Óþekkta nektardansmærin

Fyrir nokkrum dögum varð mikið fjaðrafok í íslenskum fjölmiðlum vegna frétta sem bárust frá ráðstefnu í Eistlandi. Íslensku erindrekarnir sem sátu ráðstefnuna komu heim og kváðust hafa orðið áskynja um það að eistlenskar og lettneskar nektardansmeyjar væru neyddar til að stunda vændi hér á landi. Deiglan rannsakar trúverðuleika fréttanna.

Fyrir nokkrum dögum varð mikið fjaðrafok í íslenskum fjölmiðlum vegna frétta sem bárust frá ráðstefnu í Eistlandi. Íslensku erindrekarnir sem sátu ráðstefnuna komu heim og kváðust hafa orðið áskynja um það að eistlenskar og lettneskar nektardansmeyjar væru neyddar til að stunda vændi hér á landi. Hvorki meira né minna.

Þetta vakti vitaskuld mikla athygli, helstu dagblöð fjölluðu ítarlega um málið og einnig voru ítarlegar fréttir um þetta í sjónvarpsfréttum Ríkissjónvarpsins og Stöðvar 2. Einn erindrekanna kom í viðtal í sjónvarpsfréttunum og fjallaði um reynslu þeirra. Það kom á daginn að eftir ráðstefnuna höfðu íslensku erindrekarnir talað við ónafngreinda lögreglumenn sem hefðu tjáð þeim að ónafngreindar nektardansmeyjar hefðu tjáð þeim að nektardansmeyjar á Íslandi væru neyddar út í vændi. Leið upplýsinganna er því eftirfarandi:

1. Einhver atburður
2. Óþekktar nektardansmeyjar
3. Ótiltekinn fjöldi af ónafngreindum lögreglumönnum
4. Íslensku erindrekarnir
5. Íslenskir fjölmiðlar

Upplýsingarnar sem fréttirnar voru byggðar á eru því vægast sagt mjög óáreiðanlegar og vafasamar. Fullt af milliliðum, engar upplýsingar eru fengnar frá fyrstu hendi, engar skýrslur eða skriflegar heimildir heldur eingöngu munnmæli og flestir heimildarmannanna eru ónafngreindir eða algjörlega óþekktir. Ekkert af þessu myndi nokkurn tíma standast fyrir rétti en skilyrði þess að menn geti borið vitni um ákveðin atvik er að þeir hafi orðið áskynja um þau af eigin raun. Hvorki íslensku erindrekarnir né lögreglumennirnir upplifðu neitt af eigin raun og í raun er alls óvíst hvort óþekktu nektardansmeyjurnar gerðu það eða voru að hafa eitthvað eftir sem þær höfðu heyrt á förnum vegi.

Það vekur athygli að íslenskir fjölmiðlar skuli vera reiðubúnir að birta fréttir byggðar á jafn hæpnum heimildum og raun ber vitni. Íslenskir fjölmiðlar virðast hafa verið alveg gagnrýnislausir í þessu máli og leyft að “fréttin” væri matreidd tiltölulega hrá ofan í þá.

Reyndar er algjör óþarfi fyrir íslenska fjölmiðla að fara út fyrir landsteinana til þess að gera fréttir um íslenska nektarstaði byggða á sögusögnum. Það er yfirdrifið nóg af innlendum sögusögnum sem ganga út um allan bæ um meint vændi og siðspillingu sem á að viðgangast inni á þessum stöðum. Íslenskir fjölmiðlar ættu því miklu frekar að taka viðtal við einhvern íslenskan “heimildarmann” og slá því upp í öllum fréttatímum. Sá gæti sagt frá ónafngreindum vini sínum sem heyrði frá öðrum ónafngreindum vini að sá vissi að það væri stundað vændi inn á nektarstöðum. Tvímælalaust stórfrétt!!!

Umræða um nektarstaði, vændi og mansal hér á landi er því miður oftast af þessum meiði. Engar sannanir eða staðreyndir heldur eingöngu sögusagnir og ábyrgðarlaust og órökstutt tal sjálfskipaðra siðapostula sem er vita haldlaust þegar á reynir. Ef skipulagt mansal viðgengst hér á landi og konur neyddar í vændi þá eru það hræðilegar fréttir. Hins vegar virðast menn alltaf vera uppteknari af því að slá sjálfa sig til riddara í fjölmiðlum heldur en að upplýsa þessa meintu glæpi enda hefur ekki komið fram snefill af sönnunargögnum til að styðja þessar fullyrðingar. Allur tíminn fer í eins konar keppni í fjölmiðlum í því hver sé hreinastur og siðvandastur. Keppnin stigmagnast sífellt á meðan menn mana hvorn annan upp í sífellt meiri og meiri vandlætingu á nektarstöðum og því “ógæfufólki” sem vinnur á slíkum stöðum og stundar þá.

Í þessu máli eins og svo mörgum öðrum verður að sýna ábyrgð. Ef skipulagt mansal er stundað hér á landi þá verður að grípa til þeirra aðgerða sem eru bestar fyrir fórnarlömbin, ekki fyrir stjórnmálamenn eða aðra sem hafa gert þetta að sínu hjartans máli. Spyrja má hvort sé líklegra til að gagnast þeim aumu sálum sem hafa orðið fyrir barðinu á skipulögðu mansali og kúgun til að stunda vændi. Annars vegar að einhverjir einstaklingar fái fróun fyrir eigin skoðanir í fjölmiðlum með ábyrgðarlausu og órökstuddu tali (t.d. um nornaveiðar gegn löglegum nektarstöðum án vitneskju um það hvort ólögleg starfsemi þrífist þar). Eða hins vegar að rannsaka málið, uppræta það og refsa þeim sem standa á bak við mansalið. Hvort er betra fyrir fórnarlömbin? Mér er spurn.

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.