Ronald Reagan

Ronald Reagan, ein elskaðasta en jafnframt umdeildasta persóna síðustu áratuga, lést í gær eftir áralanga baráttu við Alzheimer’s sjúkdóm. Hann var 93 ára að aldri. Hans verður minnst fyrir mikla mælsku, húmor og sem öflugs baráttumanns fyrir frjálshyggju og gegn kommúnisma.

Ronald Reagan, ein elskaðasta en jafnframt umdeildasta persóna síðustu áratuga, lést í gær eftir áralanga baráttu við Alzheimer’s sjúkdóm. Hann var 93 ára að aldri.

Reagan var óumdeilanlega einhver mælskasti stjórnmálamaður síðari tíma. Honum tókst betur en flestum öðrum að setja hugmyndafræði sína fram á einföldu og áhrifamiklu máli, oft í formi eftirminnilegra frasa. Þessi hæfileiki hans gerði hann að áhrifamiklum leiðtoga sem fólk fylkti sér á bak við, elskaði og dáði. Mælskan gerði honum einnig kleift að gjörbreyta á skömmum tíma pólitískri umræðu í Bandríkjunum.

Hugmyndafræðin sem þá var alls ráðandi í umræðu um efnahagsmál í Bandaríkjunum byggðist á New Deal hugmyndafræði Roosevelts og Great Society hugmyndafræði Johnsons. Segja má að Reagan hafi fært umræðu um efnahagsmál í Bandaríkjunum verulega til hægri með áhrifamikilli baráttu fyrir frjálshyggju. Einn eftirminnilegasti frasi Reagans var: „Government is not the solution. Government is the problem.“

Eitt af markmiðum Reagan var að endurreisa sjálfstraust Bandaríkjanna eftir Vietnam stríðið, olíukreppurnar á 8. áratuginum, Watergate hneykslið og gíslatökuna í Íran árið 1980. Í forsetakosningunum 1980 lofaði Reagan „[a new] Morning in America“. Stefna hans einkenndist af óbilandi sjálfstrausti hans fyrir hönd bandarísku þjóðarinnar. Þessi stefna kom til dæmis skýrt fram í utanríkismálum þar sem hann eyddi miklu fé í að byggja upp bandaríska herinn eftir langt tímabil hnignunar í kjölfar Vietnam stríðsins. Hann var óbilgjarn í garð Sovietríkjanna. Uppnefndi þau „the Evil Empire“. Sérstaklega eftirminnilegt er það þegar hann stóð við Berlínarmúrinn árið 1987 og sagði: „Mr. Gorbachev, tear down this wall!“

En Reagan verður einnig minnst sem mikils húmorista. Hann hafði einstakt lag á því að snúa út úr erfiðum spurningum með húmor sem sló öll spilin úr höndunum á andstæðingum hans. Eitt sinn var hann spurður hvernig hann hyggðist eiga við fjárlagahalla Bandaríkjanna sem þá hafði hækkað mjög mikið frá því hann tók við völdum. Reagan glotti og sagði: „The federal deficit is big enough that it can take care of itself.“ Í kosningabaráttunni 1984, þegar hann var spurður hvort hann efaðist um að geta starfað sem forseti annað kjörtímabil sakir þess að hann var þá 73 ára, svaraði hann: „I will not make age an issue of this campaign. I am not going to exploit for political purposes my opponent’s youth and inexperience.“

Reagan hefur síðustu tuttugu ár vakið upp mjög sterkar tilfinningar hjá fólki. Margir vilja þakka honum allt gott sem gerst hefur í efnahagsmálum í Bandaríkjunum á síðustu 20 árum. Sú skoðun er einnig útbreidd að stefna hans í utanríkismálum hafi leitt til hruns Sovietríkjanna og því sé sigur vestrænna ríkja í kalda stríðinu honum að þakka. Aðrir eru meira efins; tala um stefnu hans í efnahagsmálum sem voodoo-hagfræði og telja að stefna hans hafi haft ömurlegar afleiðingar fyrir þá sem minna mega sín í Bandaríkjunum og fyrir fólk í þeim ríkjum þar sem kalda stríðið var heitt stríð en ekki kalt.

Eitt er þó ljóst. Einörð barátta Reagan (og Thatcher í Bretlandi) fyrir frjálshyggju og minni ríkisumsvifum var vendipunktur í því að stöðva útþenslu ríkisins í hagkerfum vestrænna ríkja. Málflutningur hans og stefna gjörbreyttu hugmyndum manna um skynsamlega skattastefnu og urðu til þess að vægi hugmynda um frjálshyggju og einstaklingshyggju jukust til muna í pólitískri umræðu, ekki aðeins í Bandaríkjunum, heldur um heim allan. Þessi arfleifð Reagan er mikilvæg þegar til lengri tíma er litið í baráttunni gegn fátækt og ánauð í heiminum.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)