Hvítasunnuhugvekja 2004

Í hugvekju á hvítasunnudegi fjallar sr. Kjartan Örn Sigurbjörnsson um kirkjuna, réttlætið og friðinn. „Allir þeir sem leggja lífinu lið og verja hið smáa gegn vargi og vá, þeir hafa hlotið gjöf andans og leggja mennskunni lið,” segir hann meðal annars.

Ég stend við gluggann minn og horfi út á hafið og sé vargfuglinn næla sér í æðakolluunga og kokgleypa – og ég fylllist vanmáttugri reiði yfir þessum ósköpum. Er það ekki inngróið í okkur að vilja vernda og varðveita það veika og smáa? Hver hefur ekki grátið yfir sögunni um Bamba eða staðið heilshugar með selnum Snorra í baráttu hans við illfyglin í hafinu. Það er með öðru þessi tilfinning sem gefur okkur mennskuna og hefur okkur yfir annað skapað. Það gerir okkur að manneskjum að við getum fundið til í sálinni og okkur stendur ekki á sama um aðra eða annað í lífinu.

Auðvitað er það þannig að hver og einn verður að haga sér eins og náttúran hefur áskapað honum. Vargfuglinn gleypir ekki lítinn og ljúfan æðakolluunga af einskærri grimd og vonsku. Þetta er honum eðlislægt og við getum ekki gert neinar siðferðiskröfur á hendur fuglinum. En þar skilur á milli mannsins og annarra tegunda í dýraríkinu. Við erum ekki aðeins hinn upprétti maður og vitiborni heldur einnig siðgæðisvera sem skoðar sjálfa sig í ljósi viðurkenndra siðareglna og leggur á breytni sína mælistiku þess hefðbundna og viðurkennda.

Sá grunnur sem vestrænar þjóðir leggja að lífsskilningi og siðferðismati er rótfastur í kenningum og starfi kristinnar kirkju í tvö þúsund ár. Auðvitað hefur margt borið við á langri leið og alltof oft hefur skammsýni, ofstæki og hroki haft í för með sér sviðna jörð, sorg og trega – en þar sem kirkjan hefur verið heil og heilög þar hefur hún starfað til blessunar fyrir einstaklinga og þjóðir og komið mörgu góðu til leiðar. Kirkjan hefur með græðandi boðskap sínum um fyrirgefningu, sátt og ábyrgð mannsins gagnvart náunganum og skaparanum, hlúð að því besta í samfélagi fólks á öllum tímum. Þannig er það enn í dag. Það er þess vegna sem fólk rís upp gegn ofríki og miskunnarleysi. Það er þess vegna sem fólk í öllum löndum neitar að gangast undir ófrelsi eða að samþykkja niðurlægingu annarra manna jafnvel þó að slíkt gerist fjarri heimabyggð. Við látum okkur ekki standa á sama. Við viljum vernda æðakolluungann fyrir vargfugli samtímans hvar sem er og hver sem á í hlut.

Við viljum ekki standa vanmáttug hjá og láta ofbeldið ganga fram án þess að reyna að gera það sem í okkar valdi stendur til að hafa áhrif. Það er þess vegna sem fólk tekur þátt í starfi alþjóðlegra stofnanna eins og Amnesty og Rauða krossinum eða fólk mótmælir í orði og á borði vondum valdhöfum sem hafa misst sjónar á því hvað til friðar heyrir. Það er öllum hollt að hafa í huga eftirfarandi orð úr Jakobsbréfinu: „En ávexti réttlætisins verður sáð í friði þeim til handa, er frið semja.“ ( Jak. 3:18)

Og nú er hvítasunnudagur. Afmælisdagur kirkjunnar þegar kristið fólk minnist þess að heilagur andi kom yfir postulana. Þá var stofnað mannréttindafélag og friðarhreyfing sem hefur breiðst út og haft mikil áhrif. Grunnstefið í kristinni trú er virðing fyrir öllum mönnum. Viðurkenning á því að sérhver maður á að vera frjáls og hefur rétt á að lifa lífi sínu til fulls og í friði. En um leið á hann að fylgja siðgæðiskröfu trúarinnar sem krefur okkur um samúð, miskunnsemi og fyrirgefningu. Og við eigum að láta okkur annt um þá sem eru með okkur á veginum. „Berið hver annars byrðar og uppfyllið þannig lögmál Krists.“ (Gal. 6:2)

Við þurfum ekki að taka frásögunni í upphafi Postulasögunni um gjöf andands sem fullgildri sagnfræði en trúarlega er hún mikilvæg til skilnings á því hvernig fyrstu lærisveinarnir skildu orð Jesú, líf hans og dauða. Andinn sem komyfir postulana var hans og ávöxtur andans var og er: „Kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska“ Gal. 5:22

Þannig trúi ég því að allt sem bætir og blessar og allir þeir sem leggja lífinu lið og verja hið smáa gegn vargi og vá, þeir hafa hlotið gjöf andans og leggja mennskunni lið. Þeirri mennsku sem segir : „Gætið þess, að enginn gjaldi neinum illt með illu, en keppið ávallt eftir hinu góða, bæði hver við annan og við alla aðra.“ (1. Þessaloníkubréf 5:15)

Ef kirkjan starfar í þessum anda þá verður hún áfram mannréttindafélag og friðarhreyfing og verður stöðugt fleinn í hold þeirra sem ganga fram af frekju og með ófriði.

Gleðilega hvítasunnuhátíð.

Latest posts by Sr. Kjartan Örn Sigurbjörnsson (see all)