Fluga á vegg

Oft er sagt að menn vilji vera fluga á vegg, en ólíklegt er að margir vilji vera sú fluga sem fjallað verður um í þessum pistli, en hann fjallar um það afar vandasama verk sem almennileg hönnun salernisskála er.

Oft er sagt að menn vilji vera fluga á vegg, en ólíklegt er að margir vilji vera sú fluga sem fjallað verður um í þessum pistli, en hann fjallar um það afar vandasama verk sem almennileg hönnun salernisskála er.

Hönnun á salernum hefur lengi verið höfuðverkur hönnuða. Sérstaklega fróðlegt er hvernig salerni eru mismunandi á milli landsvæða og hvernig hönnuðir nota mismunandi aðferðir til að skola salernin. Annað sem hönnuðir hafa þurft að íhuga er hvernig koma á í veg fyrir að það skvettist úr salernum. Hafa menn meðal annars gripið til þess ráðs að hafa seturnar u-laga til að minnka líkur á dropum á setunni. Aðrir hafa sett miða sem á standa oft skemmtileg skilaboð litlum stöfun eins og “Ef þú ert nógu nálægt til að lesa til að lesa þetta..”

Önnur aðferð sem víða má sjá er máluð gervifluga á vegg salernisskála. Það voru hollenskir framleiðendur á salernisskálum sem komu fyrstir með “hollensku fluguna” en það var ekki fyrr en við stækkun við Schiphol sem flugan vakti almenna athygli. Þar voru skálarnar settar upp með mjög góðum árangri en niðurstaða rannsóknar þar sýndi að þar þurfti að þrífa salerni 80% sjaldnar þar sem flugan var.

Spyrja má af hverju fluga varð fyrir valinu en ekki eitthvað annað? Upphafleg hugmyndin er komin frá Bretlandi, þar voru ekki flugur heldur eitthvað skotmark sem minnti menn á eitthvað til að miða á. Hollendingarnir notuðu svo þessa hugmynd frá Bretunum, en hvernig flugan kom til er óljóst en líklega hefur drápseðli mannsins haft eitthvað með það gera. Síðar hefur komið fram önnur þýsk útgáfa sem er með kerti. Kannski á það að minna menn á að þeir séu að slökkva eld? Fleiri tegundir hafa svo litið dagsins ljós á allra seinustu árum.

Flugan hefur verið sett nálægt miðjunni en rétt vinstra megin. Fyrir þessu eru tvær ástæður. Annars vegar sú að reyna að beina bununni varlega að niðurfallinu þar sem hraðinn er minnkaður áður en hún lendir á botninum. Hinsvegar sú að flugan sé vinstra megin vegna þess flestir séu rétthentir, en hvernig það kemur í veg fyrir skvettur skal ósagt látið.

Þótt menn brosi líklega yfir hönnun salerna er um grafalvarlegt mál að ræða. Fjöldi manns starfar við hönnun á salernum og hafa menn gert miklar rannsóknir á venjum manna, m.a. kannað af hverju menn pissa yfirleitt í hliðar salerna en ekki beint í vatnið.

Um daginn brutust t.d út töluverð mótmæli eftir að Virgin Air setti upp pissuskálar sem voru í laginu eins og opinn kvenmannsmunnur. Af þessu má vera ljóst að ýmsu þarf að huga við góða hönnun á salernisskálum.

Latest posts by Tómas Hafliðason (see all)

Tómas Hafliðason skrifar

Höfundur hefur skrifað á Deigluna frá árinu 2002. Höfundur er verkfræðingur frá Háskóla Íslands og rekur eigið fyrirtæki.