Stóri Bróðir

Um þessar mundir er enginn þáttur í Bretlandi vinsælli en Stóri Bróðir (e. Big Brother). En Big brother er ekki eina tilfellið þar sem líf fólks er myndað í bak og fyrir. Það er annar og mun raunverulegri stóri bróðir að fylgjast með.

Um þessar mundir er enginn þáttur í Bretlandi vinsælli en Stóri Bróðir (e. Big Brother). Tólf einstaklingar voru valdir úr hópi 150 þúsund umsækjenda til að lifa undir smásjá Stóra bróður. Þátttakendurnir hafa verið lokaðir inni í húsi Stóra bróður og lífi þeirra er sjónvarpað til milljón manns á hverjum degi. Skemmtunin er svo sú að almenningur kýs út þann óvinsælasta í hópnum í hverri viku og þannig fækkar íbúunum um einn á viku þar til úr fæst skorið hver stendur uppi sem sigurvegari.

Myndavélar Stóra bróður eru allar vandlega faldar í húsinu og íbúarnir þurfa að ganga um með míkrafóna allan sólarhringinn. Íbúarnir mega ekki hafa neitt samband við umheiminn og t.a.m. hefur það valdið skiljanlegri gremju meðal nokkurra íbúanna að geta ekki fylgst með Englandi spila í HM. Íbúarnir eru mjög meðvitaðir um að stóri bróðir er að fylgjast með og hafa lagt sig fram um að sýna sínar góðu hliðar. Gríman er samt smátt og smátt að falla og hið raunverulega eðli flestra er óðum að koma í ljós.

Hvernig litist þér á að vera þátttakaandi í Stóra bróður? Hvernig litist þér á ef hver einasta hreyfing þín væri mynduð og fest á filmu þannig að fólk gæti fylgst með þér og dæmt út frá því sem það sér. Ímyndaðu þér hvaða afleiðingar þetta myndi hafa á hegðun þína? Mér finnst þessi tilhugsun mjög ógeðfelld.

En Big brother er sko sannarlega ekki eina tilfellið þar sem verið er að mynda líf fólks í bak og fyrir. Það er annar og mun raunverulegri stóri bróðir að fylgjast með. Það er ómögulegt að ganga um götur London án þess að lenda í myndabanka lögreglunnar. Nánast á hverju einasta götuhorni, í öllum lestum, lestarstöðvum og víða eru augu sem fylgjast með því sem fram fer. Það fer ekki mikið fyrir þessum myndavélum og maður er fljótur að gleyma þessum stóra bróður. En eins ógeðfeld og tilhugsunin um það er að einhver sé að fylgjast með manni þá er það furðulegt hversu falska öryggistilfinningu stóri bróðir getur veitt þegar myrkrið er skollið á.

Latest posts by Soffía Kristín Þórðardóttir (see all)

Soffía Kristín Þórðardóttir skrifar

Soffía hóf skrif á Deigluna í apríl 2001.