Sýklar svara fyrir sig

Í viðtali við The New York Times árið 1945 varaði vísindamaðurinn Alexander Fleming við því að misnotkun á pensilíni gæti valdið viðnámi sýkla við lyfinu. Aðeins fjórum árum eftir að hafist var handa við að fjöldaframleiða pensilín tóku menn eftir því að sýklar spruttu upp á sjónarsviðið sem höfðu myndað mótstöðu.

Í sögu HG Wells björguðu sýklar jarðarbúum undan oki Marsbúa

Ein af merkustu uppgötvunum síðustu aldar er án efa uppgötvun pensilínsins. Þegar lyfið komst í almenna notkun sannaði það sig fljótt sem öflugt vopn gegn sýklum og dró meðal annars úr því mikla mannfalli sem stríðsrekstri fylgir með því að gera mönnum kleift að meðhöndla sýkingar í sárum. Þó að Skotinn Alexander Flemning hafi átt mestan þátt í uppgötvun kosta pensilíns árið 1928, hafði franskur læknanemi, Ernest Duchesne, tekið eftir því árið 1897 að ákveðnar myglutegundir drepa bakteríur. Það var þó Flemning sem tókst að sýna fram á samband efnis, sem ákveðinn sveppur (Pencillium) framleiðir, og dauða sýkla. Því er heiðurinn að miklu leyti eignaður honum.

Fyrst í stað var lyfið einungis notað til að lækninga í hernaði en fljótlega eftir seinni heimstyrjöldina komst það í almenna notkun.

Í viðtali við The New York Times árið 1945 varaði Alexander Fleming við því að misnotkun á pensilíni gæti valdið viðnámi sýkla við lyfinu. Aðeins fjórum árum eftir að hafist var handa við að fjöldaframleiða pensilín tóku menn eftir því að sýklar spruttu upp á sjónarsviðið sem gátu staðist lyfið. Þrátt fyrir viðvaranir Flemnings var allt til ársins 1950 hægt að fá pensilín án lyfseðils sem leiddi til þess að lyfið var notað sem undralyf við öllum sjúkdómum, hvort sem þeir voru af völdum sýkla eða ekki. Í lok sjötta áratugarins var sýnt fram á með tilraunum að allt að 59% af sýklum sem ollu sjúkdómum sýndu viðnám við pensilíni.

Vegna þessarar þróunar var öllu árum róið að því að betrumbæta pensilín og finna aðrar leiðir til að vinna á sýklum. Sú viðleitni leiddi af sér fleiri en 150 tegundir sýklalyfja sem nú á dögum eru notaðar í meðhöndlun sýkinga.

Með aukinni notkun á sýklalyfjum hefur stofnum sem eru ónæmir fyrir virkni þeirra fjölgað mikið og með grófri nálgun má því miður má segja að öfugt samband sé milli aukinnar notkunnar sýklalyfja og fjölda stofna slíkra sýkla. Sýklar búa yfir öflugum leiðum til að mynda andstöðu við virkni sýklalyfja ekki síst vegna hraðrar fjölgunar og þróunar sem tryggir framgang ónæmra stofna. Sýklar geta einnig flutt gen til skyldra sýkla með samokun (e. conjugation) sem felst í því að plasmíð sem innihalda gen fara á milli lífvera og flytja m.a. ónæmi. Vegna þessa eiginleika sýkla til að aðlagast getur ónæg lyfjagjöf og misnotkun sýklalyfja aukið enn frekar á ónæmi við sýklalyfjum. Jafnframt er algengt að sjúklingar hætti að taka inn sýklalyf áður en ráðlagður skammtur er kláraður þegar merki um bata finnast sem auðveldar sýklum að byggja upp andstöðu.

Með aukinni kröfu um hagkvæmni og eftirspurn eftir ódýrum matvælum hefur notkun sýklalyfja aukist í matvælaframleiðslu til að minnka líkur á sjúkdómum og dauða búpenings. Jafnframt eru alls kyns hreinlætisvörur orðnar vinsælar sem innihalda efni sem eiga að drepa 99% (hvað ætli verði um þetta 1% sem verður eftir) þeirra sýkla og baktería sem þær komast í tæri við. Hvoru tveggja hefur þær aukaverkanir að stofnar sýkla sem standast slík efni styrkjast sem aftur eykur enn frekar líkur á útbreiðslu sjúkdóma sem ekki er hægt að meðhöndla með hefðbundnum sýklalyfjum.

Afleiðingar þessarar þróunar er þær að veikindi orsökuð af sýklum sem eru ónæmir fyrir sýklalyfjum valda mun hægari bata en ella eða dauða þeirra sem kljást við sjúkdóma af völdum sýkla. Vegna þess að lengri tíma tekur að lækna þá sem sýkjast er jafnframt meiri hætta á að sýklarnir nái meiri dreifingu þar sem smitberar eru lengur meðal heilbrigðs mannfjölda. Þó í flestum tilfellum sé hægt að meðhöndla sjúklinga sem sýna engin batamerki við inntöku á hefðbundnum sýklalyfjum metur Alþjóða heilbrigðisstofnunin (WHO) að nokkrir sjúkdómar, sem áður var hægt að lækna með sýklalyfjum, muni ekki verða læknanlegir með slíkum lyfjum innan tíu ára.

Vegna þessara þróunar ýtti Alþjóða heilbrigðisstofunin úr vör átaki til að taka á vaxandi vandamálum tengdum ónæmi sýkla við þekktum lyfjum. Flestir viðurkenna þó að slík barátta er mjög erfið þar sem miklir hagsmunir eru í húfi og ekkert minna en samstillt átak allra jarðarbúa dugir vegna þeirrar einföldu staðreyndar að sýklar virða ekki landamæri.

Ljóst er að almenningur verður að vakna til vitundar um hættur sem fylgja aukinni notkun sýklalyfja til að tryggja að komandi kynslóðum öryggi fyrir þeim sjúkdómum sem taldir eru frekar meinlausir nú á tímum. Fyrsta skrefið er þó líklega að koma í veg fyrir misvitra notkun á sýkladrepandi efnum t.d. í matvælum og sápum og tryggja rétta notkun sýklalyfja.

Heimildir og ítarefni:

World Health Organization, fact sheet no. 194

US Food and Drug Administration

History of Antibiotics

Latest posts by Brynjólfur Stefánsson (see all)

Brynjólfur Stefánsson skrifar

Brynjólfur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.