Sömu lög fyrir alla?

Kanadamenn standa frammi fyrir um margt merkilegu álitaefni þessa dagana, sem vakið hefur heitar umræður og ekki síður spurningar um fordóma í þjóðfélaginu. Hópur múslima vill fá að styðjast við löggjöf múslima sín á milli.

Kanadamenn standa frammi fyrir um margt merkilegu álitaefni þessa dagana, sem vakið hefur heitar umræður og ekki síður spurningar um fordóma í þjóðfélaginu. Hópur múslima í Ontario-fylki vill fá að styðjast við löggjöf múslima, svokallaða sharia-löggjöf, sín á milli í málefnum fjölskyldunnar.

Samkvæmt vefsíðu kanadíska blaðsins ,,Toronto Star” hófst þetta allt með lögum sem sett voru árið 1991, en samhljóða lög hafa verið sett í öðrum fylkjum Kanada. Lög þessi leyfa deiluaðilum að láta ólöglærðan þriðja aðila útkljá málefni sín, önnur en sakamál. En þess er einnig krafist að deiluaðilarnir kjósi þessa leið sjálfviljugir. Niðurstöðuna má síðan bera undir venjulega dómstóla síðar meir ef menn telja sáttina hafa verið ósanngjarna, ólöglega o.s.frv. Þessi aðferð hefur aukist mikið, enda er hún bæði ódýr í framkvæmd og léttir á málafjölda dómstólanna.

Boðið hefur verið upp á þessa sáttaumleitan bæði í kirkjum kristinna og samkomuhúsum gyðinga í Ontario. Vandamálið byrjaði hins vegar þegar um fimmtíu múslimar í fylkinu settu á fót íslamska stofnun til að framfylgja sharia-löggjöfinni. Ekki var þó tekið sérstaklega fram hvers konar sharia-lögum fylgja ætti, því ýmis konar útgáfur hafa þróast af þeim.

,,Sharia” deilist niður í nokkrar misréttháar heimildir. Kóraninn er þeirra æðstur, enda átti hann að ná yfir öll svið mannlegs lífs. Mannlífið hefur hins vegar reynst flóknara en svo að Kóraninn nái yfir það allt, svo leitað var í það sem Múhameð sjálfur hafði sagt og gert – það kallast ,,Sunnah”. Á næstu öldum á eftir túlkuðu lögspekingar Kóraninn og Sunnah, eða alveg þangað til á 10. öld er því var talið lokið. Þessar túlkanir nefnast ,,Imja” Á síðari tímum hefur þurft að þróa frekari löggjöf og hefur þá verið gripið til þess ráð að færa meginhugsunina úr hinum æðri heimildum upp á atvik dagsins í dag, en það nefnist ,,Kiyas”. Löggjöfin hefur síðan þróast í mismunandi átt í múslimskum löndum og er Afganistan á tímum Talibana dæmi um mjög stranga löggjöf.

En svo við víkjum aftur til Kanada þá hefur þessi ákvörðun múslimanna í Ontario verið umdeild, eins og fyrr segir. Meira en 600 þúsund múslimar búa í Kanada, þar af 352 þúsund í Ontario. Hópurinn í Toronto er því aðeins brotabrot af múslimum í fylkinu. En hvaða rök má færa fyrir því að banna múslimum að nýta þessa aðferð, en leyfa hana meðal kristinna manna og gyðinga?

Andstæðingar þess að beita megi sharia-löggjöfinni hafa bent á bága stöðu kvenna í heimi múslima, dæmi þess að konur hafi verið grýttar til bana fyrir framhjáhald og fleira í þeim dúr. Þá segja þeir einnig að ekki skuli gilda mismunandi lög fyrir mismunandi konur. Á móti hefur það verið nefnt að allar ákvarðanir þessara ,,dóma” megi bera undir dómstóla, þar sem kanadísk lög gilda. Jafnframt hefur á það verið bent að karlmenn jafnt sem konur nýti sér þessa leið að eigin vali. Sumir hverjir halda því jafnvel fram að öll þessi umræða beri merki um aukna fordóma í garð múslima eftir 11. september.

Það er rétt hægt að ímynda sér að mál sem þetta vekti miklar umræður hvar sem það bæri niður á Vesturlöndum. Kanadamenn hafa löngum verið þekktir fyrir umburðarlyndi í garð innflytjenda og ólíkra þjóðarbrota. Það er þó hægt að taka undir sjónarmið þeirra Kanadamanna sem segja að ekki sé hægt að þröngva sharia-löggjöfinni upp á þá sem það ekki vilja. Múslimar geti boðið upp á sáttaumleitan rétt eins og gert er í kirkjum og bænahúsum, en ekki sé hægt að hafa ein lög fyrir einn trúarhóp og önnur fyrir annan. Sömu lög eigi að gilda um alla í þjóðfélaginu, sama hvaða trú þeir aðhyllast. Sömu sjónarmið ættu því einnig að eiga við um lögin frá 1991, annað hvort gilda þau fyrir alla eða engan.

Latest posts by Fanney Rós Þorsteinsdóttir (see all)