Af kosningaloforðum Framsóknarflokksins

Stefna framsóknarflokksins í menntamálum var nokkuð skýr fyrir síðustu kosningar og létu ungir frambjóðendur flokksins sitt ekki eftir liggja í að lofa hinu og þessu. Í ljós nýrra úthlutunarregla Lánasjóðs íslenskra námsmanna er vert að staldra við og skoða þessi loforð.

Þegar kosningar nálgast leggja þeir flokkar sem í framboði eru yfirleitt fram stefnur sínar í hinum ýmsu málaflokkum. Slíkar stefnuskrár fjalla þannig um þau mál sem viðkomandi flokkur vill vinna að á kjörtímabilinu, ef hann nær kjöri. Að vissu leyti eru slíkar stefnuskrár eins konar loforðaskrár.

Stefna Framsóknarflokksins í menntamálum fyrir síðustu Alþingiskosningar var nokkuð skýr. Framsóknarflokkurinn lagði í viðamikla auglýsingaherferð, með sjónvarpsauglýsingum og heilsíðum í dagblöðum, með það að markmiði að ná til ákveðins markhóps sem var ungt fólk. Í stefnu flokksins í málefnum Lánasjóðs íslenskra námsmanna kom m.a fram að flokkurinn vildi að framfærslugrunnur sjóðsins yrði endurskoðaður, hluti af lánum þeirra sem lyku námi sínu innan tilskilins tíma myndu breytast í styrk og að ákvæði um ábyrgðarmenn yrði afnumið.

Endurskoðun á úthlutunarreglum Lánasjóðsins fer fram á hverju vori og voru nýjar úthlutunarreglur fyrir næsta skólaár kynntar nú fyrir stuttu. Þeir fjármunir sem varðir voru til breytinganna í ár voru mun lægri en undanfarin ár sem skýtur skökku við þar sem lánþegum hefur fjölgað gífurlega mikið og stefnir nú í metár hjá sjóðnum.

Hinir ungu frambjóðendur Framsóknarflokksins létu ekki sitt eftirliggja í að gefa loforð fyrir síðustu kosningar. Fremstur í flokki fór frambjóðandi sem nú situr inni á þingi og er varaformaður menntamálanefndar Alþingis. Sá frambjóðandi gaf skýr loforð á kosningafundi sem fram fór með ungu fólki á austurlandi síðasta vor. Kom þar fram að framfærslugrunnur Lánasjóðsins yrði endurskoðaður ef Framsóknarflokkurinn yrði í ríkisstjórn þar sem hann væri í engum takt við íslenskan raunveruleika. Sá frambjóðandi gagnrýndi einnig Sjálfstæðisflokkinn harðlega fyrir að styðja ekki nægilega við námsmenn. Í ljósi þessa er því nokkuð skrítið að þessi þingmaður hafi ekkert beitt sér þegar reglur sjóðsins voru endurskoðaðar fyrir stuttu, sérstaklega þar sem það fjármagn sem notað var til breytinganna var mun minna en undanfarin ár.

Reyndar hefur þingmaðurinn gefið það út að hún sé einfaldlega í ákveðnu liði á þingi, stjórnarliðinu, og þegar svo er þá fylgir maður einfaldlega sínu fólki. Tækifæri þingmannsins til að sýna að mark sé takandi á orðum hennar eru henni þó kannski ekki alveg glötuð. Þrjú ár eru enn eftir af kjörtímabilinu þó vissulega getur verið að kjósendur hennar gefist á endanum upp á biðinni.

Latest posts by Ingunn Guðbrandsdóttir (see all)