinnar er orðið svo þröngt að hún uppfyllir ekki lengur skilyrði um skráningu í Kauphöllina og detta því bréf félagsins úr úrvalsvísitölunni frá og með deginum í dag.

Í stað bréfa SH kemur Fjárfestingafélagið Atorka nýtt inn í úrvalsvísitöluna. Vitandi það sem maður veit í dag hefði verið ákaflega skynsamlegt að fjárfesta í því félagi rétt fyrir síðustu áramót. Fjárfesting fyrir 100.000 kr. væri í dag orðin að um 222.000 kr., fyrir utan greiddan arð á árinu. Þetta jafngildir um 270% ávöxtun á ársgrundvelli sem verður að teljast afar gott.

Kb banki heldur áfram að stækka og bréf félagsins sömuleiðis að hækka. Nýlega bættist danskur banki við starfsemi félagsins, kaupverðið 85 milljarðar króna, takk fyrir. Verðmæti félagsins í dag telur tæpa 190 milljarða króna og hefur aukist um u.þ.b. 90 milljarða á árinu eða sem nemur um 90%. Ætla má að verðmætið aukist verulega á næstunni, líklega um e-a tugi milljarða króna, þar sem bankinn hyggst afla aukins hlutafjár til að fjármagna kaupin á danska bankanum. Verður þá verðmæti stærsta fyrirtækis landsins orðið svipað að umfangi og fjárlög ríkisins.

Medcare Flaga, eina félagið sem var nýskráð á síðasta ári, hefur aðeins rétt úr kútnum eftir að hafa farið illa af stað á árinu. Gengi félagsins var 6,3 um síðustu áramót, fór lægst í 4,6 í mars en lokagengi félagsins í gær var 6,5. Bréf Medcare eru því í dag rúmlega 8% dýrari en útboðsgengi þeirra í nóvember 2003 var en það var 6. Fyrstu viðskiptin í Kauphöllinni með bréf félagsins fóru þó fram á genginu 7 og því er enn töluvert í það að þeir fjárfestar sem keyptu á því gengi nái fjárfestingu sinni til baka.

Úrvalsvísitalan hækkaði um tæp 40% á fyrri helmingi ársins sem jafngildir um 95% hækkun á ársgrundvelli. Til samanburðar er ávöxtunarkrafa húsbréfa um 4,2% um þessar mundir og vextir á almennri bankabók ná ekki prósentinu. Þetta þýðir að milljón sem var lögð inn á almenna bankabók um áramótin hefur einungis ávaxtast um sem nemur fimm þúsund kalli á meðan húsbréfamilljón er orðin ríflega tuttuguþúsund krónum verðmeiri. Hefði verið fjárfest í úrvalsvísitölu hlutabréfa fyrir milljón um áramótin næmi hagnaðurinn tæpum fjögur hundruð þúsund krónum í dag. Það er því ljóst á þessu litla yfirliti hér að ofan að það er hægt að græða vel á því að fjárfesta í hlutabréfum. Þó verður ávallt að hafa það í huga að það er áhættumeira en aðrar fjárfestingar og í dag má telja nánast öruggt að markaðurinn hækki ekki eins hratt á seinni helmingi ársins og hann gerði á þeim fyrri, þ.e.a.s. ef hann hækkar yfirhöfuð.

Það skal tekið fram að í ofangreindum dæmum er ekki tekið tillit til arðgreislna félaganna á árinu.

Byggt er á upplýsingum sem finna má á vef Kauphallar Íslands, www.icex.is og vef Kb banka, www.bi.is.

Latest posts by Þórður Heiðar Þórarinsson (see all)