Rakhnífur Vipuls

Tölvupóstur og veraldarvefurinn eru þær uppfinningar sem áttu stærstan þátt í að gera Internetið, net allra neta, að veruleika. Nú er svo komið að meirihluti tölvupóst er ruslpóstur af ýmsu tagi og margir eru þeirrar skoðunar að kerfinu sé ekki viðbjargandi.



Tölvupóstur og veraldarvefurinn eru þær uppfinningar sem áttu stærstan þátt í að gera Internetið, net allra neta, að veruleika. Fyrsti tölvupósturinn var sendur árið 1971 og tæknin náði strax miklum vinsældum, enda hefur hún marga augljósa kosti. Skeytið er hægt að senda án þess að reisa afturendann upp úr skrifborðsstólnum, sendingarkostnaður er nánast enginn, formið er knappt svo innhald, frekar en útlit, er sendandanum efst í huga við ritun skeytisins, yfirleitt berst skeytið mjög hratt á leiðarenda, viðtakandi getur lesið skeytið þegar honum hentar, lítil hefð er fyrir formlegheitum og auðvelt er að senda mörgum sama skeytið í einu. Um áratuga skeið nutu Internetnotendur kosta tölvupóstsins og gallar virtust fáir.

Þegar notendum Internetsins fjölgaði gífurlega, á seinni hluta tíunda áratugsins, fór hins vegar að bera á ófyrirséðum vandamálum í tölvupóstkerfinu. Eiginleikarnir, sem gerðu kerfið að fljótlegum, ódýrum og þægilegum samskiptamáta, gerðu það einnig mjög eftirsóknavert sem auglýsingamiðil. Með veldisvexti í notendafjölda varð hvatinn til þess að misnota kerfið í auglýsingaskyni sífellt meiri og meiri. Komu þá einnig í ljós nokkrir gallar, sem erfitt hafði verið að sjá fyrir þegar Internetið var eingöngu notað af þröngum hópi (aðallega háskólamönnum). Alvarlegasti gallinn er sá að mjög auðvelt er að falsa netfang sendanda og því er erfitt að hafa upp á þeim sem misnota kerfið. Nú er svo komið að meirihluti tölvupóst er ruslpóstur af ýmsu tagi og margir eru þeirrar skoðunar að kerfinu sé ekki viðbjargandi. Ekki eru þó allir tilbúnir til að gefast upp svo auðveldlega

Síðustu ár hefur eins konar vígbúnaðarkapphlaup verið þreytt á Internetinu milli ruslpóstsendenda og andstæðinga þeirra. Vopnin eru ekki langdrægar eldflaugar heldur forrit. Ruslpóstsendendur skrifa forrit sem senda sjálfvirkt þúsundir skeyta, en andstæðingarnir skrifa ruslpóstsíur til þess að flokka ruslpóstinn sjálfvirkt frá venjulegum pósti. Flestar ruslpóstsíur byggja á þeirri hugmynd að þar sem ruslpóstur er nokkuð einsleitur (mikið af ruslpósti innheldur t.d. orðasambandið „enlarge your penis“) þá sé auðvelt að flokka hann frá með því að láta tölvu leita að þekktum orðum og orðasamböndum. Gallin við þessa einföldu hugmynd er sú að um leið og ruslpóstsendendurnir komast að því að nýtt orð er komið í síuna, þá breyta þeir textanum örlítið (útkoman verður þá oft eitthvað í líkingu við „enl@rge y0ur pen1s“). Þannig heldur kapphlaupið áfram hring eftir hring. Nýlega varð þó á vegi höfundar ruslpóstsía sem byggir á allt annarri hugmynd.

Rakhnífur Vipuls (e. Vipul’s Razor) er ruslpóstsía sem byggir á því að notfæra sér uppsafnaða, sameiginlega gremju tölvupóstnotenda um allan heim til þess að berjast gegn ruslpóstflóðinu. Hugmyndin er sú að þar sem sami ruslpósturinn er yfirleitt sendur þúsundum manna í einu, þá ætti í raun að vera nóg að einn lesi hann, sannfæri sig um að hann sé rusl, og sendi upplýsingar um póstinn í miðlægan gagnagrunn. Tölvur móttakenda bera svo hvern tölvupóst sem berst sjálfvirkt saman við gagnagrunninn og flokka frá þann póst sem tilkynntur hefur verið sem rusl. Augljós kostur við þessa aðferð er að þar sem hver póstur er lesinn af mennskum athuganda er minni hætta á að Rakhnífurinn flokki, fyrir mistök, persónulegan póst sem rusl, því ef skeytið er aðeins sent í einu eintaki skiptir ekki máli þótt það sé óvart tilkynnt í gagnagrunninn. Höfundur hefur notað Rakhníf Vipuls með góðum árangri undanfarna mánuði, en ekki er laust við að hluti af ánægjunni við þá notkun hafi verið fólgin í því að geta loksins slegið til baka og hefnt sín örlítið með því að senda ruslpósttilkynningu í gagnagrunninn góða.

Frekari fróðleikur:

Viðtal við Ray Tomlinson, föður tölvupóstsins.

SpamAssassin er vinsæl ruslpóstsía.

Heimasíða Vipul’s Razor