Gleymdur merkisdagur

Ritstjórn Morgunblaðsins skammaði stúdenta heldur harkalega í leiðara þann 6. júní sl. Þar sagði m.a. að stúdentum hefði verið treyst fyrir því að halda fullveldisdaginn, 1. desember, í heiðri en aldrei náð deginum á flug. Tilefnið var sjómannadagurinn og hátíðarhöld í kringum hann.

Ritstjórn Morgunblaðsins skammaði stúdenta heldur heldur harkalega í leiðara þann 6. júní sl. Þar sagði m.a. að stúdentum hefði verið treyst fyrir því að halda fullveldisdaginn, 1. desember, í heiðri en aldrei náð deginum á flug. Tilefnið var sjómannadagurinn og hátíðarhöld í kringum hann.

Það er auðvitað rétt að dagurinn hefur aldrei komist á flug en það er af og frá að við stúdenta sé að sakast. Þannig hefur það verið að stúdentar við HÍ og Háskóli Íslands hafa einir minnst fullveldisins ár hvert með ráðstefnuhaldi, guðsþjónustu og minningarstund um Jón Sigurðsson. Það tómlæti sem við Íslendingar sýnum fullveldisdeginum er hrein þjóðarhneisa og vanvirðing fyrir sögu okkar og gagnvart fólkinu sem barðist af fórnfýsi og dugnaði fyrir auknum landsréttindum. Skuggahliðar áranna 1917-´18 hafa legið eins og mara yfir þessum atburði og verið eins konar afsökun seinni tíma manna fyrir því af hverju fullveldisins er ekki minnst með sómasamlegri hætti. Það er opinber söguskýring að spænska veikin, frostavetur (sem var reyndar veturinn áður), erfitt árferði í efnahagsmálum við lok fyrra stríðs og jafnvel Kötlugos séu ástæður fyrir lítilli kjörsókn í þjóðaratkvæðagreiðslu um Sambandslagasamninginn. Margt af þessu hefur sennilega gert það að verkum að stemmningin í samfélaginu var lítil þann 1. desember 1918. Fólk átti einfaldlega erfitt fyrir.

Fullveldi Íslands er að mínu mati merkilegasti áfangi sjálfstæðisbaráttunnar. Með því var Ísland viðurkennt sem frjáls og fullvalda þjóð í samfélagi ríkjanna. Ísland varð að ríki í sameiginlegu konungssambandi við Danmörku. Þjóðirnar voru þar með orðnar jafnokar. Það sem kom síðar, þ.e. sjálfstæði Íslands árið 1944, var mun formlegra, enda gilti Sambandslagasamningurinn til ársins 1943, eða í 25 ár. Ég held að flestir hafi gert sér grein fyrir því strax á 3. áratugnum að íslensk stjórnvöld og íslenska þjóðin myndu ekki óska eftir framlengingu á sambandinu við Dani.

Fullveldisdagurinn ætti ekki aðeins að vera frídagur í skólum heldur einnig almennur vetrarfrídagur. Til þess að svo megi verða þarf þjóðin að vakna til lífsins með stjórnvöld í broddi fylkingar. Stúdentar hafa haldið upp á fullveldisdaginn við lítil efni og oftast þegar erfið prófa- og verkefnavinna er í algleymingi. Ef þáttur stúdenta væri ekki til staðar þá væri 1. desember jafnvel fallin í gleymsku eins og ýmsir eldri merkisdagar.

Latest posts by Eggert Þór Aðalsteinsson (see all)